07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég hlýt nú að hafa misst úr eitthvað áðan því að umr. fer svo vítt um völl fyrir utan efni till. Auðvitað hlýtur starfsemi sláturhúsa eðli málsins skv. að verða nokkuð óhagkvæmur rekstur. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni er það 6–8 vikna nýtingartími á hverju ári sem þarna er um að ræða og sífellt eru gerðar vaxandi kröfur um aukið hreinlæti og vinnuaðstöðu alla. Einhvern veginn læðist sá grunur að mér líka að rekstur sláturhúsa, eins og reyndar annarra fyrirtækja í landinu, sé misjafn og að ein lausn muni varla duga til að sinna þörfum allra þeirra sem þar eiga hlut að máli.

Út af því hvort aðra starfsemi megi reka í húsakynnum sláturhúsa, þá er það sjálfsagt rétt að það er ekki um auðugan garð að gresja. Þó er það svo, að kjötvinnsla fer fram í húsakynnum sumra þeirra og með starfsliði sem starfar við sláturhúsin ella. Það má benda á að refafóður mætti vinna í húsakynnum nokkurra þessara sláturhúsa og er gert reyndar. Þá hefur verið hafin framleiðsla á gæludýrafóðri, sem einnig mætti koma við í þessum húsakynnum, þannig að það eru e.t.v. einhverjir móguleikar til annarrar starfsemi en hinnar hefðbundnu.

Ég hneigist nú til þess að taka undir það með hv. þm. Helga Seljan að Byggðasjóður og landbrn. gætu hugsanlega verið búin að láta sig málið nokkru skipta og ættu e.t.v. að vita meira um það sem hér er verið að fjalla um.

En ég kom hér aðallega upp út af því að það var minnst nokkrum sinnum á staðgreiðslu á afurðum til framleiðenda. Nú er í gildi enn ákveðið stjórnarsamstarf milli Sjálfstfl. og Framsfl. Í haust er leið var birt plagg sem nefnt hefur verið samkomulag formanna stjórnarflokkanna. Í því plaggi stendur í kafla um landbúnaðarmál, með leyfi forseta:

„Í samráði við fulltrúa bænda, vinnslustöðva og neytenda verði verðlagningu landbúnaðarafurða hagað þannig að verð til bænda annars vegar verði ákveðið sérstaklega og hins vegar sjálfstætt til vinnslustöðva og í smásölu, enda verði verðjöfnun tryggð.

Endurskoðun fari fram á ákvæðunum um verðjöfnun svo sem vegna fjármagnskostnaðar af fjárfestingu.“ Og liður 8.6: „Framleiðendur fái fulla greiðslu fyrir afurðir sínar sem næst við afhendingu, enda verði vinnslustöðvum með afurðalánum gert það kleift.“ Við þetta samkomulag ætlast ég að sjálfsögðu til að verði staðið.