07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hér er mál sem við hljótum að hafa miklar áhyggjur af, þ.e. sá sjúkdómur sem hefur komið fram, ekki síst í fiskeldisstöð ríkisins í Kollafirði. Það fer ekkert á milli mála að það eru margir sem telja að í fiskeldi séu miklir möguleikar hér í landi þó að allt of litlar tilraunir og rannsóknir hafi verið gerðar í því efni.

Af þessum ástæðum fór ég að reyna að afla mér upplýsinga um það hvers konar sjúkdómur væri þarna á ferðinni og hver væri reynsla annarra, t.d. Norðmanna, af þessum sjúkdómi. Ég hef hér fengið í hendur punkta frá manni sem þekkir þarna nokkuð til og mér finnst rétt að sumt af því sem hann sendir mér komi fram hér í umr. um þetta mál vegna þess að ég get ekki betur séð en að af þeim upplýsingum megi læra töluvert.

Hann byrjar á því og segir að þessi nýrnasjúkdómur, sem gangi undir skammstöfuninni BKD, hafi í fyrsta skipti verið uppgötvaður árið 1930 í tveimur ám í skotlandi. Síðan þá hefur sjúkdómsins orðið vart í Bandaríkjunum, í Frakklandi, Ítalíu, Júgóslavíu, Kanada, Tyrklandi, Englandi og á Spáni. Má því segja að hann hafi mikla útbreiðslu. Í Noregi varð sjúkdómsins fyrst vart 1980 í tveimur klak- og seiðaeldisstöðvum og í þremur sjóeldisstöðvum. Eftir það hefur BKD herjað víða í fiskeldisstöðvum Norðmanna. Þrátt fyrir rannsóknir og upplýsingasöfnun fisksjúkdómafræðinga hefur ekki tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn berst á milli stöðvanna. Ekki er um að ræða sameiginlegt upphaf fisks í þessum sýktu stöðvum og ekki hefur heldur tekist að sýna fram á að smitið sé í vatninu sem rennur í stöðvarnar.

BKD er krónískur sjúkdómur sem í flestum tilfellum leiðir til sýnilegra breytinga í nýrum. Orsök sjúkdómsins er baktería og ef ekki fisknum tekst að einangra sýkinguna verður stöðugt stærri hluti nýrnanna sýktur. Einnig er hægt að sjá breytingar í lifur og milta. Breytingar í áðurnefndum líffærum lýsa sér sem hvítir hnúðar og geta náð stærð kaffibaunar. Hnúðarnir geta einnig fundist í fiskikjötinu, eins og hann kemst að orði. Í lifur og milta líta þeir út eins og hvítir dropar. Þar er um að ræða dauðan vef. Í slæmum tilfellum getur fiskurinn haft útstandandi augu og útþaninn búk og maga. Sýkt seiði í fersku vatni fá stundum sára húð. Hægt er að uppgötva sjúkdóminn snemma við slátrun. Annars getur útbreiðslan orðið meiri og meiri án þess að nokkur taki eftir því.

Það er mismunandi hvað langan tíma sýkingin tekur og sennilega breytilegt frá einum fiski til annars og háð mótstöðueiginleikum hvers einstaklings gegn bakteríunni. Lyfjameðhöndlun leiðir venjulega af sér að fiskurinn verður frískur á meðan hann fær lyf en síðan heldur sjúkdómurinn áfram eftir að lyfjameðferð er hætt. Margar stöðvar hafa hins vegar lært að lifa með sjúkdómnum. Hitastig vatns og sjávar, harðleiki vatnsins og hvernig vatnið er samsett virðist hafa mikil áhrif á þennan sjúkdóm. Í þessu felst að Norðmenn hafa ekki getað komið í veg fyrir útbreiðslu þessa sjúkdóms.

Þetta sýnir okkur að þessi sjúkdómur er mjög útbreiddur. Þetta segir okkur líka að Norðmenn hafa lært að lifa með honum, þ.e. þeir hika ekkert við að auka fiskeldið þrátt fyrir það að þessi sjúkdómur herji hjá þeim. Ég held að það sé nokkuð stórt atriði að þeir, sem eiga að fjalla um þessi mál, reyni að fá upplýsingar um allt sem þessu viðkemur hjá þeim sem eru að reyna að berjast við þennan sjúkdóm, t.d. í Noregi þar sem lengst er komið í þessum fiskeldismálum, og haga sinni starfsemi skv. þeirra reynslu.

Ég hygg að fiskeldið verði að reyna að fá hrygningarfisk sem er heilbrigður og þannig að það sé öruggt að hrogn séu tekin úr heilbrigðum fiski. Það kann að vera að við þurfum ekki að verða fyrir stórum áföllum þrátt fyrir þennan sjúkdóm. Hver veit nema þessi sjúkdómur sé búinn að vera lengi í fiski hér eins og er í nágrannalöndunum, hver veit? Ég held að það viti enginn. A.m.k. er þessi sjúkdómur þekktur í Bretlandseyjum, í Kanada, í Ameríku og víðar eins og fram kom hér áður. En það þarf auðvitað að taka á þessu máli þannig að við verðum fyrir sem minnstum áföllum og horfast alveg í augu við það að það kann að vera að við getum ekki útrýmt honum.