07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki ástæða til þess að lengja þessar umr. á þessu stigi miðað við þá till. sem hér liggur fyrir. En út af því sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði hér áðan, þá er ég alveg sammála honum um það að miðað við þá bjartsýni sem hefur verið gagnvart þessari atvinnugrein á undanförnum árum er það alveg merkilegt að ekki skuli enn þá hafa farið fram neinar umtalsverðar rannsóknir á því hvers við getum í raun og veru vænst í þessu efni. Við höfum það þó á tilfinningunni margir að þarna séu þeir möguleikar, en það er ekki nóg. Við þurfum að byggja slíkan atvinnurekstur, sem er mjög fjárfrekur, á rannsóknum.

Hann minntist á það hvernig fór með minkaræktina hér á árunum. Það er enginn vafi á því að þar eru líka miklir möguleikar, en menn kunnu bara ekkert á þetta. Það er sannleikurinn og þess vegna varð þeim fótaskortur. Ég lenti nú í því að vera með í því að undirbúa þá löggjöf, sem Ásberg Sigurðsson var aðalhvatamaður að að semja og koma í gegnum þingið. Ég man því vel eftir undirbúningi á því máli og ýmsum aðvörunarorðum sem þeir fengu sem fóru út í þennan rekstur. Það á ekki síður við um fiskeldið að eins og hefur komið fram er þarna um mikla nákvæmnisvinnu að ræða eins og með alla ræktun á hvaða búpeningi sem er. Og þetta er ekkert annað. Þetta verður búpeningur ef það er tilfellið að við gætum haft það eins og í Noregi að bændur gætu haft eldisstöð heima hjá sér, a.m.k. þar sem er heitt vatn fyrir hendi.

Að einu leyti hefur þetta þó þróast í jákvæða átt, þ.e. að það eru nokkuð margir að læra þessa fræði erlendis og koma heim á næstu árum með þá þekkingu sem hægt er að nema í öðrum löndum við aðrar aðstæður en hér eru. En við megum heldur ekki blekkja okkur á því að hér eru allt aðrar aðstæður. Þó að þeir komi með þekkingu þarf því að gera rannsóknir og byggja okkar stöðvar eftir þeirri reynslu sem mun fást. En hér er mikið í húfi og þess vegna þarf að byggja þessa starfsemi á tilraunastarfsemi, en ekki að leggja út í stórfellda fjárfestingu án þess að vita hvernig fer.

Hér hefur ekki heldur verið tekin nokkur stefna í þessum málum eins og t.d. Norðmenn hafa gert. Þar setja þeir takmarkanir. Þeir setja takmarkanir á fjármagn líka. Það eru takmarkanir á því hve mikið fjármagn fær að fara inn í þessa framleiðslu. Ríkisstjórnarflokkarnir þar takast á um það hver eigi að vera framtíðarstefna í þessum málum, hvort þetta eigi að vera stoð í að halda uppi byggðunum eða hvort fjármagnið eigi að fá möguleika til að sölsa þennan atvinnurekstur undir sig. Þar er líka talað um að ekki sé hyggilegt — það er þeirra reynsla — að hafa stöðvarnar mjög stórar. Áhættan sé svo mikil, sýkingarhættan sé enn þá meiri. Á Reykjanesi eru þeir með alls konar plön, en það veit enginn um það hvort það er nóg heitt vatn eða nóg grunnvatn fyrir þá starfsemi sem menn eru að hugsa um að reisa þar t.d. — (Gripið fram í.) Ég hef nú ekki daglegt samband við SÍS þó að Friðrik Sophusson haldi það. En ég hef samband við ýmsa aðra og mér er tjáð, að það geti verið spurning hvað Reykjanesið getur borið af stöðvum, bæði vegna heits og kalds vatns. Það skulu menn bara vita og gera sér grein fyrir. Þetta er órannsakað mál. (Gripið fram í: Sérstaklega kalda vatnið.) Já, sérstaklega kalda vatnið.

Þetta mál kemur fljótlega hér í sali Alþingis aftur þannig að ég ætla að láta þetta duga. En þó að við verðum fyrir áföllum í þessu eins og allri annarri framleiðslu má það ekki verða til þess að við gefumst upp. Það er engin ástæða til þess. Það sýnir t.d. sú þróun sem hefur orðið í Noregi. Hún er í raun og veru ævintýri, hvorki meira né minna. Það er líka ævintýri hvað hefur gerst á örfáum árum í Færeyjum. En við, hvað höfum við gert? Við höfum talað, búið. Punktur. Og meira að segja þeir, sem hafa farið til þess að reyna að læra þessi fræði, hafa ekki fengið styrk til þess. Það getur vel verið að sumir af þeim mönnum sem eru að læra núna — (GGS: Þeir fá námslán eins og aðrir. ) Þeir fá námslán, þetta er dýrt, þetta er dýrt hv. þm. Gunnar Schram. Það er mjög dýrt og áhættusamt að fara út í þetta og það getur vel verið að þeir séu sumir að gefast upp í þessum lærdómi, verði að hætta námi, nái ekki þeirri þekkingu sem þeir eru farnir að reyna að höndla fyrir sína þjóð.