07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

172. mál, kennslugögn í öllum fræðsluumdæmum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það mál sem hér er flutt og fjallar um kennslugagnamiðstöðvar í tengslum við fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum er auðvitað fyrst og fremst spurning um fjármagn til þessara hluta. Að vísu hljóðar þessi till. einungis um það að láta kanna hvernig best væri að haga samstarfi við samtök sveitarfélaga um þetta efni. Ég hygg að samstarfið við samtök sveitarfélaga um þetta efni mundi verða með eitthvað svipuðum hætti og samstarfið um fræðsluskrifstofurnar og að hér sé enda gert ráð fyrir því að kennslugagnamiðstöðvar væru e.t.v. deildir í fræðsluskrifstofunum sem er auðvitað eðlilegt og er verkefni fræðsluskrifstofunnar nú þegar. En eins og ég sagði í upphafi, spurningin er um fjármagnið. Það er til lítils að koma á miðstöðvum, sem hafa með höndum miðlun kennslugagna og væru sérstakar stofnanir eða sérstakar deildir, umfram það sem nú er, ef ekki eru til námsgögn hjá Námsgagnastofnun, sem hér er í Reykjavík, til þess að dreifa þeim þangað. Ég held því að það verkefni, sem fyrst og fremst þarf að sinna til þess að hægt væri að ganga til móts við það erindi sem hér er flutt, sé að efla Námsgagnastofnun sem starfað hefur í nokkur ár. Sannleikurinn er sá að hún er búin að vera í fjársvelti árum saman og margir skólar, bæði úti um land og hér í Reykjavík, hafa kvartað um skort á sjálfsögðum kennslugögnum, sem Námsgagnastofnun bæri að láta í té, bæði eftir lögum um hana og svo eftir grunnskólalögum.

Það sem menntmrn. hefur lagt megináherslu á í þessu sambandi hefur verið að efla Námsgagnastofnun. Og sannleikurinn er sá að þar er ástand mála nú þannig að það hefur aldrei verið neitt svipað því jafnmiklu fjármagni hlutfallslega beint til Námsgagnastofnunar eins og einmitt á síðustu fjárlögum. Fjárveiting til stofnunarinnar hækkaði um yfir 70% frá því í fyrra og það er meira en hægt hefur verið að segja um langt, langt árabil, meira að segja þegar verðþróun var allt önnur en var á síðasta ári. En þá var hún auðvitað miklu hagstæðari slíkri stofnun en hefur verið um langt árabil áður. Staða þeirrar stofnunar er því allt önnur nú þó að e.t.v. sé ekki búið að vinna upp allt það svelti sem hún hefur verið höfð í mörg undanfarin ár. T.d. má geta þess að núna var tekin inn sem nýr liður í fjárlögum Kennslugagnamiðstöðin sem hv. 1. flm. þessarar till. lét sér einmitt svo tíðrætt um. Hún er núna sérstakt fjárlaganúmer meðal fjárveitinga til Námsgagnastofnunar.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust fylgdi svofelld greinargerð um fjárveitingar til þessarar stofnunar. Ég vil taka fram að menntmrn. hafði raunar gert, eins og oft er um margar fjárveitingar til fagráðuneyta, enn þá hærri tillögur. Ástæðan var sú að við vildum gera tilraun til þess að koma rekstri stofnunarinnar á þann grundvöll að það yrði unnt að hagræða betur í rekstrinum. Þegar um er að ræða rekstur af því tagi sem þar er kostar það talsvert að koma rekstrinum á verulega traustan grundvöll. En okkur þarf ekkert að undra að ekki var unnt að sinna ýtrustu tillögum okkar, sem við töldum reyndar lágmarkstillögur eins og gengur. Þó að það hafi ekki verið gert hefur niðurstaðan orðið sú að það hefur aldrei verið jafnvel gert við þessa stofnun. Í grg. með fjárlagafrv. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárveiting til stofnunarinnar hækkar um 20 millj. 762 þús. sem er 67.1% hækkun frá fjárl. 1984.“

Ég vil gera hlé á tilvitnuninni, sem ég ætlaði að flytja, og nefna hér að síðan hækkaði framlagið í meðferð fjárlaga hér á Alþingi um 7.1 millj. Ég held áfram tilvitnuninni úr grg, fjárlagafrv.:

„Gert er ráð fyrir eftirtöldum breytingum á viðfangsefnum í samræmi við tillögur nefndar, sem fjallaði um starfsemi stofnunarinnar:

a) Skólavörubúð, sem áður var í B-hluta fjárlaga, er lögð niður en í stað stofnuð afgreiðslu- og söludeild sem annast innkaupa- og pöntunarþjónustu fyrir grunnskóla.

b) Námsefnisgerð flyst til stofnunarinnar af fjárlagalið 02–423“ sem skiptir kannske ekki máli í þessu sambandi.

„c) Kennslumiðstöð er nýtt viðfangsefni. Launakostnaður hækkar um 8 millj. 335 þús. kr. en þegar tekið er tillit til lækkana á öðrum viðfangsefnum er hækkunin 3 millj. 29 þús. Hækkunin er vegna lausráðinna starfsmanna en laun þeirra voru áður greidd af rekstrarfé stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að starfsmenn verði 39 talsins auk afleysingafólks. Þar af eru 10 heimiluð stöðugildi. Almenn rekstrargjöld eru áætluð með hliðsjón af raunverulegum rekstrarkostnaði á síðustu árum og aukinni útgáfustarfsemi í samræmi við tillögur nefndar. Til útgáfu kennsluefnis eru ætlaðar 39 millj. 923 þús. kr.“

Mér þótti nauðsynlegt að gera grein fyrir þessu vegna þess að þetta er lykilatriði til þess að unnt sé að dreifa með skynsamlegum og virkum hætti kennslugögnum út í fræðsluumdæmin. Það er eðlilegt hlutverk fræðsluskrifstofanna að hafa þá meðalgöngu með höndum og það mun vera gert eftir því sem unnt er nú og verður að sjálfsögðu gert enn frekar eftir því sem þessi mál komast í æ betra horf og ég vona að framhald verði á því.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á að verk þeirrar nefndar, sem gerði sérstaka athugun á fjárhagsstöðu Námsgagnastofnunar og gerði tillögur þar um, var mjög árangursríkt að því er ég tel. Þar komu fram margar mjög skynsamlegar ábendingar sem þegar hafa skilað verulegum árangri í því að menn átta sig betur á hvar raunverulega þurfti að laga mest hjá þeirri stofnun. Vonandi tekst það með því að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð er.

Hv. þm. minntist á það í þessu sambandi að námsárangur væri mismunandi á ýmsum stöðum á landinu og leiddi getum að því að það kynni að vera — ja, mér skildist helst vegna skorts á kennslugagnamiðstöðvum úti um landið. Það má vera að meira hefði þurft af kennslugögnum. Um það fullyrði ég ekki. En hvort miðstöðvarnar sjálfar hefðu ráðið þar úrslitum, það skal ég ekki segja um. Hugleiðingar um orsakir þessa eru m.ö.o. einvörðungu getgátur. Þess vegna hefur verið ákveðið að láta gera sérstaka könnun á árangri skólastarfs á Íslandi. Það tel ég vera meginatriði til þess að átta sig á því hvar við þyrftum e.t.v. að gera breytingar, hvar við þyrftum að leggja þyngstar áherslur og reisa þær ákvarðanir á þekkingu sem fæst með rannsóknum. Skýrt hefur verið frá því að stjórn þessa verkefnis hafi verið falin Þórólfi Þórlindssyni prófessor í þjóðfélagsfræði og hann er að hefjast handa um það núna. M.a. verður athuguð vinnuaðstaða kennara og nemenda. Fyrsti þáttur þess verkefnis, sem Þórólfur er að vinna, mun einmitt vera könnun meðal kennara og skólastjóra. Síðar verður svo leitað til nemenda og foreldra, aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila. En fyrsti þáttur verkefnisins er vinnuaðstaðan í skólanum.

Hv. þm. vék hér að aðstöðu skólabókasafna. Þar er vissulega komið inn á stórt mál og mikilvægt. En þá erum við líka komin að þeim stóra vanda sem er stofnkostnaður í skólunum og er viðameira mál en svo að við getum leyst það í einu vetfangi, enda sjáum við að það hefur vafist fyrir mönnum alllengi. Víða háttar svo til að unnt er að sameina þjónustu í skólabókasafni og almenningsbókasafni og þá væntanlega einhverja kennslugagnadreifingu. En þar er vissulega vikið að mikilvægu máli. En hitt er svo annað, sem ég get ekki látið hjá líða að nefna hér í þessu sambandi, að um sjálfa bókadreifinguna og þau kennslugögn sem safnað er saman á hvern stað kann að verða allt öðruvísi ástatt eftir að tölvutæknin er komin til sögunnar á fræðsluskrifstofunum. Þá verður auðveldara fyrir menn að útvega þau gögn sem þarf án þess að sitja uppi með miklar birgðir af þeim vörum sem þarna er um að ræða. En það er einmitt unnið að því núna að tölvuvæða fræðsluskrifstofurnar í landinu til þess að greiða fyrir ýmsum slíkum verkefnum.

Ég vildi láta þessi atriði koma fram, herra forseti, og undirstrika það að aðalatriðið er það að móðurstofnunin, ef svo má segja, Námsgagnastofnunin, hafi þá aðstöðu að hún geti sinnt því grundvallarverkefni sem hún hefur og þar með staðið að dreifingu nauðsynlegra námsgagna út um landið.