07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

172. mál, kennslugögn í öllum fræðsluumdæmum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. orð hennar. Mér fannst ánægjulegt að heyra að hún skyldi hafa barist fyrir málefnum Námsgagnastofnunar. Það gerðum við Kvennalistakonur reyndar líka í sambandi við fjárlögin, fluttum brtt. Þær voru afar hógværar og ég er sannfærð um að kröfur Námsgagnastofnunar voru mjög hógværar líka. Brtt. Kvennalistans svöruðu á engan hátt metnaði okkar fyrir, hönd Námsgagnastofnunar og í sambandi við kennslumiðstöðina held ég að Námsgagnastofnun hafi farið fram á 2.2 millj. og taldi það algjört lágmark til þess að greiða laun. Við fórum jafnvel lægra og báðum um 1.5 millj., en ef ég man rétt þá voru ekki nema 750 þúsund veitt. Það kann vel að vera að orðið hafi einhver prósentuhækkun milli ára og það er að sjálfsögðu ágætt vegna þess hve verðbólgan hefur verið ör, en ég tel samt að þessi skerfur sem Námsgagnastofnun fékk hafi verið allt of lítill. Það er ábyrgðarhluti í raun ef ekki er hægt að jafna þetta misrétti því að ég tel að það vandamál sem af því hlýst verði til langframa. Það er þegar farið að bera á miklum fólksflutningum til þéttbýliskjarna eins og Reykjavíkur vegna vandkvæða úti á landsbyggðinni og þessi ójöfnuður, félagslegi ójöfnuður og vandkvæði aukast með árunum. Eftir því sem menntunarástand almennt verður lélegra úti á landsbyggðinni þeim mun stærri verður vandinn.

Í sambandi við það sem ég sagði um þennan aðstöðumun eða þennan mismun á milli þéttbýlis og dreifbýlis þá taldi ég nú ekki að kennslumiðstöðvarnar einar mundu leysa hann eða væru eina svar við þeim vanda. Það er fyrst og fremst þessi almenni aðstöðumunur sem ræður úrslitum. Ég skora á hæstv. ráðh. að beita sér af alefli, og við munum sannarlega Kvennalistakonur styðja þétt við bakið á henni í þeim efnum, að beita sér við fjárveitingavaldið að hafa nú vit og rænu og metnað til þess að jafna þennan mismun á milli þéttbýlis og dreifbýlis í menntunarmálum.