23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans upplýsingar. Það verður auðvitað hver og einn að meta það hvað sé talið eðlilegt að upplýsa. Það þætti eflaust að ýmissa mati ástæða til að greina frá máli sem þessu, jafnvel þó að um sé að ræða atriði sem fara fram milli vina, ef svo má segja, og á tímum þegar verið er að fjalla um endurskoðun á samningum. Það hlýtur að vekja athygli að hér heldur Alusuisse áfram að mati alþjóðlegra endurskoðenda að verðleggja aðföng, í þessu tilviki súrál, til muna hærra en eðlilegt getur talist, selja afurðirnar og bókfæra á lægra verði en eðlilegt er að mati endurskoðenda og varðandi afskriftirnar munar háum upphæðum. Talan sem hæstv. ráðh. nefndi sem niðurstöðu, 9.6 millj. dala, svarar til ekki minna en 326 millj. ísl. kr. og það munar mjög litlu að þessi endurskoðun og þessi niðurstaða hafi áhrif á skattgreiðslur, þar sem tap fyrirtækisins var mun minna en árið á undan skv. þeirra bókfærslum. Benda verður á að þessar niðurstöður geta haft áhrif á ársreikninga yfirstandandi árs og skattgreiðslur vegna atriða sem taka þarf tillit til í sambandi við fjárreiður á þessu ári.

Ég tel mjög leitt til þess að vita að Alusuisse skuli, þrátt fyrir aðhald íslenskra stjórnvalda að fyrirtækinu á undanförnum árum, halda uppteknum hætti í sambandi við verðlagningu á afurðum sínum og falsa með þeim hætti bókhald fyrirtækisins. En þessi svikamylla er nú orðin Íslendingum allvel kunn og vissulega dýrkeypt og af þeirri reynslu þurfum við að læra. Hæstv. ríkisstj. er að ganga frá samningum um vissa þætti samskipta við Alusuisse. Ég ætla ekki að fara að ræða það efni hér, en vek þó athygli á því að þar er skv. fréttum ófrágenginn með öllu sá þáttur sem snýr að skattgreiðslum, reglum varðandi skattgreiðslur þessa fyrirtækis, og ætla samningamenn sér níu mánuði, að ég hef frétt, til þess að fjalla um það mál. Þar er um mjög stórt atriði að ræða, ekki síst í ljósi þess að álbræðslan er að verða afskrifuð skv. samningi um 15 ára afskriftatíma, þannig að vænta má að skattgreiðslur af hálfu fyrirtækisins miðað við eðlileg skattskil verði mjög verulegar á komandi árum að óbreyttum skattreglum. Því er þessi þáttur endurskoðunar á skattreglum, sem ófrágenginn er, gífurlega stór fjárhagslega og þýðingarmikill fyrir íslenska ríkið engu síður en það að fylgjast með fjárreiðum fyrirtækisins og nota þannig rétt okkar til endurskoðunar eins og gert hefur verið á undanförnum árum.