11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég get verið stuttorður um þetta mál þó að stórmál sé hér á ferðinni. Staðreyndin er sú að þetta frv. sem hér liggur fyrir og við erum að ræða, frv. til lánsfjárlaga, er ómark. Það er ekkert að marka þær tölur sem standa í þessu frv. Frá því að frv. hefur verið samið eða prentað er búið að gera margvíslegar ráðstafanir, gefa alls konar yfirlýsingar og þær tölur sem hér eru eiga ekki við lengur. A.m.k. gildir það um langflestar þeirra. Þess vegna hefði verið eðlilegast að hæstv. fjmrh. hefði aldrei lagt þetta plagg fram í þessari mynd, eða þá hann tæki það til baka með einhverjum hætti og legði fram nýtt frv. sem væri talnalega séð nær þeim veruleika sem er verið að fást við í dag. Hv. 2. þm. Austurl. rakti ýmis dæmi um þetta. Hann minntist m.a. á Kvikmyndasjóð þar sem fjmrh. segir eitt og hæstv. menntmrh. segir allt annað. Hann minntist einnig á Landsvirkjun og þær breytingar sem þar hafa orðið. Og síðan þessar svokölluðu efnahagsráðstafanir ríkisstj. sem auðvitað snerta þetta mál á mörgum flötum.

Ég ætla því ekki, virðulegi forseti, að fara að eyða tíma deildarinnar í að ræða plagg sem er markleysa. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar og verður frv. að fá þar mjög gagngera skoðun, sérstaklega í ljósi þess hve vitlaust það er. Ég veit að okkur mun ganga það verk vel undir ötulli verkstjórn hv. 4. þm. Norðurl. v.

En sæmst hefði verið að ráðh. drægi þetta mál til baka og léti endurprenta frv. með þeim breytingum sem þegar er vitað um. Það er tómt mál að vera að tala um þetta plagg og leggja út af þeim tölum sem hér eru, það er bara tímasóun fyrir alla sem hlut eiga að máli. Annaðhvort er að koma með plagg sem er í samræmi við veruleikann eða að setja þetta mál strax til nefndar og byrja á því að endurskoða það og draga fram stærstu vitleysurnar ef vera kynni að unnt væri að leiðrétta þær.