11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

283. mál, eftirlit með matvælum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir til breytinga á matvælalöggjöfinni, sem að grunni til er frá 1936, er flutt að beiðni Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna í þeim tilgangi að heilbrigðiseftirlitið geti starfað á þann hátt sem nauðsynlegt er.

Með frv. er lagt til að sönnunarbyrði verið snúið við. Finnist t.d. matvara á framleiðslu-, dreifingar- eða sölustað verði það hér eftir framleiðenda, dreifenda eða seljenda að sanna að vara sem að öðru jöfnu er þar á boðstólum sé ekki til dreifingar eða sölu. Þyrfti þá heilbrigðiseftirlitið ekki að standa frammi fyrir því, eins og átti sér stað í því tilviki sem greint er frá í grg. með þessu frv., að færa sönnur á að óstimplað kjöt, sem finnst á kjötborði veitingahúss, sé ætlað til neyslu. Þarf ekki að tíunda það frekar hér að eigi eftirlitið framvegis að búa við þá kosti áorkar það litlu. Ekki þarf að óttast um framkvæmdina því það hlýtur að vera auðvelt fyrir framleiðendur, dreifendur og seljendur að sanna að mál sitt sé allt með felldu. Auk þess hvetur þessi skipan til frekari gætni, því skemmd vara getur skemmt út frá sér sé henni ekki komið fyrir á forsvaranlegan hátt.