11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

289. mál, Landmælingar Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forsefi. Ég tel það út af fyrir sig góðra gjalda vert að hér er komið fram frv. til l. um Landmælingar Íslands en til þessa hefur þessi stofnun ekki haft lagagrundvöll, eins og fram er tekið í aths. með frv. Ég tel hins vegar miður að skv. þessu frv. og aths. við það er ekki gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á störfum, skipulagi og verkefnum Landmælinga Íslands frá því sem nú er í reynd. Þetta segir orðrétt í aths. með frv.

Ég hef vakið athygli á því í tengslum við umr. um skyld málefni hér á Alþingi á undanförnum þingum að kortagerð af landinu er í megnasta ólestri að mínu mati. Þar er um að ræða mikla vanrækslu — ég er ekki að segja vanrækslu Landmælinga Íslands sem stofnunar, en vanrækslu framkvæmdavaldsins og löggjafans, má segja, að tryggja það að unnið sé að þessum grundvallarmálum, kortlagningu Íslands, á þann hátt sem skylt ætti að vera hjá sjálfstæðri þjóð.

Ég fullyrði að vegna skorts á kortum af landinu tefjast nauðsynlegar aðgerðir á ýmsum sviðum, m.a. á sviði skipulagsmála og varðandi ýmsar rannsóknir þar sem nauðsynlegt er að hafa kort fyrirliggjandi til þess að geta fært inn á þær upplýsingar sem verið er að safna. Þetta á m.a. við um gróðurkortagerðina sem að vísu hefur verið þokað áfram af Rannsóknastofnun landbúnaðarins en engan veginn hefur verið hægt að vinna að sem skyldi vegna vöntunar á grunnkortum. Og þetta á ekki síst við um skipulagsmálin, skipulag lands og landnotkunar, þar sem vöntun á kortum stendur mjög fyrir þrifum því starfi sem er hér langt á eftir miðað við það sem æskilegt væri og nauðsynlegt.

Ég vek einnig á því athygli að það eru ýmsar opinberar stofnanir sem hafa unnið á undanförnum árum mikið að kortagerð og kostað miklu til. Á það ekki síst. við um stofnanir orkumála í landinu, svo sem Orkustofnun og Landsvirkjun, svo dæmi séu tekin. Þessar stofnanir hafa verið mikilvirkastar á þessu sviði og þær hafa staðið fyrir kortagerð af brýnni nauðsyn vegna þess að aðrir aðilar hafa ekki leyst þessi verkefni. Auðvitað hefur verið kostað almannafé til þessara starfa, sem fært hefur verið sem rannsóknar- eða undirbúningskostnaður vegna viðkomandi þátta. En það hefur skort að nauðsynlegs samræmis væri gætt við þessa kortlagningu. Ég er alveg viss um að hún hefur orðið dýrari vegna þessa skipulagsleysis og vegna þess að sú stofnun, Landmælingar Íslands, sem eðlilegt væri að annaðist verkefni af þessu tagi, kemur þar ekki við sögu og er þar ekki frumkvæðisaðili.

Það getur út af fyrir sig vel komið til greina að fleiri aðilar standi að kortagerð. En það verður þá að vera í fullu samræmi við ákveðna markaða stefnu í þessum efnum, en á það hefur vissulega skort. Það má vel vera að það megi nýta þetta frv. sem grunn fyrir löggjöf varðandi Landmælingar Íslands, en mér sýnist að það þurfi að gera á því veigamiklar breytingar til þess að það nái því markmiði sem eðlilegt væri í sambandi við landmælingar, m.a. varðandi tekjugrundvöll til þess að hér sé hægt að gera mjög verulegt átak til þess að bæta úr sárri vöntun á þessum grunnupplýsingum varðandi land okkar.

Skv. frv. er gert ráð fyrir því að Sjómælingar Íslands annist áfram sjókortagerð. Ég skal ekki leggja mat á það atriði. Það kann vel að vera að það henti að Sjómælingar Íslands sinni þessu verkefni áfram þó að hitt geti komið til álita að sameina þessa starfsemi. Ég tel mig ekki hafa þekkingu til að fullyrða neitt í þeim efnum en tel eðlilegt að það mál verði athugað jafnhliða öðrum þáttum sem varða þetta frv. Ég tel vissulega að ýmis efnisatriði þessa frv. horfi til bóta, enda engin lög fyrir varðandi Landmælingar Íslands, og þ. á m. það ákvæði að gera þurfi verkefnaáætlun fyrir stofnunina sem lögð verði fyrir Alþingi. Auðvitað má mörgu fram þoka með slíkum áætlunum sem tekið yrði tillit til við fjárveitingar til stofnunarinnar sem verða tvímælalaust að koma til ef bæta á á skömmum tíma úr því sem nauðsynlegast er í þessum efnum.

Hér á árum áður var það verkefni Geodætisk Institut að kortleggja landið og var unnið af dönskum aðilum fram til ársins 1939 stórvirki á okkar mælikvarða í þessum efnum og enn í dag eru þetta einu grunnkortin af allstórum svæðum á landinu, þ.e. hið svokallaða herforingjaráðskort í mælikvarðanum 1:100 000 en sem er auðvitað algerlega úrelt og ófullnægjandi miðað við þær þarfir sem fyrir liggja í sambandi við kortlagningu landsins. Ég vil svo hvetja þá nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar að athuga möguleika á að gera á því róttækar breytingar og ég hvet hæstv. samgrh. til að stuðla einnig að því fyrir sitt leyti að svo geti orðið því að á því er mikil nauðsyn.