11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

290. mál, ríkisendurskoðun

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n. sem fær þetta mál til meðferðar þannig að ég ætla ekki að taka málið fyrir almennt nú. En ég ætla að vekja athygli á 15. gr. frv. sem ég hygg að sé mjög óvenjuleg í stjfrv. Þar segir:

„Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 19$6. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 61/1931, um ríkisbókhald og endurskoðun, og þau ákvæði í lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og öðrum lögum sem stangast á við lög þessi.“

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvaða önnur lög það eru sem hugsanlega gætu stangast á við lög þessi, vegna þess að það er alveg ótvírætt að löggjafinn verður að taka af skarið um það hvaða lagaatriði það eru sem þarna er hugsanlega um að ræða. Ella kemur upp ágreiningur um túlkun á því hver atriði stangast á við lög þessi og hver ekki þegar fram í sækir og frv. verður að lögum. Ég vil sem sagt spyrja að því hvort fyrir liggi tæmandi listi yfir hver lagaákvæði það eru sem hér er átt við. Það er alveg óhjákvæmilegt að ríkisstj. geri grein fyrir því.

Í annan stað hlýtur að vekja nokkra athygli, mér hefur verið bent á það undir þessari umr., að að einhverju leyti er hér um að ræða sömu eða svipuð verkefni og hagsýslan á að fjalla um skv. lögum og reglum um Stjórnarráð Íslands eins og þau eru nú. Ég vil sem sagt spyrja í öðru lagi: Er ætlunin að draga með einhverjum hætti úr starfsemi hagsýslunnar og hvaða atriði eru það í starfsemi hagsýslunnar sem falla niður að mati ríkisstj. ef frv. þetta verður að lögum?