11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

290. mál, ríkisendurskoðun

Forsh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. um 15. gr. get ég tekið undir það að þetta kann að vera nokkuð óvenjulegt. Ég skal láta þá nefnd sem frv. vann gera skrá yfir þau lög sem þarna er um að ræða. Ég tel eðlilegra að þau séu upptalin og þá breytt.

Ég hef ekki litið svo á að hér væri um neina árekstra að ræða við verkefni hagsýslunnar. Í ítarlegri yfirferð yfir þetta frv. með þeim sem það sömdu bar það mál nokkuð á góma. Það var ekki skoðun nefndarinnar né mín skoðun, eftir þá yfirferð, að svo væri. Að sjálfsögðu er ljóst að hagsýslan vinnur ýmiss konar hagkvæmnisathuganir fyrir framkvæmdavaldið. Ég held að óhjákvæmilegt sé að framkvæmdavaldið hafi á sínum snærum þá starfsemi þótt ekki sé það beinlínis endurskoðun eins og ríkisendurskoðun hefur með höndum. Ef sú n. sem fær málið til meðferðar kemst að þeirri niðurstöðu að barna sé um einhvern óeðlilegan tvíverknað að ræða er sjálfsagt að taka það til meðferðar.