23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað að menn munar í að heyra nákvæmlega frá gangi viðræðna og þeim niðurstöðum sem menn eru komnir að. En ég þarf ekki að útlista fyrir mönnum sérstaklega að þann veg er slíkum samningaviðræðum háttað að það kann nauðsyn til að bera að slíkt verði ekki upplýst opinberlega. Og þann veg stendur á um þetta mál. Stjórnarandstaðan hefur verið látin fylgjast með eins og kostur er. Ég nenni ekki og enda ekki tök á því nú að orðfæra fullyrðingu hv. þm. um það að á sinni tíð hafi stjórnarandstaðan fylgst grannt með öllum málavöxtum. Það gerðu ekki einu sinni hans menn. Það margkom fram hér í umr. í sambandi við viðræður við fulltrúa Alusuisse á sínum tíma, sem hann hafði löngum og löngum einn með höndum og upplýsti ekki einu sinni samverkamenn sína eins og Guðmund G. Þórarinsson þá um innihald alls þess sem þar fór fram, hvað þá meir. (HG: Það er nú rétt að finna þessu stað.) Það er enginn vandi að finna þessu stað. Það fer eftir því hvort menn telja vitnisburð manns eins og Guðmundar G. Þórarinssonar verkfræðings fullgildan eða ekki.

En við fáum til þess tækifæri innan tíðar vona ég að ræða þessi mál nákvæmlega og þegar færi gefst mun ég leggja nákvæma skýrslu fyrir hið háa Alþingi um gang viðræðnanna og þær niðurstöður sem fyrir liggja.