11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

175. mál, verndun kaupmáttar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. né heldur blanda mér í kennslutíma síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann reyndi að kenna þeim hv. Alþb.-mönnum, né heldur ræða sjónarmið þau sem fram komu af hans hálfu þó að ástæða væri til að gera það með ýmsum hætti og gera samanburð á því sem hér var sagt og því hvernig áður hefur verið að málum staðið af hálfu Alþfl.-manna.

Hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín þremur fsp. í ræðu sinni hér áðan sem ég vildi gjarnan mega svara nú. Í fyrsta lagi spurði hann um breytingu á störfum langlánanefndar eða lánanefndar eins og sú nefnd heitir. Þegar fleiri bankar en ríkisbankarnir fá heimild til erlendrar lántöku liggur ljóst fyrir að þar verður að gera breytingu á hvernig með þessi mál skuli farið, þ.e. erlendar lántökur. Og þeir hafa t.d. ekki fengið aðild að lánanefndinni sem veitir heimildir til erlendra lána að fengnum tillögum bankanna. Þetta er eitt atriðið sem gerir það að verkum að reglurnar sem í dag gilda verður að endurskoða. Og þá gildir það hvort heldur er varðandi lánanefndina eða svokallaða samstarfsnefnd bankanna sem fjallar aðeins um þau lán sem heimilt er að taka innan árs.

Hér er um að ræða, eins og segir í grg. sem frá ríkisstj. kom og forsrh. og fjmrh. gerðu grein fyrir, að nýjar reglur og viðmiðanir verði settar um erlendar lántökur og þar m.a. tekið fram að á þeim verði gerðar breytingar þannig að erlendar lántökur, endurlán banka, ábyrgðir banka taki m.a. mið af eiginfjárstöðu og auk þess verði farið inn á þær brautir að veita einstaklingum heimildir til að taka lán án þess að ríkisábyrgð eða bankaábyrgð komi til. Með hvaða hætti menn hugsa sér að þetta fyrirkomulag verði liggur ekki ljóst fyrir í dag en að mínum dómi miðar þetta að því að breyta störfum lánanefndarinnar, hvernig svo sem þeim störfum verður fyrir komið, eða því skipulagi sem á þessum málum þarf auðvitað að hafa hér eftir sem hingað til. Ég teldi sjálfur eðlilegast að þessi mál væru hjá bönkunum, þeim sem hafa heimildir til erlendrar lántöku, en að sjálfsögðu innan þeirra marka sem sett væru og m.a. er bent á í því sem ég vék að hér áðan.

Hv. þm. vék að verðtryggðum lánum og minntist á þær hugmyndir að lán til skemmri tíma væru ekki verðtryggð. Þetta gerðist m.a. við síðustu vaxtaákvörðun. Þar var tekið fram að lán til sex mánaða og skemmri tíma væru ekki heimiluð verðtryggð og litið á það sem fyrsta skref í þá átt að lán til skemmri tíma væru ekki verðtryggð.

Þá vék hv. þm. að skuldabréfum og meðferð þeirra. Það er rétt sem kom fram hjá þm. að breytingar á þessum reglum er hægt að gera án lagabreytinga, þ. á m. að setja reglur varðandi verðbréf. Og það er einmitt það sem rn. hefur haft til meðferðar og kemur fram í þeirri yfirlýsingu sem hér var vikið að og gerð var grein fyrir á föstudaginn og ætlunin er að koma í framkvæmd. Það er gert ráð fyrir því að reglur um verðbréf verði settar og auk þess gert ráð fyrir því að Seðlabankanum verði falið að koma á fót því kaupþingi sem gert er ráð fyrir í lögum um Seðlabankann til þess að öruggar upplýsingar fáist um verð og verðlagningu á verðbréfum.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að skoða skattalega meðferð skuldabréfa. Það liggur í hlutarins eðli, miðað við þær breyttu aðstæður sem í dag eru á verðbréfamarkaðinum, að það þarf að gera.