12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs um þingsköp vegna fsp. sem kom fram hér í Sþ. þann 17. okt. s.l. til menntmrh. um niðurskurð og sparnað í skólum. Ég ætlaði að leyfa mér að gera athugasemd vegna þessa en teldi æskilegt að hæstv. menntmrh. væri hér við til að hlýða á mál mitt.

(Forseti: Hæstv. menntmrh. var hér rétt í þessu og honum verður gert viðvart.) — Ég kaus að doka við á meðan hæstv. menntmrh. kæmi í þingsal. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp vegna fsp. sem lögð var fram hér í Sþ. 17. okt. s.l. til menntmrh. um niðurskurð og sparnað í skólum.

Nú eru liðnir nær fjórir mánuðir síðan fsp. þessi var fram lögð og engin svör hafa borist frá hæstv. ráðh. en óskað var eftir skriflegu svari. Ég ræddi þetta mál við hæstv. forseta Sþ. fyrir jól og bað hann um að ýta á eftir svari. Einnig ræddi ég þá persónulega við hæstv. ráðh. um þetta mál utan fundar og spurðist fyrir um hvað ylli þeim drætti sem orðið hefði. Þá lofaði hæstv. ráðh. skjótri úrlausn á þessu. En jólahlé leið og þing hóf störf að nýju og enn hefur ekki borist svar.

Ég tel að fsp. sem þessar missi mjög marks, hlutur þeirra í sambandi við þingstörf, ef ekki er orðið við beiðni þm. um svör á eðlilegum tíma. Vissulega getur tekið mismunandi langan tíma að afla upplýsinga um fsp. en í reynd ættu ekki að þurfa að gilda um þetta mikið aðrar reglur en um aðrar fsp. Ég vænti þess að hæstv. forseti hlutist til um að hér geti orðið breyting á, enda veit ég af viðræðum við hæstv. forseta um önnur tilefni að hann hefur lagt sig fram um það að kalla eftir svörum ráðh. við fsp. þar sem skriflegs svars er óskað.