12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2815 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 284 um ríkisstyrki Norðmanna í sjávarútvegi. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Er engin vörn í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna gegn stórfelldum ríkisstyrkjum Norðmanna til sjávarútvegs?

2. Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að koma í veg fyrir þessa aðför að íslenskum sjávarútvegi?

3. Kemur norrænt samstarf Íslendingum að engu gagni í þessum efnum?“

Það má ljóst vera að ríkisstyrkir annarra þjóða til atvinnureksturs koma samkeppnislöndum afar illa. Ríkisstyrkir eru víða tíðkaðir og í ýmsu formi. Kanadamenn styrkja sinn fiskiðnað verulega, bæði gera fylkin það og ríkið sjálft. Á síðasta ári voru t.d. í gangi 37 prógrömm til styrktar fiskveiðum í Nýfundnalandi. Hafa fiskimenn í Bandaríkjunum af þessu miklar áhyggjur og hefur Bandaríkjastjórn hótað Kanadamönnum að setja toll á innflutning þeirra eða banna innflutning alveg.

Færeyingar eru alls ekki stikkfrí í þessum efnum, en 1/3 af fjárlögum þeirra kemur frá Dönum sem óbeint er notað til slíkrar styrkjastarfsemi. Einnig mun slík styrkjastarfsemi vera til staðar í Danmörku. Sannleikurinn er sá að styrkjastefna í sjávarútvegi breiðist út frekar en hitt.

Í Noregi eru ríkisstyrkir í sjávarútvegi meiri en hjá nokkurri annarri þjóð. Sá er þó munurinn á Norðmönnum og öðrum þjóðum að þeir gefa þessa ríkisstyrki upp sem aðrar þjóðir gera ekki. Aðeins 5–6% af þjóðarframleiðslu Norðmanna eru sjávarútvegur. Helstu rök Norðmanna fyrir ríkisstyrkjum til sjávarútvegs eru byggðastefnan. Í Noregi skiptir litlu hvert er markaðsverð fiskjar. Hið eina sem skiptir máli fyrir sjómenn og útgerðarmenn í Noregi er hvað ríkið styrkir þá mikið.

Um síðustu áramót náðist samkomulag milli Norsk fiskerlag og norsku ríkisstjórnarinnar um stóraukna styrki til sjávarútvegsins. Á þessu ári fær norski sjávarútvegurinn samtals 1375 millj. n. kr. eða samtals um 6.2 milljarða ísl. kr. Samsvarar þetta því að norska ríkið greiði um 60% af öllu fiskverði þar í landi auk þess sem stórar upphæðir fara í hvers konar sérverkefni.

Ef við tökum dæmi héðan af Íslandi og þá hvað varðar sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem flytur út stærstan hluta freðfisks, þá flutti Sölumiðstöðin út á s.l. ári fyrir 5000 millj. kr. Af þessari upphæð má reikna með að helmingurinn sé hráefnisverð. Skv. þessu eru styrkir Norðmanna 2.5 sinnum meiri en aflaverðmætið.

Eins og fram kom áðan er ríkisstyrkur Norðmanna í ár 6.2 milljarðar kr. eða mun meiri en nemur öllum útflutningi Sölumiðstöðvarinnar. Einnig má nefna annan samanburð. Þessir norsku ríkisstyrkir svara til þess að borga yrði 100% framlag á laun allra starfsmanna í frystihúsum og við saltfiskverkun hérlendis svo og til allra sjómanna nema þá loðnusjómanna.

Það er óhætt að segja að styrkjakerfi Norðmanna sé aðför að íslenskum sjávarútvegi. Það geri'ég vegna þess að ríkisstyrkirnir gera samkeppnisaðstöðu okkar á erlendum mörkuðum mjög erfiða. Það er óverjandi að Norðmenn, sem eru vina og frændþjóð okkar, skuli haga sér þannig gagnvart Íslendingum. Ég hef átt viðræður við helstu útflutningsaðila fiskjar hér á landi. Alls staðar er því haldið fram að Norðmenn, sem berjast um sömu markaði og við Íslendingar, komi óheiðarlega fram sem samkeppnisaðili. Sagt er að Norðmenn hafi lítinn áhuga á að kynna sér markaðsverð hverju sinni. Þeir selji fyrir lægra markaðsverð en þeir geti fengið. Þeir segja við kaupendur fiskjar að þeir viti ekki hvaða verð þeir þurfi að fá fyrir afurðina, það fari eftir ríkisstyrknum. Þá hæla kaupendur sér af því að það sé mun þægilegra að eiga viðskipti við Norðmenn vegna ríkisstyrkjanna. Okkar útflutningsaðilar telja að Norðmenn séu að verða sífellt andvaralausari gagnvart markaðinum, þeir reyni ekki að fá hæsta markaðsverðið, það skipti þá ekki máli.

Nýlega var gerð bókun hjá Sambandi ísl. fiskframleiðenda sem komið hefur verið á framfæri við viðskrh. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn SÍF lýsir miklum áhyggjum vegna sívaxandi opinberra styrkja til sjávarútvegsins í Noregi og hjá öðrum keppinautum okkar. Vegna þessara ríkisstyrkja geta framleiðendur í þessum löndum selt framleiðslu sína undir kostnaðarverði og haldið þannig verði á íslenskum fiski lægra en ella væri. Stjórn SÍF óskar þess að öll tækifæri verði notuð til að vekja athygli viðkomandi aðila á því hve mjög þessir ríkisstyrkir skaða hagsmuni Íslands.“

Þá segja SÍF-menn að Norðmenn sæki nú fast á Portúgalsmarkað og hafi nýlega gert samning við Portúgali um mikið magn af saltfiski á þessu ári. Sömu sögu hafa skreiðarútflytjendur að segja. Á þeim mörkuðum þurfa Íslendingar að mæta sífelldum undirboðum Norðmanna. Einnig mun svo vera hvað varðar frystan fisk. Á öllum fiskmörkuðum þar sem báðir eru finna okkar útflytjendur fyrir vinnubrögðum Norðmanna. T.d. má nefna að fyrir nokkrum árum seldu Íslendingar verulegt magn af ufsa til Tékkóslóvakíu. Norðmenn undirbuðu þann markað og sitja nú einir að honum. Sá markaður er okkur Íslendingum tapaður vegna undirboðs Norðmanna.

Í viðræðum við útflytjendur spurði ég hvort ekki hefði verið reynt að ná samstarfi við Norðmenn. Fram kom að oft hefði það. skeð, en þrátt fyrir að stundum hefði náðst samstarf hlypu Norðmenn alltaf frá slíku samkomulagi strax og á reyndi.

Íslendingar hafa lengi verið aðilar að EFTA. Á þeim vettvangi hefur ýmislegt jákvætt átt sér stað er styrkt hefur hagsmuni Íslendinga, en er það rétt að Norðmönnum líðist að undanskilja fisk og fiskafurðir í þessum fríverslunarsamningi?

Við Íslendingar höfum einnig tekið virkan þátt í norrænu samstarfi. Það samstarf hefur fært okkur nær þeirri þjóðafjölskyldu sem okkur er skyldust. Norrænt samstarf er vissulega mikils virði og sér þess víða stað. Það nær hins vegar engri átt hvernig Norðmenn haga sér gagnvart okkur á fiskmörkuðunum. Það er því ástæða til að spyrja: Kemur norrænt samstarf Íslendingum að engu gagni í þessum efnum?

Það mætti minna Norðmenn á hve viðskiptajöfnuður gagnvart þeim er okkur óhagstæður. Það mætti krefjast þess að þeirra byggðastefna verði ekki til að kyrkja íslenskan sjávarútveg. Ég spyr hvað ríkisstj. hafi gert í þessum efnum og hvað sé fyrirhuguð að gera.

Á næstunni verður þing Norðurlandaráðs haldið hér í Reykjavík. Ég tel að nota eigi það tækifæri til að gera frændum okkar á Norðurlöndum ljóst að styrkjastefna Norðmanna í sjávarútvegi geti komið íslenskum sjávarútvegi á kaldan klaka og rýrt lífskjör hér á landi mjög verulega. Vettvang Norðurlandaráðs á að nota til að knýja Norðmenn til samstarfs á fiskmörkuðunum og koma í veg fyrir að stórfelldir ríkisstyrkir Norðmanna grafi undan efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga.