12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér vekur fyrirspyrjandi máls á brýnu hagsmunamáli undirstöðuatvinnuvegar Íslendinga. Og mig undrar það nokkuð að hæstv. viðskrh. skuli telja það spurningu hvort í ríkisstyrkjum Norðmanna til sjávarútvegs hjá sér, styrkjum sem nema 6–7 milljörðum ísl. kr., sé um að ræða aðför að íslenskum sjávarútvegi. Ég held að það geti ekki verið nokkur vafi á því að svo er.

Í svari hæstv. ráðh. kom það fram að Íslendingar hefðu ítrekað haft uppi mótmæli við þessum styrkjum. En það er alveg ljóst að þau mótmæli hafa ekki breytt neinu fram til þessa. Við hljótum að sakna þess frá hæstv. ráðh. að hann kynnti einhverjar áætlanir íslenskra stjórnvalda til að fá þessu óþolandi ástandi breytt í reynd. Það eru fleiri en Norðmenn sem eiga við vanda byggðaröskunar að stríða og það er óþolandi að innan fríverslunarsamtaka eins og EFTA skuli eiga sér stað sú þróun sem þessir ríkisstyrkir bera vott um. Fleiri þjóðir styrkja sinn sjávarútveg, eins og t.d. Kanadamenn sem við eigum í harðri samkeppni við. En þeir eru þó ekki aðilar ásamt okkur að fríverslunarsamtökum og gildir því að nokkru annað um þeirra styrki þó að þeir séu engu að síður hið alvarlegasta mál fyrir íslenskan sjávarútveg.

Ég held að fram hjá þeirri staðreynd verði ekki horft að íslensk stjórnvöld, ráðuneyti viðskiptamála á Íslandi, hafa á umliðnum árum, frá því að við gengum í EFTA, verið afar deig að verja okkar hagsmuni að því er snertir styrki við framleiðslu annarra þjóða, framleiðslu sem við eigum í samkeppni við í útflutningi og í innflutningi. Ég þekki það frá þeim árum sem ég var í ríkisstj. að þá var ekki staðið að þessum málum með eðlilegum hætti af viðskrn. og nefndir sem skipaðar voru voru ekki nema sýndarmennskan ein og luku ekki starfi, t.d. varðandi samkeppnisaðstöðu íslensks húsgagnaiðnaðar svo að dæmi séu tekin. Ég tel að það sé lágmarkskrafa til íslenskra stjórnvalda að mótuð verði áætlun um það að fá hér á breytingu og láta einhverjar athafnir fylgja orðum því að það er greinilegt að orðin nægja hér ekki ein.