23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins mótmæla því sem kom hér fram í máli iðnrh. að stjórnarandstaðan hafi fengið að fylgjast grannt með gangi samningaviðræðna, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Það get ég ekki talið að sé, því um miðjan sept., 18. sept. reyndar, kallaði iðnrh. stjórnarandstöðuna á sinn fund og fékk fulltrúum hennar í hendur plagg sem útbúið var af Landsvirkjun um viðræður um endurskoðun á orkusölusamningi til ÍSALs. Í þessu plaggi var ekkert eða ákaflega lítið sem hafði ekki þegar komið fram og þegar stjórnarandstöðufulltrúar báðu um að fá að sjá og að vera trúað fyrir þeim samningsdrögum sem þá lágu fyrir skýrði hæstv. iðnrh. frá því að það væri honum ekki mögulegt vegna þess að Alusuisse vildi bíða með það þar til að afloknum fundi í London 8. og 9. okt. Sá fundur er nú afstaðinn og ekki bólar á því að stjórnarandstöðunni sé kynnt þetta samkomulag, þau samningsdrög sem liggja fyrir. Síðan kemur iðnrh. hér og vill halda því fram að stjórnarandstöðunni sé gert kleift að fylgjast grannt með. Þessu vil ég mótmæla.