12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það er reyndar mjög eðlilegt að þetta mál komi hér á dagskrá eins og reyndar mörgum sinnum áður.

Þessir styrkir Norðmanna hafa, eins og fram hefur komið hér, viðgengist í mörg, mörg ár. Þeir eru reyndar ekkert mikið hærri núna en þeir voru fyrir tveim árum þegar hægri stjórnin kom til valda í Noregi og frestaði að fastsetja styrkina í tvö ár. Þeir eru mjög svipaðir nú.

Okkur þykir það ósvinna að Norðmenn skuli reka sína byggðastefnu með þessum hætti. Þeir halda uppi allt of stórum fiskiskipaflota. Þeir eru með þremur til fjórum sinnum fleiri sjómenn en við. Þeir eru með meira en helmingi fleira fiskverkunarfólk. Og þeir fá mjög svipaðan afla og við nema meira af loðnu og meira af rækju, það er allt og sumt. Ég efast ekkert um að útreikningur manna á upphæð styrkja á kíló af íslenskum fiski eða á ársverk sé réttur, ef menn vilja nota þann mælikvarða, en ég er ekki alveg viss um að þessir styrkir muni hafa áhrif á verðlag eða samkeppnisaðstöðu okkar á mörkuðum. Verð á fiskafurðum fer nefnilega fyrst og fremst eftir því hvaða verð er á kjúklingum, kjöti eða eftir uppskeru í löndum og þar fram eftir götunum.

Norðmenn selja sinn fisk eins dýrt og þeir geta og þar sem þeim finnst hagkvæmast. Það er svo annað mál að þeir hafa mjög öflugan stuðning við sína markaðsstarfsemi. Ef þeir hættu þessari vonlausu styrkjavitleysu sinni, sem þeir viðurkenna flestir hverjir að er vitleysa, mundi að sjálfsögðu fækka fyrirtækjum í sjávarútvegi fyrst í stað, þau mundu einfaldlega fara á hausinn. Hvort verð á afurðum Norðmanna mundi hækka við það efast ég um. Þeir mundu selja á sömu mörkuðum og við á því verði sem þeir fengju fyrir, eins og nú er. Það mundi e.t.v. fyrstu árin verða eitthvað aðeins minna framboð á norskum fiski, en fiskveiðar yrðu stundaðar áfram í Noregi og norskur fiskur yrði áfram fyrir okkur á mörkuðunum. Þá er það eitt fengið að heilbrigður sjávarútvegur yrði rekinn þar.

Þá sem ekki vita upplýsi ég um að þessi styrkjaflækja er orðin aldeilis geigvænleg. Það eru u.þ.b. 50 mismunandi atriði styrkt á þennan hátt. Stærsta upphæðin, yfir 300 millj. n. kr., er ætluð til að verðbæta fisk sem landað er á tilteknum svæðum. Í samkomulaginu segir: „Tekið er tillit til fisktegunda sem eru óhagkvæmar í vinnslu og landsvæða þar sem rekstur er erfiður“. Til að landa rækju á tilteknum svæðum eru ætlaðir nokkrir tugir millj. Í flutningastyrki á bolfiski eru ætlaðar 50 millj. Til að verðbæta síld, sem landað er í vinnslu á tilteknum svæðum, eru ætlaðar 10 millj. Það er veitt ábyrgð á að verð á mjöli og lýsi haldist. Það eru styrkir til að veiða hámeri. Til smáhvalaveiða, selveiða, úreldingar fiskiskipa og vinnslufyrirtækja eru veittir tugir millj. Næststærsta upphæðin er frátekin í sparnaðaraðgerðir og til að endurgreiða opinber gjöld af eldsneyti.

Mér finnst mjög eðlilegt að þetta mál sé tekið til umr., en ég er ekki viss um að við höfum mikil áhrif á það þó að við berjumst um eins og við höfum gert undanfarin ár. Ég minnist þess að hv. þm. Kjartan Jóhannsson fyrrverandi sjútvrh. reyndi líka sitt til þess með litlum árangri.