12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Menn hafa hver á fætur öðrum skýrt frá mótmælum af hálfu íslenskra aðila út af þessum undirboðum Norðmanna. Ég vil líka láta það koma hér fram að á fundi með formönnum jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum og Grænlandi um miðjan janúar s.l. gafst tækifæri til að árétta þessi mótmæli enn. Ég vakti þar athygli á því að sjávarútvegur Íslendinga væri að vissu leyti í kreppu. Að sumu leyfi væri þar um að ræða viðráðanlega þætti innanlands sem lytu að efnahagsstjórn og tækniatriðum, en það alvarlegasta við þetta væri þó óviðráðanlegt af okkar hálfu þar sem væri um að ræða þessa styrkjapólitík Norðmanna sem ég sagði fyrir mína parta að við teldum vera brot á almennum viðskiptareglum EFTA, fyrir utan að það samrýmdist lítt eilífðartali manna á norrænum samkundum um bróðurlegt samstarf.

Í fyrsta lagi er rétt að skýra frá því að svör Norðmanna við þessu erindi voru engin. Og nú hafa menn hver á fætur öðrum skýrt frá því að árum saman hafi menn borið upp slík mótmæli og þau dugi ekki. Og þá er komið að þeirri spurningu hvað gera á við Norðmenn. Það dugar ekki að bera fram endalaus mótmæli. Það verður að fylgja þeim eftir í verki. Í raun og veru er þetta aðför Norðmanna að hagkerfum eyríkjanna sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, byggja lífskjör sín á sjávarbúskap. Í Noregi er sjávarútvegur aukabúgrein og hún harla ómerkileg í samanburði við þann iðnaðar- og olíuauð sem þeir hafa úr að spila.

Ég tek ekki undir það með síðasta hv. ræðumanni að þessi styrkjapólitík kunni hugsanlega ekki að skipta neinum sköpum að því er varðar samkeppni. Mér sýnist augljóst að ef ekki væri um að ræða verulegar niðurgreiðslur og styrki mundi framleiðsla Norðmanna vera mun minni en hún er. Það hefði áreiðanlega áhrif á bæði verð og samkeppnisaðstöðu okkar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að beina því til hæstv. viðskrh. að nú er ekki lengur nóg að mótmæla. Í fyrsta lagi er auðvitað rétt að gera þetta að máli málanna þegar Norðurlandaþing kemur saman í Reykjavík, hætta venjulegum skálaræðum og glamri um vini vora og frændur Norðmenn sem þeir eru náttúrlega ekki nema að hluta til kannske. Í annan stað er rétt að íslenska ríkisstjórnin og allir talsmenn okkar á þingi Norðurlandaráðs fylgi þessum mótmælum eftir og geri þetta að máli málanna, en við hættum að ræða við þá um að við séum tilbúnir til að verja einhverjum peningum til að kaupa leiðinlega norska sjónvarpsdagskrá. Og í þriðja lagi væri rétt að hafa í hyggju og undirbúa ákveðnar ráðstafanir til að breyta okkar viðskiptastarfsemi með Norðmönnum. Þegar þar við bætist hvað viðskiptajöfnuður okkar í verslunarviðskiptum við þá er óhagstæður, þá væri kannske orðið tímabært að gera ráðstafanir til að breyta því líka.

Að lokum vildi ég beina því, ef það gæti borist gegn um fjölmiðla, til fiskverkunarfólks á Íslandi og á höfuðborgarsvæðinu að það væri kannske ástæða til að það fjölmennti fyrir utan það hús þar sem Norðurlandaráðsþing verður haldið eða norska sendiráðið til þess að fylgja þessum mótmælum eftir í verki.