12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það var kominn tími til að við fyndum okkur verðugt verkefni á Alþingi og ræddum norska byggðastefnu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst umr., sem hér hefur farið fram, nánast öll út í hött. Formaður Sjálfstfl. uppgötvaði einhvern tíma fyrir jól, í eitt af þeim örfáu skiptum sem hann steig í ræðustól, hinn nýja óvin Íslendinga. Sá var með vefjarhött og bjúgnef og gerði það illt af sér að lána Íslendingum peninga. Nú eru kratarnir búnir að finna hinn nýja óvin Íslendinga. Hann er í austri, hann er frændi okkar, og gerir það illt af sér að reka byggðastefnu. Örfáum sálum á norðvesturströnd Noregs er gert kleift að búa á þeim stað, sem almennt samþykki ríkir um að hann fái að búa á, með ákveðnum framlögum úr sameiginlegum sjóðum sem Norðmenn hafa yfir að ráða nægum. Það er allt í einu orðið þjóðarböl Íslendinga. Skyldi nokkurn undra þó að Íslendingar ráði ekki við sinn vanda heima fyrir þegar þeir sí og æ finna sína óvini einhvers staðar utan þessa lands en ekki innan?

Mér er sem ég sjái góðvin 5. þm. Reykv., formann verkamannaflokksins í Noregi, Gro Harlem Brundtland, flytja langt mál á þingi um Framkvæmdastofnun Íslendinga, ill áhrif hennar á verðlagningu í sjávarvöruframleiðslu Íslendinga og áhrif þess á samkeppnisaðstöðu Norðmanna á erlendum mörkuðum sem er algjörlega sambærilegt dæmi. Út úr þeirri stofnun hefur verið dælt peningum í fiskiðjufyrirtæki hér, bæði á vöxtum og gjafvöxtum. Áhrif þess hafa nákvæmlega engin verið nema til ills.

Ég er alveg hjartanlega sammála 5. þm. Norðurl. e. um að verðlag á framleiðslu okkar á þeim mörkuðum sem hún er seld á fer fyrst og fremst eftir því hvað menn vilja borga fyrir hana. Það fer eftir gæðum vörunnar og þeirri eftirspurn sem þar ríkir. Ég er líka hjartanlega sammála honum um að það er ekki á nokkurn hátt hægt að gera því skóna, þó að Norðmenn legðu styrki sína af, að það þýddi hækkun á afurðum þeirra og auðveldaði samkeppnisaðstöðu okkar og gerði okkur þá um leið ekki eins nauðsynlegt að reyna að taka til í búskap okkar hérna heima.

Ég held að menn séu hér að hengja bakara fyrir smið.