12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. flutti athyglisverða ræðu. Hann kom á framfæri þeirri grasrótarkenningu að það skipti engu máli fyrir okkur í viðskiptum út á við hvort sams konar vörur og við værum að selja úr landi væru styrktar stórkostlega af samkeppnisaðilum erlendis eða ekki. (Gripið fram í: Það er gagnkvæmt.) Það er gagnkvæmt þegar 5% af þjóðarframleiðslunni hjá einu landi eru sjávarútvegsvörur en yfir 73% hjá öðru? Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur gert sér grein fyrir því hvílíkum firnum af vitleysu hann gat komið fyrir í einni ræðu og hvílíka vanþekkingu hann útbreiddi áðan.

Hv. þm. réðist jafnframt á Framkvæmdastofnunina fyrir að hafa varið fjármunum til hraðfrystihúsaáætlunar í þessu landi. Hagvöxturinn frá 1970 til 1980 varð 4.5%. E.t.v. hefur hv. þm. aldrei heyrt þess getið. (StB: Hver er hann nú?) Hver er hann nú, segir hann og horfir upp í stjörnuhimininn. Það er von að maðurinn spyrji. Það er hægt að taka fjármuni frá sjávarútveginum með ýmsum leiðum. Vinsælasta aðferðin til að hirða af honum þá fjármuni sem hann hefur átt með réttu er að skrá gengi íslensku krónunnar rangt á hinum ýmsu tímum. Og eignarupptakan hefur farið fram í Seðlabanka Íslands.

Ég hygg að hver sem fer yfir sögu þessa lands geri sér grein fyrir því að það gengur ekki upp sögulega að íslenska þjóðin hafi lifað á sjávarútvegi, en samt sem áður hafi íslenska ríkið alltaf verið að gefa sjávarútveginum peninga. Þessi kenning gengur einfaldlega ekki upp. (StB: Sammála því.) Það er vel.