12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Heimska og barnaskapur eru nokkuð stór orð og ekkert við þeim að segja. Þeir dæma sig sjálfir sem slíkt orðbragð hafa í frammi. Það er leiðinlegt að þurfa að stafa fyrir fólk. Auðvitað er ég í sjálfu sér ekkert á móti því að setja fram þá kröfu við Norðmenn að þeir hætti þeim stuðningi við sjávarútveg sem þeir halda uppi. En það hlýtur að vera atriði sem menn semja um. Við erum að tala um að við keppum á mörkuðum á svipuðum samkeppnisgrundvelli. Átta menn sig ekki á því þó að það sé reyndar andstætt því sem hæstv. sjútvrh. var að halda fram? Það sér hvert einasta mannsbarn sem skoðar íslenskan sjávarútveg að samkeppnisaðstaða hans er ekki með öllu eins og hún gæti verið. Því eru allir menn sammála á þessu þingi og víðs vegar um allt land.

Það eru of mörg skip að veiða of fáa fiska. Þegar við setjum einhverja kröfu fram við granna okkar er ekkert óeðlilegt að þeir setji þá kröfu fram við okkur að við reynum þá að afla þessara fáu fiska, sem við höfum aðstöðu til að veiða, með sem hagkvæmustum hætti. Er það óeðlilegt? Ekki að mínu mati. Ekki miðað við það að við séum að setja fram þá sömu kröfu við þá að þeir keppi á því sem við köllum heilbrigðan samkeppnisgrundvöll. Við erum búin að koma upp núna með kvótakerfinu ákveðnu skömmtunarfyrirkomulagi sem verkar sem byggðastefna, skammtar mönnum möguleika á því að tóra kringum allt land á afkomu sem reyndar er léleg og við erfiðar aðstæður en nægir þó til þess að tóra, en gerir það að verkum að við æpum eftir hærra verði á okkar afurðum. Það þýðir ekkert að halda að við getum leyst það með því að draga keppinautana út úr samkeppninni með jafnbarnalegum kröfum og það að þeir láti af sinni byggðastefnu.

Ég tek alveg undir með hæstv. sjútvrh. Þó að við förum að gaspra eitthvað um þetta á komandi Norðurlandaþingi á ég ekki von á að þar náist mikill árangur og því sé verr af stað farið en heima setið.