12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

282. mál, hlustunarskilyrði hljóðvarps

Fyrirspyrjandi (Siggeir Björnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til menntmrh. um hlustunarskilyrði hljóðvarps og er hún svohljóðandi:

„Er þess að vænta að gerðar verði ráðstafanir til að bæta hlustunarskilyrði fyrir hljóðvarp austan Mýrdalssands í Vestur-Skaftafellssýslu?“

Hlustunarskilyrði hljóðvarps í Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands hafa vægast sagt verið mjög slæm um langt skeið. Yfir þessu hefur oft verið kvartað, en því miður engar úrbætur fengist. Eru menn satt að segja orðnir æðilangþreyttir á þessu ástandi ár eftir ár.

Fyrir jól í vetur lá undirskriftalisti frammi á Kirkjubæjarklaustri í stuttan tíma þar sem skorað var á menntmrh., útvarpsstjóra og póst- og símamálastjóra að bæta úr þessu slæma ástandi. Undir þessa áskorun skrifuðu á skömmum tíma 50% allra héraðsbúa á aldrinum 12–70 ára.

Í þessari áskorun kemur fyrst og fremst fram óánægja með að hlustunarskilyrði á Rás 1 skyldu ekki verða bætt áður en fjármagni var veitt til Rásar 2. Rás 2 heyrist alls ekki á því svæði sem fsp. þessi fjallar um. Vafalaust hefur fólk í ýmsum öðrum byggðum landsins svipaða sögu að segja. Hins vegar bera allir sömu gjöld til þessarar stofnunar og eiga því vitanlega rétt á svipaðri þjónustu. Hlustunarskilyrði hljóðvarps í þessum sveitum, sem hér um ræðir, eru svo slæm að Rás 1 heyrist ekki eða víða alls ekki nema með því að hafa dýran loftnetsúfbúnað, svo að ekki sé nú talað um bílatæki eða venjuleg ferðatæki.

Þá hefur mér verið bent á, en ég skal þó játa að það hef ég ekki sérstaklega kannað sjálfur, að ýmsir þættir í hljóðvarpi, svo sem þáttur sem kallaður er Listapopp að ég held og danslög á laugardagskvöldum, hafi verið fluttir yfir á Rás 2. Vekur það að sjálfsögðu óánægju þeirra sem á það vilja hlusta og þó einkum unga fólksins eins og eðlilegt er.

Viðunandi hlustunarskilyrði hljóðvarps og einnig að geta séð og heyrt sjónvarp eru réttlætismál. Það er líka menningarmál að geta notið þess sem þessir fjölmiðlar hafa fram að færa. Þá er það einnig byggðamál og það er ekki ómerkur þáttur í þeirri viðleitni að halda jafnvægi í byggð landsins sem svo oft er talað um. Ekki er síður nú en oft áður þörf á standa þar vel á verði þegar fjármagn og vinna leita til höfuðborgarsvæðisins, e.t.v. í ríkari mæli en oftast áður.