11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég er nú alveg hissa að allir þm. skuli ekki vera mættir. Allavega vantar þá sem ég ætlaði að byrja að tala til svo að það er best að breyta upphafinu.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um ræðu hv. 3. þm. Reykv. Svavars Gestssonar og byrja á því að staðfesta það, sem hann sagði réttilega og er eitt af því fáa sem maður hefur ekki heyrt í ræðum frá honum áður við öll tækifærin, að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað vald. Það er alveg rétt. Og launamálin heyra undir fjmrh., það er líka rétt. Og að sjálfsögðu tek ég fulla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem ég tek í því embætti. Virðulegur þm. hefur sjálfur verið ráðh. og veit þetta allt svo að ég er ekki að segja honum neitt nýtt. En að sjálfsögðu gerir enginn ráðh. það að taka afdrifaríkar eða hugsanlega afdrifaríkar ákvarðanir án þess að kynna þær samstarfsmönnum í ríkisstj. og heyra undirtektir þeirra. En ég tek á mig að öllu leyti þá ákvörðun að hafa ekki greitt út laun fyrir þann tíma sem opinberir starfsmenn eru í verkfalli og bið hv. 3. þm. Reykv. og aðra þm. hér að beina spjótum sínum að mér en ekki hæstv. forsrh. eða Framsfl.

Hv. þm. sagði að ríkisstj. hefði verið pínd, eða yrði pínd, ég skildi nú ekki hvort hann meinti, til að senda frá sér tölur til lausnar kjaradeilu BSRB. Það getur vel komið að því að við verðum að gera það. En málin standa einfaldlega þannig í dag að við höfum verið að reyna að fá endanlega niðurstöðu í umræðupunkta við BSRB. Ég hef nú kynnt þær umr. sem hafa farið fram, kynnt þær mörgu tilraunir sem samninganefnd ríkisins hefur gert til þess að koma af stað alvarlegum umr. um lausn kjaradeilunnar án þess að hafa fengið nokkuð til baka frá BSRB. En fyrst er að vita um hvað við eigum að tala. Viljum við halda okkur að deilunni eins og hún er, þ.e. launaþætti þeirra kjarasamninga sem eru í gildi og er það eina af samningunum sem hefur verið sagt upp, eða eru samninganefndarmenn BSRB reiðubúnir til þess að opna aðalkjarasamninga og gera við okkur nýja kjarasamninga, bæði sérkjarasamninga og aðalkjarasamninga, sem gilda til lengri tíma? Það er spurning sem við verðum að fá fram til þess að við vitum í hvaða átt við eigum að halda og um hvað við eigum að ræða. En við höfum enn ekki fengið annað en svona jákvæðar undirtektir undir lengri samninga en ekki náð því að setjast niður og tala saman í fullri alvöru. Og ég held að flestum hafi verið það ljóst að erfitt kynni að verða að ná nokkrum samningum eða samtölum um samninga í alvöru fyrr en Alþingi væri komið saman.

Alþb. getur haldið sinni iðju áfram, þeirri iðju sem það hefur stundað frá því að þessi ríkisstj. tók við. Iðja sú sem ég á hér við er að grafa undan ríkjandi þjóðskipulagi og þeim flokkum sem eru í ríkisstj. Síðan þegar þeim Alþb.-mönnum hafði tekist að magna upp óánægju meðal launþega almennt hurfu þeir úr myndinni og maður hefur bókstaflega ekki fundið þá í þessum deilum lengur. Þeir komu ekki út úr sínum músarholum fyrr en nú, að þeir skríða út þegar Alþingi kemur saman og byrja þá aftur á sinni fyrri iðju.

Og nú skal ég segja ykkur hvað ég sýndi í sjónvarpinu á sínum tíma, þegar umr. voru þar, og þá vita menn hvað ég á við. Hér er frétt úr Þjóðviljanum, sem birtist 31. ágúst á 8. blaðsíðu, og ef fyrrv. ritstjóri, núv. hv. 3. þm. Reykv. vill fá afrit af þessu, þá get ég látið ljósrita það. Þar stendur nákvæmlega hver árangurinn af þessari iðju þeirra Alþb.-manna á að verða. Og ég harma það svo sannarlega, og það hljóta allir góðir Íslendingar að gera, að aðrir lýðræðissinnar, sem ekki eru stjórnarsinnar, skuli hrífast með bara viljanum til þess að fella ríkjandi stjórn.

Þessi grein, sem er frétt frá kjördæmisráðstefnu Alþb. sem haldin var á Vestfjörðum, ber stóra fyrirsögn: „Verðmætin til þeirra sem skapa þau.“ Undirfyrirsagnir eru þessar með leyfi forseta: „Kjördæmisráðstefna AB: 25–30% kjaraskerðing. Rekstrargrundvöllur frumatvinnuveganna í rústum. Stórfelld byggðaröskun. Ránsfengur í verslun og þjónustu. — Snúa verður frá nýlendustefnu.“

Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum, og við skulum ekki taka það í neinu gríni, vegna þess að ástandið í þjóðfélaginu er orðið þannig að þeir koma fram grímulaust við og við í von um að það verði ekki tekið eftir því. Síðan stendur hér:

„Ný ráð: brjóta upp grundvallarskipulag þjóðfélagsins. Skipta landinu í öflugar valdaeiningar. Seðlabankinn verði lagður niður í núverandi mynd.“ (SvG: Vill Alþb. storka kerfinu?) Þetta kalla ég nú að koma hreint fram.

En við skulum ekki líta fram hjá því sem þarna er að gerast. Tökum þessar nýju leiðir hérna: „brjóta upp grundvallarskipulag þjóðfélagsins“ og svo skulum við sjá hver ávöxtur af þeirra iðju hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið og hvers vegna var ekki þörf fyrir þá þegar verkalýðsfélögin fóru í verkfall 4. okt., sem hófst þó fyrr, ég sleppi þeim tíma, en á öðrum degi verkfalls, og ég bið þá sem á annað borð hafa haft fyrir því að koma hingað svona fljótt eftir matinn að hlusta vel:

Dagblöðin koma ekki út. Þau hafa verið stopp í þann tíma. Útvarp er lokað, byggingin hersetin. Sjónvarp er lokað. Skólar lokaðir. Bækur teknar af börnum. Póstur og sími lamaður eða lokaður. Lögreglan í uppnámi, í verkfalli að miklum hluta. Síminn truflaður. Rafmagn truflað. Samgöngur truflaðar, svo ég tali nú ekki um hvernig strætisvagnar höguðu sér um tíma. Opinberar stofnanir eru ýmist lokaðar eða lamaðar. Út- og innflutningur stöðvaður, framleiðsla í fiskiðnaði stöðvuð vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Rannsóknarskipin stöðvuð, tollþjónustan stórlömuð. Háskóli Íslands lokaður. — Háskóli Íslands lokaður. Það er heimsfrétt. Ef lögregla eða her stígur fæti inn á háskólalóð einhvers staðar í heiminum, þá er það heimsfrétt. Þjóðleikhúsið lokað. Verkfallsnefnd, eins konar ríkisstjórn, sett á laggirnar, sem neitar að viðurkenna ákvarðanir kjaradeilunefndar, sem kjörin er sem æðsta vald í verkföllum af Alþingi. 600 manna ríkisvarðsveit þegar á öðrum degi orðin til. Telex er truflað. Og nú síðast er komið í veg fyrir þá mannúð að þjóðin fái að vita um látinn ættingja eða vin. Því er hafnað að Ríkisútvarpið taki slíkar tilkynningar.

Við skulum vera alveg klár á því að í hvaða landi sem væri þá væri þetta talin alvarleg bylting. Og þá sjáum við hvað íslenskt þjóðskipulag og lýðveldið er orðið veikt. Við skulum átta okkur á því, við sem erum ekki kommúnistar, að í dag situr ríkisstj. án valda. Völdin eru hjá kjaradeilunefnd að hluta, en völdin eru einkum hjá verkfallsnefnd. En þótt ríkisstj. sitji án valda, þá skulum við líka átta okkur á því, að ríkisstj. situr með fulla ábyrgð á öllu því sem þessar verkfallsstjórnir eða uppreisnarmenn gera. Á sama tíma erum við svo blind að við tökum á þessu sem kjaradeilu eingöngu og högum okkur eftir því. Er þetta endanleg valdataka? Eða er þetta bara „premiere“?

Ég var að horfa á myndband heima núna í matartímanum. (Gripið fram í: Er það ekki ólöglegt?) Það er ekki ólöglegt. Myndböndin eru leyfileg, þegar það eru auglýsingamyndbönd, sem viðkomandi aðili sótti um leyfi fyrir til hæstv. ráðh. og fékk leyfi til að sýna þau í stórmagasínum og víðar. Og það hefðu kannske fleiri, helst þið öll, átt að koma með mér heim, þó að ég hefði ekki getað boðið þar öllum í mat að þessu sinni, en þið hefðuð átt að koma með mér, vegna þess að ég var að horfa á upptöku á tækjum DV. Og þið hefðuð átt að sjá þetta. Þið verðið að sjá það. Gerið ykkur far um að sjá það. En ég vona að þið fáið sömu spólu og ég, vegna þess að það kom allt í einu frétt um setningu Alþingis sem sló mig. Hvað haldið þið að hafi komið? Meðan við vorum flest okkar á hefðbundinn hátt við kirkjuathöfn, sem tilheyrir setningu Alþingis, þá er þessi virðulegi formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., að dreifa áróðursritum hérna úti á Austurvelli. Þetta er myndin. Við skulum átta okkur á hvað er að ske. Eins og formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., gat um hér í ræðu sinni áðan eigum við í kjaradeilum þar sem kröfurnar eru svo háar að það er vitað mál, þegar þær eru lagðar fram, að það er ekki búist við því af þeim sem leggja þær fram að nokkur möguleiki sé til þess að verða við þeim. 30% launahækkun og 5% til viðbótar um áramótin, og þá vitna ég aftur í formann Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., á meðan þeir sem afla tekna til velmegunar þjóðfélagsins, sjómennirnir okkar, loðnumennirnir núna, fara til sinnar vinnu með 30% kaupskerðingu. Við skulum átta okkur á því sem er að ske. Við verðum að vera vakandi.

Við skulum leysa deiluna. Hér töluðu áðan tveir kennarar ef ég man rétt. Hv. 11. þm. Reykv., er hún ekki kennari? Ég held það. Og hv. 4. landsk. þm., ég held að hann sé kennari líka. Er það ekki rétt? Ég get sagt ykkur það í hreinskilni að kennaralaun eru of lág og ég hef ekkert á móti því að standa að því að kennaralaun hækki. Það eru ekki há laun að vinna við skulum segja hálfs dags vinnu fyrir 7–8 þús. kr. á mánuði. Það er vinnuskylda á hverjum degi eða svo til. En ef kennarar gera kröfur til þjóðfélagsins, þá verða þeir líka að þola að þjóðfélagið geri kröfur til þeirra. Hverju skila kennarar? Það er 30 stunda vinnuvika. Hver klukkutími er 45 mínútur. (Gripið fram í: Þetta er rangt, ráðh.) Er það rangt, já? Þá skulum við leiðrétta það. Hvað er hver klukkutími pr. kennara? Hvað er vinnuskylda kennara á tímann? (Gripið fram í.) Kennslustundin, já. (Gripið fram í: Heldur ráðh. að kennarar geri ekkert nema að sitja og kenna?) Það gera allir eitthvað, elskan mín. (JBH: Heldur ráðh. að þm. geri ekkert nema að gaspra í ræðustól?) Þm. eru nú komnir hingað m.a. til þess. En við skulum segja að það sé lágmark þrír mánuðir í sumarfrí. Er það rangt líka? (Gripið fram í: Það er rangt líka.) Er það rangt líka? Það eru aðrar upplýsingar sem ég hef. Það er 9 sinnum mánaðarfrídagur. Þessar 40 vikur, sem eftir eru, eru tveir frídagar í viku, sunnudagar og laugardagar, það eru 80 dagar. (Gripið fram í.) Nei, nei, nei. Það er bara miklu, miklu meiri vinnuskylda fyrir þm. heldur en kennara. Ég get talið upp að það er ekki nema um það bil helmingur af árinu sem kennarar vinna. (Gripið fram í.) Við skulum bara setja þetta niður á blað fyrir okkur. (Gripið fram í.) Verkamaðurinn, sem fær ekki fyrirframgreidd laun, verkamaðurinn, sem þarf að vinna heila viku og bíða aðra viku til að fá fyrri vikuna greidda, hann verður að skila sínum 60 mínútum á klukkutíma. Og hann verður að skila sínum sköttum og skyldum til hins opinbera til að standa undir bákninu. Við skulum bara átta okkur á því, að við erum búnir að skapa hér forréttindastéttir, sem íslenskt þjóðfélag þolir ekki, og það er kominn tími til að einhver tali þannig að þeir skilji það. (Gripið fram í.) Ég er að taka sem dæmi verkamanninn. Við skulum bara átta okkur á því hvað er að ske. Ef kennarar í þessu tilfelli gera áframhaldandi kröfur, sem þeir eiga fullan rétt á að gera innan sanngirni, þá verða þeir að vera fullkomlega viðmiðunarhæfir við aðra í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Eru þeir það ekki nú?) Nei, þeir eru það ekki að mínu mati.

Eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði var deilan við Háskólann með endemum. Deilan við Háskólann var ekki við dyraverði eða húsverði. Deilan við Háskólann var um það hvort opinberir aðilar, ríkisstj. eða ráðherrar, eiga að sækja um leyfi til verkfallsnefndar fyrir því sem þarf að láta vinna. Og þar með á lögkjörið og réttkjörið stjórnvald að viðurkenna verkfallsnefndir sem æðsta stjórnvald. (SvG: Þetta gerði Sverrir.) Ekki hef ég fréttir af því að Sverrir — svona bara upp á mannasiðina, hvaða Sverrir? Það eru þó mannasiðir í þinginu. (Gripið fram í: Gettu, hæstv. ráðh.) Nei, ég get ekki. Það eru nefnilega vissir mannasiðir, sem virðulegur formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., ætti að kunna. Hann er búinn að vera ráðh. sjálfur. En það kemur náttúrlega aldrei til greina að ríkisvaldið viðurkenni verkfallsnefndir sem æðstu valdastofnun.

Þá vil ég benda á bréf Benedikts Sigurjónssonar sem margvitnað er í. Hann segir í niðurlagi sinnar álitsgerðar sem þegar hefur verið lesin upp en ég ætla að lesa aftur:

„5. Spurningin er hvort ríkissjóður eigi að greiða ríkisstarfsmönnum innan BSRB full mánaðarlaun 1. okt.

Enginn vafi er á því að skylt er að greiða þeim starfsmönnum laun sem ekki fara í verkfall.“ Það er gert. „Deila má um hina flokkana.“ Hann er ekki öruggari en það að deila má um hina flokkana. „Þegar hins vegar er litið til hinna ákveðnu reglna 1. mgr. 20. gr. laga nr. 38/1954 og virtar verkfallsreglur laga nr. 29/1976 og þess gætt, að hinn 1. okt. er alls ekki víst að til verkfalls komi,“ — Það er alls ekki víst, segir hér. Ef það væri víst, þá gildir annað að hans áliti. Nú er bara alls ekki víst að það komi til verkfalls, segir hér. En það var vitað bæði af mér og formanni BSRB. — „þar sem samkomulag gæti náðst innan þess tíma, tel ég eðlilegt að líta svo á að greiða beri októberlaunin.“

Nú var bara alls ekki vilji BSRB til þess að setjast niður og ræða saman áður en verkfallið skall á, það veit ég, svo að það fer ekkert á milli mála einmitt skv. áliti lögfræðings, sem vitnað hefur verið í til hins gagnstæða, að þarna á ekki að greiða laun. Ríkislögmaður er sama sinnis og einn virtasti lögfræðingur okkar, Jón Steinar Gunnlaugsson, líka. Við þetta má bæta að borgarlögmenn voru líka sama sinnis.

Það er ýmislegt í ræðu hv. 3. þm. Reykv. sem ég get tekið undir. Ég tek undir það og hef ekkert verið myrkur í máli um það, að vaxtahækkun hlýtur að koma mjög illa og þungt niður á öllum þeim sem skulda eins og hún kemur sér vel fyrir alla þá sem eiga peninga inni og fá greidda vexti. Þarf ekki hagfræðing til að segja sér það. Þess vegna er ég ekkert hrifinn af þessum ráðstöfunum. Við erum sammála um það.

En síðan vék hv. þm. að fundi, sem haldinn var í gærkvöld og þá svara ég þeim sem um þann fund hafa talað. Hæstv. menntmrh. mundi líklega vera mér sammála þegar ég segi að það hafi verið a.m.k. 300 manns á þeim fundi. Það var fundur til að stofna frjálst útvarp og sjónvarp líka. Á þessum fundi var að mínu viti enginn sem hafði tekið þátt í ólöglegri útvarpsstarfsemi. Og þessi hópur hafði ekki rekið neitt útvarp, a.m.k. ekki þeir sem fyrir fundinum stóðu. Það getur svo sem vel verið að einhver þarna inni hafi verið viðriðinn þessi útvörp, sem hafa verið rekin undanfarið, en enginn af þeim sem þarna voru forustumenn hefur staðið fyrir ólöglegu útvarpi svo að ég viti til. En þeir eru að stofna frjálst félag og hvað er rangt við það? Átti lögreglan að ráðast þar inn líka og segja: Þið eruð með ólöglegt athæfi að mati verkfallsnefndar, þið hafið ekki heimild til að stofna félög. Síðan ætlaði þetta félag að sækja um leyfi til að reka frjálsa útvarpsstöð og jafnvel sjónvarpsstöð ef félagið verður stofnað. Það er framhaldsfundur sem tekur ákvörðun um það ef Alþingi samþykkir lög sem heimila slíkan rekstur. Þessi mál eru allt of stór mál og áríðandi fyrir íslenskt þjóðfélag til þess að tala um þau í einhverjum niðrandi háðstón sem efnahagsundur í Jórdan og sýnir hve langt neðan talað er. Ég vona að ég móðgi engan. (JBH: Erum við eitthvað að kvarta undan efnahagsástandinu í Jórdaníu?) Hv. 3. þm. Reykv. var eitthvað að tala um það, já.

Fólkið vildi líka að aðrir tækju eitthvað að sér í niðurskurði, tækju á sig einhverjar byrðar. Það er alveg rétt, það var gengið hart að fólki. Það voru líka gerðar ráðstafanir til að milda þær aðgerðir. Ríkisstj. gerði slíkar ráðstafanir á sínum tíma eins og bæði hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Suðurl. hafa skýrt frá. En er Alþingi virkilega á svona stuttum tíma búið að gleyma því, að við gerð fjárlaganna voru fjárlögin skorin niður um 1000 millj.? Og hið fræga gat á fjárlögunum, sem ég sem fjmrh. kynnti þegar ég tók upp fjárlögin aftur, af því að ég kynnti það við gerð fjárlaga að það þyrfti að fylla upp í það og ég gerði það, þar voru aðrar 1000 millj. skornar niður. Ég er búinn að kynna stjórnarandstöðunni — ég man ekki hvort það var í júní niðurstöðu ríkissjóðs eins og hún var þá og það bendir allt til þess að með mjög hörðu aðhaldi og mjög góðu samstarfi ríkisstj. verði ríkissjóður með 1000–1200 millj. kr. minni rekstrarhalla en við gerðum ráð fyrir þegar við sömdum fjárlögin. Haldið þið að það sé ekkert átak fyrir ríkissjóð og fyrir kerfið, sem kallað er og talað er um með lítilsvirðingu, að skera niður á einu fjárhagsári þetta stóra upphæð? Þetta vilja viðkomandi ekki vita eða viðurkenna. Það þýðir ekkert að segja að þetta sé allt því að þakka, að ríkissjóður kemur rekstrarlega vel út, að verslunarjöfnuður sé tveimur prósentum verri en búist var við og á því græði ríkissjóður. Það er búið að reikna hvað þessi 2% viðbótarviðskiptahalli þýði fyrir ríkissjóð. Það þýðir að af þeim 1500 milljónum sem hallinn nam 20. sept. renna tæpar 500 millj. til ríkissjóðs þannig að það eru um 1000 millj. sem virðist ætla að verða nettó betri rekstrarafkoma í ríkissjóði. Þetta er átak sem ríkisstj. hefur gert vegna þess að hún getur starfað og starfar vel saman. Þetta er samtaka fólk. En stjórnarandstöðunni, sem hefur haft miklu betri aðgang að því að koma sínum málum á framfæri, hefur tekist að telja fólkinu í landinu trú um það að allt sé upp í loft í ríkisstj. Ég er viss um að það er ástæðan fyrir því að hv. 5. þm. Austurl. andvarpar svona, vegna þess að hann hefur líklega trúað áróðri Alþb. (HG: Hver veit, hver veit?) Ja, ég giska á það. Því trúi ég, að áróður Alþb. hafi náð til þessa virðulega þm.

Ég get verið sammála hv. 3. þm. Reykv. um margt af því sem hann sagði um bankamálin. Ég held að það sé alveg rétt. Við skulum ekkert vera að tala um kartöflur í ánauð, vegna þess að það eru ekki kartöflur í ánauð, það er margt annað í ánauð. Peningarnir fara ekki út úr viðskiptabönkunum, ég er alveg sammála hv. þm. um það, einfaldlega vegna þess að það kerfi sem hefur verið á Seðlabankanum í langan tíma, löngu fyrir tíð þessarar stjórnar og er kannske enn þá, þó að það sé nú í breytingu vegna þess að það kerfi sem þar var komið á var of dýrt, það er bara vegna þess að þeir peningar sem viðskiptabankar fá úr Seðlabankanum — og allir viðskiptabankarnir stórskulda Seðlabankanum eins og allir vita — þeir eru dýrari en það sem viðskiptabankarnir borga fólkinu af sparifé. Og ef bankarnir lána út það sparifé sem þeir fá þá verða þeir að borga hærri vexti í Seðlabankanum en þeir fá fyrir að lána út peninga. Þetta er ljóst dæmi og verður að laga og bankamálaráðherra er að því.

Það er komið einu sinni enn að því að fjmrh. vondi átti að segja af sér vegna þess að erlendar skuldir voru yfir 60% af þjóðarframleiðslu. En með þann bata sem ég var að tala um áðan, rekstrarbata á ríkissjóði, þó að hann standi miklu betur en búist var við þá stendur hann bölvanlega, það vita allir. Það þarf miklu meira til að ná þeim jöfnuði þar og tekur kannske þrjú, fjögur, fimm ár ef vel tekst til. Hann „representerar“ þó, ef ég má segja það, upp undir 1.5 til 2% af þjóðarframleiðslu eins og hún var reiknuð þegar þessi orð voru sögð. Þannig að það sem er satt og rétt við fjárlagagerðina fyrir 10 árum, það gildir ekki í dag. Það sem var rétt og satt við fjárlagagerðina í fyrra, það er mikil breyting á því í dag. Og ég er alveg viss um að það sem við gerum í fjárlagagerðinni í ár og það sem við segjum við fjárlagagerðina í ár, það á ekki við næsta ár.

Virðulegi 3. þm. Reykv., skiptum nú svolítið um plötu. Tölum um það sem er í dag. Hér fullyrðir hann, eins og hann gerir svo oft, þessi ágæti þm., með slagorðum tekur hann heila stétt manna og dæmir hana bara sem vonda menn í einum hóp og segir orðrétt: „Verslunin lifir á að nýta sér neyð almennings.“ (JBH: Var ekki einhver að tala hér um kennara?) Hvað skyldu nú vera margir hér inni sem hafa þurft að leita til kaupmannsins, kannske litla kaupmannsins á horninu til þess að fá skrifað, fá út í reikning? (EG: Þeir eru margir núna.) Það er alveg rétt, þeir eru margir núna og eru þakklátir fyrir. En ætlið þið að segja mér að það sé hægt að taka alla kaupmannastéttina og segja: Þeir nýta sér neyð almennings. Bara í einum hóp. Svona slagorðaframleiðsla hefur engan slagkraft. Ég bendi á þetta bara til þess að leiða í ljós og undirstrika hvers konar málflutningur þetta er hjá annars ágætum ræðumanni og skýrum. Ég trúi því að hann hafi verið mjög skýrt og myndarlegt barn. En það er bara stórhættulegt ef menn halda áfram að vera efnilegir allan tímann, fram á fullorðinsaldur, svo að ég bið nú virðulegan 3. þm. Reykv. að gera okkur það ekki að halda svona áfram.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um að ráðh. beiti sér fyrir að hylma yfir sjóræningjastöðvar. Ég veit ekki hvað maðurinn á við. Voru einhverjar sjóræningjastöðvar hérna? Á maðurinn við það að Andrés Björnsson hafi setið með svart fyrir öðru auganu meðan hann lokaði Ríkisútvarpinu? Má ég biðja þingheim um að hlæja ekki að hv. 3. þm. Reykv., það er ekki til þess ætlast, en þetta voru hans orð. (SvG: Er þetta orðrétt eftir mér?)

Nei, ég frábið mér það alveg sem fjmrh. að þeir sem í samninganefnd ríkisins eru gagnvart BSRB hafi komið fram, eins og ég hef skrifað hér niður orðrétt, „með hroka gagnvart BSRB“. Það hefur ekki verið. Þeir hafa komið fram af mikilli lipurð, af mikilli þolinmæði og munu halda áfram að gera það. Og ég ítreka: Þeir munu sitja eins lengi og sætt er til þess að reyna að fá samninga við BSRB. Ég hef átt persónulegt samband við Kristján Thorlacius og forustumenn BSRB og þeir hafa reynst mér vel. Og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að óttast að það náist ekki samkomulag þegar áróður Alþb. hættir að virka og fólk fer að skilja að það er tilgangur í öllu sem þeir gera. „Ný ráð: brjóta upp grundvallarskipulag þjóðfélagsins. skipta landinu í öflugar valdaeiningar“. Þegar fólk fer að átta sig á því hvað er að ske þá verður hægt að semja, því þarna eru ágætir menn til þess að tala við. Annars blönduðust mikið saman lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög um kjaradeilur opinberra starfsmanna hjá hv. þm. svo að ég vissi aldrei hvar hann var að flækjast í kerfinu.

Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það sem fram kom hjá virðulegum 3. þm. Reykv. Ég held að það sé miklu betra að hann haldi áfram eins og kom fram á kvikmyndinni, þegar við hinir vorum við guðsþjónustu, að hann haldi áfram að dreifa sínum fregnmiðum um bæinn. Ég held að fólk eigi það skilið að fá að kynnast honum miklu betur, bara til þess að vita hvað býr bak við.

Mér sýnist hv. 3. þm. Reykn. ekki vera í salnum svo að ég læt þá vera að svara honum. Ég vil þó segja að gefnu tilefni orða hans þar sem hann hóf sína ræðu með því að tala um að það væri smán, og það væri gengið yfir íslensku þjóðina með þátttöku í útvarpssendingum, og talaði um að brjóta lög: Hver hefur brotið lög? Hv. 1. þm. Suðurl. vitnaði hér til stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin á að tryggja okkur öllum málfrelsi. Það á ekki bara að tryggja opinberum aðilum að þeir komi til þjóðarinnar í gegnum útvarpssendingar skilaboðum sem þeir vilja koma á framfæri. Þetta málfrelsi, sem talað er um, er ekki bara fyrir opinbera aðila og þá sem fá aðgang að hinum opinberu fjölmiðlum. Hér er um skert málfrelsi að ræða. Það mega bara sumir en ekki allir tala í gegnum hátalara. Það er verið að takmarka hvað margir mega hlusta á það sem maður segir. Það eru bara sumir sem mega nýta tæknina en ekki aðrir. Hver er þessi forréttindahópur? Er það gáfumannafélagið í þjóðfélaginu? Það er orð sem hv. 7. þm. Reykv. fann upp, að það sé bara gáfumannafélagið í þjóðfélaginu sem megi tala svona almennt til Íslendinga í gegnum útvarp. Ég veit það ekki, en ég tel að hér sé um slík mannréttindi að ræða að það gengur ekki lengur að takmarka málfrelsið á þennan hátt. Það bara hreinlega gengur ekki lengur. Og ég segi það sama og ég sagði á þessum umrædda fundi í gær að ég harma það að vera kominn yfir þann baráttualdur sem þetta unga fólk er á í dag, sem ætlar ekki að láta þetta þjóðfélag eða nokkurn annan kúga sig eða skammta sér eitt eða annað. Þetta er fólk sem er allt annað fólk, allt öðruvísi æska en ég þekkti þegar ég var ungur, allt öðruvísi æska. Þið sem hlæið þarna uppi á svölunum, þið þekkið ekki þá æsku sem þurfti að vinna fyrir brauðinu frá einum degi til annars og hafði engin námslán. Það er ekki nema eðlilegt að kennararnir séu óánægðir. Mér er sagt að þeir lækki í launum við að fara af námslánum. Þó eru námslánin allt of lág. Það virðist vera skoðun þeirra sem fá þau. Það er ekki mín skoðun.

Þeir sem ég hefði þurft að svara eru víst ekki hér í salnum svo að ég ætla að ljúka máli mínu á þeim varnaðarorðum, ekki bara til þeirra sem eru lýðræðissinnar hér innan þessara veggja, heldur til fólksins í landinu almennt, að átta sig á og lesa helst Þjóðviljann frá 31. ágúst s. 1., bls. 8.