12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

282. mál, hlustunarskilyrði hljóðvarps

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hlustunarskilyrði fyrir hljóðvarp austan Mýrdalssands í Vestur-Skaftafellssýslu eru þannig að langbylgjumóttaka er mikið til ónothæf á svæðinu vegna truflana frá erlendum stöðvum, en sending á hljóðvarpsrás 1 er frá FM-stöð á Háfelli. Hún næst víðast hvar með viðeigandi loftnetabúnaði, en styrkur er ekki alls staðar nægjanlegur fyrir ferðatæki.

Ríkisútvarpið hefur farið þess á leit við Póst- og símamálastofnun að hið fyrsta verði gerðar sviðsstyrksmælingar á svæðinu. Síðan verði metið út frá þeim hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að bæta hlustunarskilyrði. Þetta segir í bréfi frá útvarpsstjóra, Markúsi Erni Antonssyni, frá 11. febr. 1985 eða í gær.

Eftir að sú umsögn, sem þetta svar útvarpsstjóra er byggt á, barst útvarpinu var sent þaðan bréf til Pósts og síma þar sem þess er farið á leit við stofnunina að sviðsstyrksrannsóknum á þessu svæði verði hraðað svo sem verða má. Ætlunin er að þetta verði nákvæmar rannsóknir á sviðsstyrk einstakra senda. Þegar niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir ætti að vera ljóst hvað mörgum sendum þarf að bæta við dreifikerfið svo viðunandi hlustunarskilyrði náist. Ekki á að verða nein töf á því að sendar verði 'settir upp þegar niðurstöður rannsóknanna liggja fyrir þar sem von er á sendum hingað til lands sem nota mætti á þessu svæði. Þessir sendar koma til landsins næsta sumar og ákvörðun um nýtingu þeirra mun tekin í beinu framhaldi af niðurstöðu rannsóknarinnar.

Núna er verið að huga að dreifikerfi fyrir Rás 2 á þessu svæði. Þegar sendar fyrir Rás 2 verða settir upp mun loftnetum verða breytt þannig að styrkur Rásar 1 mun aukast verulega. Jafnframt mun ætlunin vera sú, eins og áður sagði, að setja upp nýja senda bæði fyrir Rás 1 og 2 þannig að með auknum styrk á útsendingum ætti að draga verulega úr senditruflunum einstakra útvarpsstöðva, en eins og fram kemur í bréfi útvarpsstjóra er langbylgjumóttakan mikið til ónothæf á þessu svæði vegna truflana frá erlendum stöðvum.

Ástæðurnar fyrir því að ekkert hefur verið aðhafst til að bæta hlustunarskilyrði á þessu svæði eru einkum þær að radíódeild Pósts og síma hafði ekki talið að ástandið þarna væri svo slæmt, þ.e. það var talið viðunandi eða a.m.k. ekki neitt verra en gerist annars staðar á landinu. — Loftnetsbúnaði húsa úti um landið er víða ábótavant og margir mundu fá betri móttöku ef þeir hygðu að loftnetum á húsum sínum, sagði starfsmaður Ríkisútvarpsins.

Ég vonast til að með þessu sé fsp. hv. þm. svarað að nokkru. Því miður liggja ekki rannsóknir fyrir þannig að hægt sé að svara þessu nægilega skýrt. Það verður ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Ég vona að það líði ekki á löngu. En afstaða til þessa máls er jákvæð.

Ég bið velvirðingar á því, herra forseti, ef umr. um fsp. dragast, að ég verð að víkja úr húsinu á næstu mínútum. Ég þarf að vera annars staðar kl. 4 vegna mokstursstarfa heilbrrh., ef ég má svo segja, vegna skóflustungu við K-byggingu á Landspítalanum þar sem ég ætla að vera viðstödd, og vegna þess að ég þarf rétt á eftir að opna afmælismót Skáksambands Íslands.