12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er rætt um kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins, sem nú er fyrir Kjaradómi, og hefur hv. þm. Gunnar G. Schram beint ákveðnum spurningum til menntmrh. varðandi málið og hæstv. ráðh. svarað. Hvað varðar framlengingu á gildistöku uppsagna framhaldsskólakennara, þá er, eins og fram hefur komið í fréttum, lögfræðilegt álitamál hvort hæstv. menntmrh. hafði þann framlengingarrétt í höndum sér er hún framlengdi gildistöku uppsagnanna. Úrskurður í því máli verður vitaskuld ekki kveðinn upp hér á Alþingi, en hæstv. menntmrh. hefur með þessum aðferðum sínum lýst vilja sínum í þessu máli og mun það koma á daginn hvern árangur hann ber í samningaviðræðum við kennara.

En þessi kjaradella snertir ekki síður hæstv. fjmrh., sem er viðsemjandi viðkomandi aðila fyrir hönd ríkissjóðs, og langar mig til að taka hér upp eitt atriði þessa máls og beina í því efni einni spurningu til hæstv. fjmrh. sem hann hefur góðfúslega fallist á að svara við þessa umr.

Í grg. varnaraðila, þ.e. fjmrh., í þessu máli, sem lögð var fyrir Kjaradóm 4. febr. s.l., er m.a. að finna eftirfarandi rök fyrir því að laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eins og framhaldsskólakennara skuli vera lægri en háskólamenntaðra manna á hinum almenna vinnumarkaði. Ég les hér upp úr grg., með leyfi forseta:

„Sé reiknað út hver meðallaunin hjá háskólamenntuðum starfsmönnum á almennum markaði hefðu orðið með þeirri hlutfallslegu skiptingu milli kynjanna sem er hjá ríkinu kemur í ljós að þau mundu lækka úr 50 þús. 322 kr. í 47 256 kr. sem er rétt um 6% lækkun.“

M.ö.o. er réttlætanlegt að mati málaflutningsmanns hæstv. fjmrh. að laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna séu allt að 6% lægri en annarra háskólamenntaðra manna vegna þess að konur eru fjölmennari í þeim hópi en á hinum almenna vinnumarkaði. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann taki undir þessi rök fulltrúa síns, Indriða H. Þorlákssonar, hvort hæstv. ráðh. finnist að laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eigi að vera lægri en annarra háskólamenntaðra manna vegna þess að háskólamenntaðar konur eru fjölmennari hjá ríkinu en annars staðar, hvort það sé stefna stjórnvalda að viðhalda kynbundnu launamisrétti með þessum hætti og það sem meira er: nota misréttið sjálft sem rök til þess að viðhalda því.