12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er margt sem hæstv. ríkisstj. hefur sér til frægðar unnið á þessum vetri og þau eru mörg alvörumálin sem að steðja. Það sem nú blasir við í sambandi við skólastarf í landinu er kannske eitt af því stærsta sem við hefur borið og það er alveg ófyrirséð hvort bætt verður úr því tjóni sem þegar hefur verið unnið gagnvart skólum í landinu og skólastarfi vegna aðgerðarleysis núv. ríkisstj.

Sú bjartsýni sem einkenndi störf í skólunum fyrir nokkrum árum hefur eðlilega farið dvínandi í ljósi þeirra sérkennilegu viðhorfa sem komið hafa frá ráðherrum þessarar ríkisstj. og skýrast komu fram hjá hæstv. fjmrh. á síðasta hausti og landsfleyg urðu. Nú segir hæstv. menntmrh. að það sé mikill misskilningur að kennarar séu í stríði við menntmrn. Það væri betur að rétt væri. Og ef það er svo, þá spyr ég hæstv. menntmrh.: Við hvern eiga kennarar í stríði? Hvaða aðilar eru það í ríkisstj. sem kennarar eiga í stríði við? Hverjir eru það sem ekki vilja taka á málum kennara svo sem lög og reglur standa til um, um leiðréttingu á kjörum þeirra í ljósi kjara á almennum vinnumarkaði? Hefur mál þetta ekki verið rætt í ríkisstj.? Ég óska svara við því. Hefur menntmrh. ekki rætt þetta mál í ríkisstj.? Hverjir eru það sem standa gegn því að eðlileg leiðrétting fáist? Hver er afstaða Framsfl. til þessa máls? Það væri ástæða til þess að einhverjir ráðh. hans tækju hér líka til máls við þessa umr.

Ég vek athygli á því að það er þrjú atriði sem hæstv. menntmrh. telur að hefðu getað orðið til að liðka fyrir lausn þessarar deilu. Það er endurmat á störfum kennara, löggilding á starfsheiti og sérkjaraviðræður. En hvar er þeim málum komið? Þar er ekkert fast í hendi. Þar hefur orðið sá dráttur á, sem ekki skyldi verið hafa, að niðurstaða fengist. Kennarar hafa hér ekkert í hendi frá rn. annað en nefndir. Það hefur ekkert komið út úr þessu starfi sem kennarar hafi fast í hendi og þess vegna er hörmulegt að vita hvernig hæstv. menntmrh. og ríkisstj. í heild hefur haldið á þessu máli. Þetta er ekki einkamál kennara. En auðvitað er þetta mál kennarastéttarinnar sem slíkrar. En þetta er mál landsmanna allra, sem hér er við að fást, mál sem varðar undirstöðu í uppeldi og lífskjörum þjóðarinnar, því að á starfi skólanna hvílir það hvernig mál þróast í þessu þjóðfélagi og hvort unnt reynist að beita hér þeirri þekkingu og heilbrigðu uppeldi til að sækja fram á við eins og þörf er á.