12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hafði gert hæstv. forseta og raunar þingheimi grein fyrir því að ég verð að vera viðstödd og opna alþjóðlegan viðburð suður á Hótel Loftleiðum nú kl. fimm og verð að koma við í rn. áður. Það skilst væntanlega að ég verð að vera mætt þar í tæka tíð. Þess vegna vil ég leyfa mér að óska þess að umr. verði frestað. Ég færist síður en svo undan því að ræða þessi mál en ég óska þess að umr. fari ekki fram að mér fjarstaddri fyrst ekki var unnt að taka þetta mál fyrir fyrr á fundinum.

Ég vil einungis svara því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði um. Vitanlega hafa þessi mál verið rædd ítarlega í ríkisstj. og það eru allir sammála um að það þurfi að bæ:a kjör kennara, um það er ekki deilt. Niðurstaða er nú fyrir dómi og það er ekki háttur siðaðra stjórnvalda að taka fram fyrir hendur á dómi. Það mál er fyrir dómi nú og eftir lögum sem Alþingi hefur sjálft sett. Þessi dómur hefur að nokkru á sér gerðardómseðli því að málflytjendur beggja aðila flytja þar mál þeirra. Þessi dómur fellur 22. febr. eins og hv. þm. er kunnugt. Þetta liggur svona.

Ég vil andmæla því af öllu hjarta, sem hv. þm. sagði, að það hefði verið einhver seinagangur á störfum nefnda að málum kennara í rn. Því andmæli ég. Og ég veit að fulltrúi kennara, sem þeir sjálfir hafa tilnefnt í þessari nefnd, munu bera um það að þar hefur verið vel unnið. Ég hlýt að lýsa furðu og vanþóknun á ummælum sem þessum sem eru greinilega ætluð til þess að reka fleyg í samstarf þeirra stjórnvalda sem fara með menntamál og kennaranna sjálfra. Það er ekki gott verk og ekki fallið til þess að bæta aðstöðu skólanna í landinu. Ég vildi aðeins bera af mér sakir því að ég hafði verið borin þungum sökum.

Ég leyfi mér að óska þess, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og henni haldið áfram við fyrsta tækifæri — og tek náttúrlega fram að ég óska fjarvistarleyfis af þeim ástæðum sem ég hef þegar skýrt.