12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

254. mál, nöfn fyrirtækja

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm., sem hér liggur fyrir til umr., um nöfn fyrirtækja svara ég að sjálfsögðu neitandi. Ég vil þó bæta við að skv. lagabreytingu sem gerð var á' árinu 1982 á firmalögum nr. 42/1903 segir að hver sá er reki verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað skuli hlíta ákvæðum laganna um nafn það er hlutaðeigandi notar við atvinnu og við undirskrift fyrir hana, enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þessi nöfn sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara. Þá segir að ágreiningi, sem rísa kann út af nafninu, megi skjóta til örnefnanefndar. Skrásetjarar skv. þessari lagagrein eru sýslumenn, bæjarfógetar og borgarfógetinn í Reykjavík, hver í sínu lögsagnarumdæmi.

Í tilefni af fsp. aflaði viðskrn. upplýsinga um framkvæmd lagabókastafsins frá borgarfógetaembættinu í Reykjavík. Rn. var þar tjáð að reynt væri eftir fremsta megni að sporna gegn skráningu nafna á fyrirtækjum og atvinnustarfsemi sem ekki samrýmist íslensku málkerfi. Kemur oft fyrir að neitað er um skráningu nafns eða leitað til örefnanefndar. Engu að síður er rn. og embættinu ljóst að færst hefur í vöxt að fyrirtæki í borginni auglýsi sig undir erlendu nafni. Skv. þeim upplýsingum sem rn. hefur aflað getur í þeim tilvikum bæði verið um nafn að ræða sem hvergi er skráð eða skráð sem vörumerki. Í vörumerkjalögunum er ekki gert ráð fyrir því að orð eða orðasambönd, sem skráð eru sem vörumerki, þurfi að samrýmast íslensku málkerfi, en ég vek athygli á því að vörumerkjalöggjöfin heyrir undir iðnrn. Leiðir það af eðli málsins þar sem um er að ræða alþjóðleg vörumerki.

Til að herða á framkvæmdinni hefur rn. ítrekað fyrirmæli laganna til skráningarmanna um land allt að herða á framkvæmd umræddrar lagagreinar og gæta þess sérstaklega að í þeirra umdæmi séu ekki rekin fyrirtæki er auglýsi sig undir óskráðum heitum.

Hinu má þó ekki gleyma að boð eða bönn í lögum verða ekki til þess ein sér að varðveita íslenska tungu. Í heimi þar sem samskipti þjóða aukast með ári hverju og erlend menningarsamskipti fara sífellt vaxandi verður þjóðin sjálf að skynja þau verðmæti sem tungan hefur að geyma. Slík vakning mun fyrst og fremst gerast með aukinni fræðslu í skólum og fjölmiðlum. Fjölmiðlarnir hafa hér sérstaklega veigamiklu hlutverki að gegna sem þeir að mínu mati mættu vissulega rækja betur.

Ég sagði í upphafi, herra forseti, að þeirri fsp. sem hér liggur fyrir um nöfn fyrirtækja svaraði ég að sjálfsögðu neitandi.