12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Til viðbótar við þær fsp. sem hv. 10. landsk. þm. hefur borið fram á þskj. 430 hóf hún mál sitt með því að segja að auglýsingar þær sem hún hér ræðir um hafi vakið mikla athygli og ég fagna því. Þá hafa þær náð tilgangi sínum. Það er tilgangurinn með auglýsingum.

Ég tel rétt að það sé undirstrikað að við lifum í heimi auglýsinga, kannske auglýsingaskrums eins og hv. þm. gat um, en hún hefði átt að fara svolítið lengra aftur í tímann vegna þess að það var af brýnni nauðsyn og í samkeppni við bankana almennt sem ríkissjóður taldi sig þurfa að taka þátt í þessu auglýsingakapphlaupi. Þessi nýstárlega starfsemi, eins og hún gat um og það er sannarlega nýstárleg starfsemi, er fundin upp og framkvæmd af ungu fólki með framtíðarsýn sem starfar í fjmrn. og er allt háskólaborgarar.

En sem svar við fsp. hv. 10. landsk. þm. um auglýsingakostnað vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs er þetta að segja:

Á árinu 1985 eru spariskírteini innleysanleg fyrir um 3080 millj. kr. miðað við verðlag 31. des. 1984. Í janúar til apríl eru á gjalddaga um 1880 millj. kr., en um 1200 millj. kr. í sept. og okt. n. k. Í fjárlögum ársins 1985 er gert ráð fyrir að spariskírteini verði innleyst fyrir 650 millj. kr. og á móti selji ríkissjóður ný spariskírteini fyrir 400 millj. kr. Þá hefur ekki verið tekið tillit til þess sem setning lánsfjárlaga kann að hafa í för með sér. Það er því greinilega mikið í húfi fyrir ríkissjóð að vel takist til við kynningu á þeim kostum sem hann býður til að halda þeim hlut í lánsfjármarkaði sem fjárlög gera ráð fyrir.

Eins og kunnugt er voru innleysanleg spariskírteini á gjalddaga í september s.l. um 1732 millj. kr. Af þeim innleystu sparisjóðseigendur skírteini fyrir um 862 millj. kr., en keyptu nú skírteini fyrir aðeins 262 millj. kr. Þessi mikla septemberinnlausn átti sér stað þrátt fyrir þá staðreynd að ríkissjóður bauð góð kjör á nýjum skírteinum. Því var m.a. um kennt að illa hefði tekist til við kynningu á þeim skírteinum sem ríkissjóður hafði til sölu. Var því ákveðið að leggja áherslu á kynningu spariskírteina við útgáfu 1. flokks 1985. Auglýsingastofa Gísla B. Björnssonar var fengin til að hanna auglýsingar og gera áætlun um birtingar. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þessa auglýsingaherferð, sem standa mun fram í apríl, verði um 5 millj. kr. sem er um 0.017% af þeim 2830 millj. kr. sem í húfi eru.

Fyrstu merki um árangur eru núna að koma í ljós. Í janúar innleystu eigendur spariskírteina skírteini fyrir um 290 millj. kr, og ný spariskírteini voru seld fyrir 209 millj. kr. sem eru um 72% af janúarinnlausn. Í september s.l. var sama hlutfall aðeins um 30%. Þess má geta að í janúar s.l. voru um 855 millj. kr. á gjalddaga. Þar af báru 450 millj. kr. vexti á bilinu 3.7% til 4.3% sem þykja það lágir vextir í dag að gera má ráð fyrir innlausn á meiri hluta þeirrar upphæðar.

Í febrúar voru laun skv. 15. launaflokki (1. þrepi) 18 240 kr. Því til viðbótar má bæta um 40% sem að meðaltali er greitt vegna annarra launa, þar með talin yfirvinna. Þar ofan á bætast um 14.6% vegna launatengdra gjalda. Má segja að áætlaður auglýsingakostnaður jafngildi um 14 ársverkum manna í 15. launaflokki, 1. þrepi. Sé það lánsfé, sem verið er að halda í, sett á sömu mælistiku jafngildir það um 8059 ársverkum starfsmanna í 15. launaflokki.