12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég get ekki svarað þeirri spurningu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hvort hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa farið nákvæmlega sömu leið. Það er mér bara ekki kunnugt um, ég veit það ekki, og ég sé ekki hvað mín formennska í menningarmálanefnd Norðurlandaráðs kemur þessu máli við.

Mér finnst furðulegt að heyra hér, anno 1985, þau afturhaldssjónarmið sem komu fram hjá síðasta ræðumanni, þ.e. að auglýsingar séu alfarið af hinu illa, auglýsingar séu vondar. Hvað vill hv. þm. gera? Vill hún banna auglýsingar til að hafa vit fyrir fólki? Er það hún sem á að ráða? Hvaða sjónarmið eru það sem verið er að flytja okkur hér? Hvað vill hv. þm.? Vill hún banna auglýsingar í eitt skipti fyrir öll? Við eigum heimtingu á svari.

Auðvitað eru auglýsingar misjafnar. Auglýsingar eru einn þáttur þess þjóðfélags sem við lifum í í dag, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég man að hv. þm. átti ásamt fleirum aðild að því að flytja till. á vettvangi Norðurlandaráðs um að banna auglýsingar í ljósvakamiðlum. Sú till. fékk að deyja drottni sínum vegna þess að það voru allir sammála um að það væri ekkert hægt að gera með hana, hún var óframkvæmanleg. Við verðum að horfast í augu við þann heim sem við lifum í. Sumir geta lifað í einhverjum afturhaldsórum og draumum, ef þeir svo kjósa. En það veldur mér mikilli furðu að heyra þessum sjónarmiðum haldið fram anno 1985. Sem sagt: við skulum banna auglýsingar. Það getur vel verið að þetta sé ein leið hv. þm. til að stuðla að því að Þjóðviljinn hætti að koma úf, það getur vel verið.