13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

198. mál, útvarpslög

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Þar sem ég vil svara þeim orðum sem hér féllu á síðasta fundi Ed. ætlaði ég að biðja forseta um að kalla hv. þm. Eið Guðnason í salinn en hann gekk í salinn rétt í þessu og gerist þess því ekki þörf.

Ég vil svara hér þeim makalausu ræðum sem hv. þm. Eiður Guðnason og Stefán Benediktsson fluttu í tilefni þessa máls á síðasta deildarfundi. Ég segi: í tilefni málsins, því í hvorugri ræðunni var um málefnalega umfjöllun að ræða og sem slíkar segja þessar ræður vitaskuld meira um þessa hv. þm. sjálfa en það mál sem hér er á dagskrá. Ég mun því ekki verða langorð.

Hv. þm. Eiður Guðnason notaði lýsingarorðið vitlaust með jöfnu millibili í ræðu sinni. (EG: Það var ritstjóri DV sem notaði það.) Þm. vill kannske lesa upphaf ræðu sinnar þar sem orðið kemur beint frá hv. þm. sjálfum. Var þetta lýsingarorð ein meginuppistaðan í gagnrýni þm. á málið. Við svona djúphugsaðri gagnrýni er vitaskuld aðeins eitt svar og það er að senda lýsingarorðið aftur heim til föðurhúsanna þar sem það á heima og sómir sér vel.

Síðan bar hv. þm. Eiður Guðnason það upp á flm. frv. að frv. hafi verið samið í Ríkisútvarpinu og flm. göbbuð til að flytja það. Í þessu efni tilnefndi hv. þm. sér til fulltingis Jónas Kristjánsson ritstjóra Dagblaðsins/Vísis.

Eins og fram kom í kvöldfréttum hljóðvarpsins í gærkvöld hefur Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins vísað þessum þvættingi á bug fyrir sitt leyti. Vil ég gera slíkt hið sama hér og nú fyrir mitt leyti og lýsi þessar ásakanir uppspuna einn og hrein ósannindi, þvætting sem vart er samboðinn virðingu hæstv. Alþingis þótt hann kunni að vera samboðinn virðingu Dagblaðsins/Vísis. Hitt er svo aftur annað mál að margur maðurinn hló dátt þegar frá því var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins s.l. mánudag að hv. þm. Eiður Guðnason hefði haldið því fram í sama orðinu að frv. væri samið af starfsmönnum Ríkisútvarpsins og sýndi jafnframt alveg fádæma vanþekkingu á starfsemi þeirrar stofnunar. Þótti þá fleirum en mér að ræða þm. hefði verið nokkuð vanhugsuð.

Sama er að segja um þá afturhaldssemi sem hv. þm. taldi frv. bera vott um. Ef það er afturhaldssemi að vilja tryggja rétt landsmanna allra til þeirrar fjölmiðlunar sem fram fer í hljóðvarpi og sjónvarpi og gjörbreyta í leiðinni útvarpsrekstri hér á landi, þá vil ég leyfa mér að efast um að hv. þm. skilji þetta orð á sama hátt og flestir aðrir Íslendingar. Slík viðleitni er að mínu viti ekki afturhald heldur viðleitni til að halda jöfnuði samtímis því sem sótt er fram til nýrra tíma með róttækari breytingum á skipan útvarpsmála en hingað til hafa verið orðaðar á hv. Alþingi. Að vísu virðist hv. þm. hafa flogið í hug að um einhverjar breytingar á skipan útvarpsmála væri að ræða í þessu frv. því á einum stað í ræðu sinni talar hann um að frv. boði stjórnleysi. En stjórnleysi fer ekki saman með afturhaldi eins og allir vita nema e.t.v. hv. þm. Það væri að æra óstöðugan og stöðugan reyndar líka að elta ólar við öll þau endemi sem er að finna í ræðu hv. þm. Skal ég því fara sparlega með orð mín þótt af nógu sé að taka. Tvö atriði enn vil ég þó nefna.

Hv. þm. spyr hvers vegna Kvennalistinn hafi haft áhuga á því að skipa fulltrúa sína í núverandi útvarpsráð fyrst það sé svona vont. Þeirri spurningu er fljótsvarað. Annars vegar var það til að kynnast af eigin raun hvernig núverandi útvarpsráð starfar svo gulltryggt sé að ekki sé farið með fleipur um starfsemi þess apparats og hver skuli vera framtíð þess. Hins vegar til þess að leggja okkar af mörkum í því starfi sem fram fer í útvarpsráði á meðan það er skipað eins og nú er, þátttaka sem helgast af þeim veruleika sem nú er í útvarpsmálum. En það er veruleiki sem við viljum breyta, eins og fram kemur í því frv. sem við erum hér að ræða um.

Hitt atriðið, sem ég vil nefna, er að hv. þm. staðhæfir að fjármálahlið frv. sé í svartamyrkri. Þessu vísa ég á bug og bendi hv. þm. á að í frv. er gert ráð fyrir að tekjustofnar Ríkisútvarpsins eflist um nær þriðjung auk þess sem bent er á að það er vitaskuld í höndum Alþingis hverju sinni að ákveða aðrar tekjur Ríkisútvarpsins og þá um leið hversu hröð sú uppbygging útvarpsins, sem hér er lögð til, verður. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði í framsöguræðu minni á síðasta fundi deildarinnar að vandalaust ætti að vera að koma upp þriðju rásinni, opnu hljóðvarpsrásinni, mjög fljótlega þar sem stofnkostnaður við hana mun vera svipaður og vegna Rásar 2, en hann er áætlaður um 60 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Það mun vera um helmingur þess fjár sem frv. gerir ráð fyrir að komi til viðbótar í sjóði Ríkisútvarpsins árlega. Þannig mætti áfram telja. En það sér vitaskuld hver heilvita maður að ekki er hægt að gera kostnaðaráætlanir langt fram í tímann um uppbyggingu sem stjórnast annars vegar af vilja Alþingis og hins vegar af eftirspurn og kröfum landsmanna og beinni kostnaðarþátttöku þeirra, t.d. hvað varðar staðbundnu stöðvarnar. Uppbyggingu sem aukin heldur mun taka mið af sífellt nýrri tækni á þessu sviði og því breytilegum kostnaði. Slíkar áætlanir eru til þess eins að vera úr gildi fallnar fljótlega eftir að þær eru gerðar, ef það er þá hægt að gera þær, og því marklausar. Hv. þm. telur það vera skort á hagsýni að láta ekki gera marklausar áætlanir, og sannast þar eina ferðina enn hversu mótsagnakenndar hugleiðingar hv. þm. eru um þau mál sem hér eru til umr. Eyði ég ekki fleiri orðum þar um.

Hv. þm. Stefán Benediktsson er því miður með fjarvistarleyfi á þessum fundi. En hann bað mig í sinni ræðu um að útskýra fyrir sér hvað átt væri við með íslenskri menningu og fann þessu frv. það helst til foráttu að með því væri verið að setja lög um hvað væri menning og hvað ekki. Í slíku athæfi ætlaði hv. þm. sér ekki að taka þátt þótt hann hafi sagt síðar í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Ég held að þegar fjöldinn er farinn að ákveða hvað er menning, þá fari hinum skapandi einstaklingi að verða ærið mikil hætta búin.“

Það er nefnilega það. Ég læt þingheim um að dæma hversu rökfastur þessi málflutningur er innbyrðis. En ég hlýt að gera því skóna að hv. þm. hafi alls ekki heyrt þann hluta framsögu minnar þar sem ég skilgreindi hvað væri átt við með orðinu menning í þessu frv. Ég skal endurtaka það sem ég sagði:

„Með íslenskri menningu er átt við íslenskt þjóðlíf.

Það er átt við allar þær athafnir, hugmyndir og kunnáttu, sem marka mannlíf í landinu. Það er jafnt átt við tungu þjóðarinnar sem og verkkunnáttu á öllum sviðum. Það er jafnt átt við fagrar listir sem og almenna hluti eins og borðsiði.“

Í þessu frv. er ekkert gildismat lagt á menningu, hvað sé menning og hvað ekki. Það er einfaldlega verið að tala um íslenskt þjóðlíf í sinni víðustu merkingu og lagt til að því verði viðhaldið sem ég fæ ekki séð að sé nein ofstjórnarsynd. Hins vegar lagði ég ríka áherslu á það í framsögu minni hversu nauðsynlegt er að halda áfram lifandi sköpun, sífelldri endurnýjun þessa þjóðlífs, að taka við og nýta nýjar hugmyndir á öllum tímum og finna þeim sem breiðastan farveg. Og hvað hvort tveggja varðar, bæði viðhald og endurnýjun íslenskrar menningar að svo miklu leyti sem hljóðvarp og sjónvarp hafa hlutverki að gegna í því efni, tel ég að útvarp allra sem þessari menningarheild tilheyra, þ.e. öðru nafni útvarp allra landsmanna í nýrri og breyttri mynd, sé best í stakk búið til að gegna þessu hlutverki. Það er mín einlæg skoðun þegar miðað er við hvaða aðra valkosti við höfum í þessum efnum.

Hv. þm. Stefán Benediktsson virðist hins vegar ekki hafa áttað sig á að þetta frv. brýtur að mörgu leyti í bága við viðteknar hugmyndir um stjórnun og útvarpsrekstur, þótt ræða hv. þm. og útvarpsráðsmanns Eiðs Guðnasonar hefði e.t.v. átt að nægja til að opna augu hans fyrir því. Ég er nefnilega hjartanlega sammála hv. þm. Stefáni Benediktssyni í því að kjarkur til að hugsa sjálfstætt, þótt í bága sé við ríkjandi viðhorf, er með því dýrmætasta sem hverjum manni er gefið. Það sem við Kvennalistakonur erum að reyna að gera með þessu frv. er, að á því miðlunarsviði sem frv. tekur til gefist öllum tækifæri til að koma fram með sínar hugmyndir, í hvaða formi sem þær eru, að skapaður sé vettvangur til frjórrar þjóðlífssköpunar, ef ég má svo að orði komast, þar sem hver og einn er ábyrgur fyrir framlagi sínu og geti, ef hugur stendur til, verið gefandi en ekki aðeins þiggjandi. Það er ekki bara spurning um hversu margar rásir viðkomandi getur haft í viðtækinu sínu. Val hans hefur ekkert aukist ef hann hefur sama efni á öllum rásunum. Spurningin snýst um að á rásunum hans sé sem fjölbreytilegast efni og ekki síður að hann hafi möguleika á að gefa sjálfur, að hann hafi greiðari aðgang en nú er til að koma sínum hugmyndum, uppgötvunum, afurðum og sjálfstæðum skoðunum á framfæri.

Í umr. um útvarpsmál tala menn iðulega um landsmenn sem þiggjendur, þiggjendur einhvers sem matreitt er ofan í þá. Þetta frv. tekur mið af mönnum sem gefendum ekki síður en þiggjendum. Ríkisútvarpið er opnað upp á gátt, almenningsréttur á þessari fjölmiðlun er tryggður og miðstýring og bein pólitísk afskipti af stofnuninni eru afnumin. Ef menn vilja eitthvað meira og eru tilbúnir til að ganga lengra í þá átt, sem þetta frv. markar, þá er ég fyrir mitt leyti tilbúin til að hlusta á allar slíkar hugmyndir og afskrifa ekkert að óathuguðu máli, eins og því miður virðist vera siður ýmissa hv. þm. hér á hv. Alþingi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Stefán Benediktsson beindi til mín einni spurningu sem varðar tæknilega útfærslu þessa frv. og henni vil ég að lokum svara þótt hv. þm. verði að vísu að lesa svarið í þingtíðindum. Hann spurði: Hver á að taka úrtak þess fólks sem skipa á notendaráð Ríkisútvarpsins? — Eðlilegt er að Reiknistofnun Háskólans sjái um þá framkvæmd og má víst telja að þeir mætu menn sem þar starfa séu fullfærir um það.

Ég hef þessi orð mín ekki fleiri í bili en ef hv. þm. hafa fleiri spurningar varðandi framkvæmd þessa frv., þá er ég fús til að svara þeim.