13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

285. mál, verslun ríkisins með áfengi

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst flm. þessa frv. vera helst til lítillátur að gefa í skyn að hér sé mjög lítið og ómerkilegt mál á ferðinni. Mér finnst það nefnilega ekki. Þetta mál er lýsandi fyrir það að við höfum í okkar þjóðlífi ýmiss konar afturhaldsfyrirkomulag og þessi ábending, sem þarna kemur fram, er vissulega þess virði að veki nokkra athygli. Satt að segja öfunda ég flm. af því að hafa fundið út að þarna væri rétt að gera á bragarbót. Þetta yrði kannske til þess að ég og fleiri færu að leita að einhverju öðru svipuðu því að af nógu er áreiðanlega að taka og erfiðleikar okkar á undangengnum árum stafa nefnilega mjög mikið af ofstjórn og ríkisíhlutun. Það er kannske svo að hæstv. fjmrh. missi einhvern spón úr aski sínum þegar einkasölu á eldspýtunum er lokið af ríkisins hálfu, en ég veit að hann sér ekkert eftir þeim aurum. Hann er frjálslyndur maður eins og allir vita. En við skulum bara leita víðar.

Ég held að eldspýtur séu dýrari á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar og þar að auki stundum alveg stórhættulegar. Ég hef af því slæma lífsreynslu. Varð nokkurt grín út af því fyrir áratug eða svo að þá voru hér tékkneskar eldspýtur, að ég held, og ég fékk brennisteininn upp í augað þrjú þúsund gráðu heitan. Það var rétt við augasteininn. Það var hægt að ná honum út, en annars væri ég líklega blindur á öðru auganu. En þetta er nú í gamni sagt.

Auðvitað eiga allir menn að geta selt eldspýtur rétt eins og kveikjara og ég er ekki í nokkrum vafa um að eldspýtur munu lækka stórlega í verði þegar þar ríkir frjáls samkeppni. Það er m.a. s. alveg furðulegt hvað hægt er að smyrja á þessa vöru. Ég veit ekki hvað verðið er orðið núna. Ætli það sé ekki að nálgast tvær krónur stokkurinn, tvö hundruð krónur gamlar, eða eitthvað svoleiðis? Auðvitað mundi verðið stórlækka. Víða erlendis eru eldspýtur hreinlega gefnar á öllum veitingahúsum og hvar sem er og þær eru þá ódýrari í framleiðslu en eldspýtur í stokkum og miklu betri oft og tíðum.

Við skulum ekki gera lítið úr þessu máli. Við skulum reyna að drífa það í gegnum deildina í einum logandi hvelli og vera sammála um að uppræta þessa vitleysu, en fyrst og síðast að reyna að finna eitthvað annað og margt fleira og kannske í eitthvað stærri stíl en þetta. Og ég ætla svo sannarlega að leggja höfuðið í bleyti og reyna að finna eitthvað fleira sem mætti koma frá ríkisvaldinu yfir til borgaranna til að auka lýðræði og bæta hag þessarar þjóðar.