13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

285. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki orðið fyrir því óláni eins og hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Norðurl. v., að fá það, sem hér er lagt til að leggja niður að selt verði á vegum ríkisins, framan í mig eða í föt, hvorki eldspýtur né vindlingapappír, en ég vil taka undir það sem hann sagði um þetta frv. Frv. er ekki stórt í sér þegar hugsað er um það sem um er fjallað, en prinsipið sem hann talaði um og liggur bak við er miklu stærra og ég tek heils hugar undir það og legg til að þetta frv. verði samþykkt þrátt fyrir að fyrir liggur í stjórnarflokkunum frv. frá mér sem gerir ráð fyrir því sama. Það frv. er víðtækara að því leyti til að þar er talað um að leggja niður einokun á dreifingu á tóbaki líka. Tóbaksgjald verði tekið í tolli alfarið, en umboðsmenn sjái um dreifinguna þannig að ríkið sleppi við þann kostnað. En þrátt fyrir það frv. vil ég ekki missa nokkurn tíma þegar um er að ræða að aflétta einokun ríkisins eða einokun almennt og legg því til að þetta frv. verði samþykkt.