13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að hér upphefjist allsherjarumræður um afurðasölumál landbúnaðarins almennt enda þótt þessi till. um rétt skil afurðasölufyrirtækja sé til umr.

Mér er ekki ljóst í raun hvernig það mætti gerast að dómtaka svo þau mál með þeim hætti sem hér er um að ræða. Í ályktuninni stendur svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að afurðasölu- og verslunarfyrirtæki, sem ekki hafa á undanförnum árum staðið bændum full skil á grundvallarverði afurða, geri það nú þegar, ásamt vöxtum og verðbótum.“

Mér er ekki ljóst með hvaða hætti er unnt að höfða mál varðandi verðbætur í þessu efni. Það kann að vera glámskyggni. Ég er ekki að fullyrða að það sé ekki hægt, en ég kem sjálfur ekki auga á það.

Hér er gert ráð fyrir að veitt verði gjafsókn. Einnig er talað um rétt verð. Spurningin sem vaknar er þessi: Hvað er rétt verð? Er endanlegt lögformlegt verð það sem sexmannanefnd ákveður? Út af fyrir sig má segja að það sé gott að fá úr því skorið. Hitt vita hv. alþm. að afurðasölufyrirtæki með landbúnaðarvörur stunda í raun umboðssölu. Skv. því kaupa þau ekki vöruna. Þau eru umboðssöluaðilar fyrir bændur. Það má deila um hvort þetta er rétt uppbygging á sölukerfi landbúnaðarins. Hins vegar hef ég grun um, miðað við stöðu mála í dag, að bændur fyrirhitti sig sjálfa sem þolendur í þessu máli þegar dómstólameðferð yrði á enda runnin.

Ég er ekki að færast undan því að réttarstaða bænda og vinnsluaðila, afurðasöluaðila verði grandskoðuð og úr verði skorið með einum eða öðrum hætti. Ég bið hann að hafa ekki þau viðhorf til míns máls. Ég vil fyrst og fremst vara við því að rasa um ráð fram. En undanfarin ár hefur orðið töluvert mikill samdráttur í hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu. Afurðasölufyrirtækjunum hefur ekki, a.m.k. sumum hverjum, kannske flestum, tekist að hagræða í sínum rekstri í takt við þann samdrátt sem ég gat um. Ég geri ráð fyrir því að þegar fram í sækir verði lögð miklu meiri áhersla á að svo verði en hingað til hefur verið og staðreyndir vitna um.

Hv. 1. flm. þessarar till. vék að afurðalánum. Mönnum blandast ekki hugur um að það er ekki síst mikilvægt fyrir framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða og lífsmöguleika þeirra sem landbúnað stunda að afurðalán séu sem hæst hlutfall af verðmæti vörunnar. Um greiðslu þessara afurðalána og fyrirkomulag hefur verið deilt mjög lengi, m.a. hvort tök eru á því að greiða þau, eins og hv. 1. flm. þessarar till. hefur oftsinnis vikið að, beint til bænda. Þetta hefur að hluta til verið framkvæmt í því umboðssölufyrirtæki með landbúnaðarafurðir sem ég þekki best. Þar er forspilið að afurðatánum, þ.e. rekstrarlán eru greidd í raun beint til bænda. Þannig er það framkvæmt á þeim bæ. Það er ekki framkvæmt þannig að send sé ávísun heim á hvern bæ sem svarar til rekstrarlánsins. Þetta fé er lagt beint inn á reikning hjá framleiðanda.

Ég tel að þegar endurskoðun framleiðsluráðslaga lýkur, sem verður vonandi innan skamms, ætti öll þessi umr. að halda áfram og menn að leitast við að skoða þessi mál í heild sinni, en umr. byggðist að meira eða minna leyti á grundvelli þeirra till. sem vonandi líta dagsins ljós, eins og ég sagði, áður en langt um líður.

En að síðustu: Ég er hlynntur því að fjh.- og viðskn. líti aðeins yfir þessi mál. Það er alltaf af hinu góða þegar alþm. og þingnefndir, sem hafa nokkurn myndugleika í störfum sínum ef þær vilja, athuga einstök mál. Ef ég hef skilið hv. flm. rétt er það e.t.v. aðalatriði í hans huga að á grundvelli þessarar till., án þess að hún verði samþykkt, hefjist og verði unnið ákveðið starf í fjh.- og viðskn. Ég efast ekki um vandvirkni fjh.- og viðskn. en ég bið hana að flana ekki að neinu og kynna sér málavöxtu mjög vel að því er varðar þessa till.