13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

291. mál, umferðarlög

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa skoðun minni á því frv. sem hér er lagt fram, og er nánast endurflutt frá því í fyrra en þó með ákveðinni breytingu sem ég fagna vegna þess að breytingin er — ég held ég muni það rétt — sú sama og ég lagði til í brtt. minni í hv. deild s.l. vetur, að ljósatími ökutækjanna væri ekki í gildi nema þann tíma sem skólar störfuðu almennt. Ég ætla alls ekki að berjast á móti þessu máli. Ég tek það skýrt fram að það vill enginn okkar verða þess valdandi að það megi segja að með því að vera á móti slíkum málum sé maður að stuðla að aukinni slysahættu. En ég ítreka að mér er alltaf illa við að setja lög sem ekki eru almennt haldin og ég óttast það mjög í þessu að það geti orðið á þessu brot. Við sjáum daga eins og í dag. Hér er glampandi sólskin. Ég efast mjög um að tendruð verði ljós á öllum bifreiðum í bænum á slíkum degi eftir að þessi lög taka gildi. Þetta er mér illa við. Þess vegna er það teygjanlegt að tala um að aka með ljósum eftir aðstæðum, menn virða það misjafnlega. Þetta skulum við gera okkur fullkomlega ljóst. Það væri spurning hvort það á ekki annað við um þetta í bæjum en úti á þjóðvegum.

Ég vara nú eins og í fyrra við því sem kemur fram hér í 2. gr. í sambandi við skólabifreiðar. Ég er því atgerlega hlynntur og finnst það sjálfsagt að þeim sé gefinn viss forgangur og sérstök aðgæsla í umferðinni. En það verður þá að haga því þannig að gætt sé fyllsta öryggis, að það bjóði ekki upp á hættu. Það er mikið verk að ganga svo frá að tryggt sé að þær bifreiðar, sem eiga leið um t.d. viðkomandi þjóðveg, stansi örugglega og það séu greinilega merktir viðkomustaðir fyrir slíkar bifreiðar svo ekki geti skapast þar viss gildra fyrir þessa ungu þegna sem þarna er verið að verja. Það er mjög mikils virði að þetta sé vel frágengið og þarf að koma mjög greinilega fram í reglugerð.

Við 3. gr. lýsi ég stuðningi mínum. Þó að ég hafi að vissu leyti um þetta efasemdir þá er þetta það sama og ég flutti í fyrra brtt. um og ég mun styðja þetta. En þess vegna þykir mér koma svolítið mikil spurning upp í sambandi við síðari hluta 3. gr., þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við akstur bifreiða og bifhjóls og létts bifhjóls skulu jafnan vera tendruð ljós á lögboðnum ljóskerum frá og með 1. sept. til 30. apríl ár hvert.“ Svo segir: „Sama gildir um akstur annarra ökutækja í rökkri, í myrkri eða í ljósaskiptum eða ella þegar birtuskilyrði eru ófullnægjandi vegna veðurs eða af öðrum ástæðum.“

Ég vil benda hv. flm. á að þarna finnst mér vera slakað á frá því sem sagt er á hinum staðnum. Við vitum það öll, sem ökum hér bæði um bæinn og fyrir utan bæinn og úti á þjóðvegum, að það er svo og svo mikið t.d. af dráttarvélum þar á ferðinni, það er svo og svo mikið af vinnuvélum, gröfum og öðru slíku sem eru því miður allt of oft illa merktar. Þetta flokkast ekki undir ljósaskylduna að mínu mati, eftir því sem segir hér í byrjun 3. gr. Ef þetta á að setjast upp held ég að það sé rétt að setja þetta upp á þessi ökutæki öll og þau séu vel merkt sem við eigum von á að séu á ferðinni á okkar þjóðvegum.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram til þess að við reynum að gera sem best úr þessu frv. Ég lýsi aftur stuðningi mínum við þessa breytingu sem hér er orðin og mun standa þar að, en bendi á að ég er ekki sáttur við niðurlag 3. gr. Þarna finnst mér vera slakað of mikið á við þau skilyrði sem við þekkjum í dag.