13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

291. mál, umferðarlög

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég átti sæti hér á Alþingi í fyrra þegar þetta frv. var til umr. og hafði þá vissar efasemdir um að til bóta væri að hafa ljós á bifreiðum allt árið um kring, það mundi vera hæpið að farið yrði eftir þeirri lagasetningu. Ég hef hugsað töluvert um þetta síðan ég átti hér sæti í fyrra. Ég hef tekið nokkrum sinnaskiptum í þessu. Ég held að þetta frv. sé til bóta og ég styð það eins og það er úr garði gert og ég held að það líði ekki á löngu áður en það verði gengið enn lengra.

Ég vildi láta þessi sinnaskipti mín koma fram. Mér finnst engin skömm að því að skipta um skoðun á þessum málum við nánari athugun.

En ég vil líka eindregið taka undir það, sem hefur komið fram um niðurlag 3. gr., að það þyrfti að kveða skýrar á með alls konar önnur tæki sem eru á ferðinni úti á vegum, t.d. vinnuvélar og slík tæki. Af þeim stafar ekki minni hætta en af bifreiðum og bifhjólum. Ég held að það væri mjög til bóta og vildi beina því til þeirrar n. sem um þetta fjallar og taka undir þær skoðanir sem hafa komið hér fram um þetta atriði.