13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

291. mál, umferðarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv. er nú aftur á okkar borðum. Ég tel til bóta að ljósaskylda yrði aðeins yfir vetrartímann. Ég lít ekki á lagasetningu sem neina allsherjarlausn. Aðalatriðið finnst mér fyrst og fremst áróður og kynning á því öryggi sem hlýst af því að hafa tendruð ljós á bílum. Ég er alltaf svolítið hrædd við að setja lög um boð og bönn án þess að fólk sé tilbúið að kyngja því að slíkt sé nauðsyn. Við kynntumst þessu varðandi bílbeltin. Það tekur vissan tíma að meðtaka öryggið sem þau óneitanlega veita. Ég keyri mjög mikið um landið og ég sé gífurlegan mun á því hvað bílstjórar eru nú farnir að nota ljósin mikið. Ég óttast ekki, þó að enginn fái sekt, að ljós verði ekki notuð í miklum mæli yfir sumartímann. Það er aðalatriðið.

Ég mun ekki greiða atkv. gegn þessu frv., en bendi á að áróður og skilningur manna á mikilvægi þess að aka með ljósum er atriði númer eitt. Eins vil ég taka undir að ljósaskyldan verði að taka til allra ökutækja og, eins og hefur verið bent hér á, vinnuvélar ekki síst. Slík ökutæki eru ekki eins hraðskreið og bílar og því getur hlotist af mikil hætta ef þau sjást ekki í tíma.

Eins vil ég fagna því að hæstv. dómsmrh. boðaði hér endurskoðun á umferðarlögum, en tel samt sem áður að það komi ekki þessu frv. beint við og ekki þurfi að geyma þetta frv. þar til endurskoðunarfrv. yrði afgreitt. Ég veit að vísu ekki hversu flókið frv. það er eða hversu mörgum atriðum á að breyta, en ég er alveg sannfærð um að það þarf ítarlega skoðun og umfjöllun hér á þingi og því ætti ekki að draga afgreiðslu þessa máls. En ég held að n. ætti að athuga mjög vandlega hvort rétt er að beita sektarákvæðum strax.