13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

275. mál, almannavarnir

Guðrún Helgadóttir:

Ég vil aðeins koma hér í ræðustól til að fagna þessu framkomna frv. Ég held að það sé mjög til bóta. Hér hefur verið unnið vel og nefnd sú sem falið var að vinna að þessu frv. hefur lagt að baki mikla vinnu og fyrir það ber að þakka.

Ég vil þó fá, með leyfi forseta, að gera hér nokkrar athugasemdir. Það er þá fyrst hér í 4. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„7. gr. orðist svo: Lögreglustjórar fara með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi.“

Ég er sammála því áliti Ásmundar Ásmundssonar verkfræðings, sem sat í nefndinni, að þarna væri eðlilegra að almannavarnir á hverjum stað fari með stjórn almannavarna og kjósi sér sjálfar formann. Ég sé ekki ástæðu til þess að það sé sjálfgefið að það skuli endilega vera lögreglustjóri.

Hér á bls. 12 og 13 í skýrslu þeirri sem nefndin lét frá sér fara og í eru till. af öllu tagi vil ég gera athugasemd við 2.1.3 þar sem að talað er einmitt um það sem hér var áðan verið að ræða: um öryggisbyrgi, loftvarnabyrgi og þess háttar. Ég tek undir það með hv. 3. landsk. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að ég tel illa farið með peninga ef Íslendingar ætla að fara að byggja yfir sig skýli fyrir kjarnorkuvá. Ég tek undir það sem hún sagði og tel ekki ástæðu til að endurtaka það, að þar verði litlu bjargað og ástæðulaust að eyða peningum í slíkt.

Hv. þm. Guðmundur Bjarnason og Ásmundur Ásmundsson verkfræðingur hafa einnig skilað séráliti hér um kafla 2.3 á bls. 13, þar sem talað er um allsherjarvarnir, eða það sem kallað er á erlendum tungumálum „total defence“. Ég er alveg sammála því að þetta orð ætti helst ekki að sjást, því að í þeim löndum þar sem her er felur þetta ævinlega í sér að almannavarnir og herinn vinna slíkar varnir saman. Ég held að við eigum að aðskilja það mjög ákveðið hvað herir gera og hvað almannavarnir og þeir sem að þeim vinna framkvæma. Ég held að við ættum ekki á nokkurn hátt að festa þetta tvennt saman. Og í sambandi við það, þá er á bls. — þetta er nú stórt og mikið plagg og erfitt að hafa það alveg í höfðinu — jú, hér á bls. 36 í kafla 4.6 er sagt: „Hins vegar er um að ræða upplýsingastöðvar til eftirlits með utanaðkomandi hættu svo sem vegna hernaðarátaka.“ Og svo segir: „Til að tryggja öryggi við starfrækslu þess þáttar almannavarnanna þarf í fyrsta lagi að koma á fót kerfi upplýsingamiðstöðva umhverfis landið og í öðru lagi þarf að tryggja upplýsingastreymi frá viðvörunarstöðvum Atlantshafsbandalagsins og varnarliðinu á Íslandi.“

Ég harma að sjá það í þskj. hér að við gerum einhverjar sérstakar kröfur til Atlantshafsbandalagsins eða herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ég held að þarna verði Íslendingar að leita upplýsinga, hvar sem þær er að fá, og vildi óska þess að þetta hefði ekki sést þarna, og ég held að nm. sumir hafi verið sammála því. Að öðru leyti tel ég að hér hafi verið vel að verki staðið. Og þetta mál þarf auðvitað mjög ítarlega meðferð í nefnd.

Ég vil hins vegar nota tækifærið, úr því ég er komin hér í ræðustól, til að leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. hvers sé að vænta og hvenær sé að vænta frv. til varnar gegn snjóflóðum. Ef ég man rétt fullyrti ráðh. nýlega að það frv. væri á lokastigi. Þess vegna vil ég spyrja hvort vænta megi að það sjái dagsins ljós nú fljótlega á þessu þingi.