13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

275. mál, almannavarnir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það að það er mjög æskilegt að þetta frv., sem hér er til umr., er lagt hér fram og það verður að reikna með því að Alþingi gefi sér tíma til að skoða þetta mál vandlega og afgreiða það sem lög. Ég vil aðeins vekja athygli á því hlutverki sem sveitarfélögin í landinu þurfa að taka á sig í sambandi við þetta mál. Mér finnst einnig rétt að vekja athygli á því að fskj. með þessu frv. er till. formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga á bls. 22. Það álit kemur inn á hlutverk sveitarfélaga sem hér hefur verið til umr. Mér finnst ástæða til að þingnefnd átti sig vel á því að tengja sveitarfélögin á réttan hátt við afgreiðslu þessa máls.

En tilefni þess að ég er kominn hér upp er aðeins til að svara fsp. sem hér kom fram frá hv. 10. landsk. þm. í sambandi við frv. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Ég skýrði frá því hér á þingi nýlega að frv. þetta væri væntanlegt. Nefndin, sem var skipuð til að gera slíkt frv., skilaði því fullbúnu 3. desember s.l. Málið hefur síðan verið hjá ríkisstj. og ég get upplýst það hér að það líða ekki margir dagar þangað til það verður lagt hér fram á hv. Alþingi.