13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

175. mál, verndun kaupmáttar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég bjóst ekki við að það yrði mikið meiri umr. um þetta frv. en fram hafði farið þegar á þremur fundum þegar það gerðist að hv. 5. þm. Reykv. kvaddi sér hljóðs á síðasta fundi og gerði frv. þetta að umtalsefni. Einnig ræddi hann sérstaklega um stefnu og starf Alþb. á undanförnum árum og gerði það með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að svara þar nokkrum atriðum. Hann ræddi einnig um frv. sjálft, sem hér er á dagskrá, 175. mál., og tók hann undir mörg atriði þessa frv. sem mér sýnist að bendi til að af hans hálfu sé skilningur á nauðsyn þess að menn stilli sig saman um mótun efnahags- og atvinnumálastefnu gegn þeirri stjórnarstefnu sem nú er við lýði í landinu og hefur orsakað það misrétti og þau efnahagslegu vandamál sem hvarvetna blasa við.

Ég ætla ekki að haga máli mínu þannig að fara út í miklar árásir á hv. þm. eða málflutning hans þó að margt af því sem hann væri með gæfi fullt tilefni til þess að honum væri svarað af fullri hörku. Ég ætla að reyna að haga máli mínu þannig að koma að efnisatriðum frekar en við förum að iðka hérna pólitískar skylmingar. Sumir kynnu að segja að eðlilegast væri að við héldum áfram, ég og hv. þm., þar sem frá var horfið í æskulýðsnefnd Alþb. við undirbúning borgarstjórnarkosninganna 1966, þar sem við sátum hvor gegn öðrum og ræddum um hvernig best mætti efla veg Alþb., og ég er út af fyrir sig tilbúinn til að halda þeirri umr. áfram við hv. þm. Ég er viss um að í hjarta sínu sér hann dálítið eftir þeim félagsskap sem hann þar var í, en hann gefur ekki kost á því eins og sakir standa, hvað sem síðar verður. Hins vegar vil ég að gefnu tilefni leyfa mér að bjóða hann velkominn fyrir fram ef hann kynni að leita skjóls aftur þó ekki væri nema á vettvangi æskulýðsnefndarinnar sem við sátum saman í á Lindargötu 9 vorið 1966.

Hann vék að þáttum í efnahagsstjórn síðustu ára. Ég vil taka fram í eitt skipti fyrir öll í upphafi þessarar ræðu minnar að ég mun ekki fara að svara fyrir alla hluti í efnahagsstjórn síðustu tíu, fimmtán ár eða svo. Þar bera margir ábyrgð. Alþb. gerir það að nokkru leyti, aðrir flokkar að nokkru leyti, verkalýðshreyfingin að nokkru leyti, atvinnurekendasamtökin að nokkru, bankarnir að nokkru o. s. frv.

En ég vil fara orðum um þá þætti í máli hv. þm. sem mér fundust snúa að Alþb. Það sem hann ræddi fyrst var verðbólgan og verðbólgumet sem hann taldi að hefðu verið sett á þessum tíma. Hann vitnaði þar til Magnúsar Kjartanssonar og þess hvernig Magnús lýsti verðbólgunni sem gróðamyndunaraðferð braskaranna. Undir þau orð Magnúsar hef ég mjög oft tekið. Ég held að verðbólgan sé ákaflega hættuleg meinsemd, hún flytji til fjármuni í þjóðfélaginu í stórum stíl, hún rugli verðmætamat og skapi vandamál við stjórn efnahagslífsins. Deilan hefur aldrei verið um það hvort verðbólgan er góð eða vond í þessum efnum. Menn hafa verið sammála um að hún væri af hinu illa. Deilurnar hafa verið um það með hvaða hætti ætti að taka á verðbólgunni, hvaða aðferðir ætti að nota.

Í þeim efnum má segja að það hafi verið tvær aðalaðferðir sem menn hafa talað fyrir. Önnur er sú, sem núverandi ríkisstj. fylgdi í upphafi ferils síns, að beita leiftursóknarstefnu gegn verðbólgunni, leiftursóknarstefnu Sjálfstfl. sem Framsfl. tók svo að sér að framkvæma að nokkru leyti. Hin leiðin er sú að gera tilraun til að ná tökum á öllum þáttum efnahagslífsins svo að segja samhliða, leggja áherslu á víðtæka þjóðfélagslega samstöðu við það að kveða verðbólguvandann niður, við það að skera verðbólgutölurnar niður og vinna sig þannig út úr verðbólgunni. Við höfum reynslu af því hvernig þessar stefnur hafa gefist í framkvæmd. Við höfum reynslu af því að í upphafi tókst núverandi ríkisstj. að færa verðbólgutölur verulega niður, það er ekki nokkur vafi á því, með einhliða árás á kaupið, með því að banna vísitölubætur á laun. Ríkisstj. gerði ekkert annað til að kveða verðbólguna niður. Það er mjög auðvelt fyrir ríkisstj. að ná henni niður tölulega séð með þeim hætti, en það er mjög sársaukafullt fyrir almenning í landinu, yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, þ.e. launafólk og ellilífeyrisþega. Niðurstaðan verður líka sú að þegar fólk er búið að búa við lágt kaup um nokkurra mánaða skeið eða missera neita menn að hlýða lengur og gera uppreisn. Fólkið í landinu gerir uppreisn gegn þessari stefnu og menn neita að beygja sig undir þá kúgun sem í henni felst. Það verður efnt til vinnudeilna.

Því hefur verið haldið fram stundum af íhaldinu, aðallega hæstv. fjmrh., að það séu bara vondir kommúnistar sem skipuleggi vinnudeilur í þessu landi. Þetta er fullkomið rugl. Vinnudeilur eru til orðnar á vegum verkalýðsfélaganna í heild og í þeim eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Það segir sína sögu hvaða ár það eru sem tapast hafa flestir vinnudagar vegna verkfalla hér á landi. Hvaða ár ætli það séu? Það eru árin 1970, 1976 og 1984. Þessi ár eru öll með yfir 300 000 tapaða vinnudaga vegna vinnudeilna, vegna þess að stjórnvöld á þessum tíma hafa ráðist gegn samtökum launafólks af fullri hörku og ætlað að keyra verðbólguna niður, leysa efnahagsvandann einhliða á kostnað hins almenna launamanns. Þessi stefna er dauðadæmd. Alþfl. og Sjálfstfl. mistóku sig á þessari stefnu á árunum 1958– 1971 og útkoman varð sú sem kom í ljós í kosningunum 1971. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa síðan reynt að beita þessari stefnu, en hún er óframkvæmanleg. Það er ekki hægt að leysa efnahagsvandann í þessu þjóðfélagi í stríði við verkalýðshreyfinguna. Það er grundvallaratriði sem allir alþm. og ríkisstjórnir í þessu landi verða að fara að læra. Þess vegna var það sem þessi lausn á verðbólguvandanum, leiftursóknarlausn Framsfl. og Sjálfstfl., dugði ekki heldur. Verðbólgan spanar auðvitað af stað aftur. Verðbólgutölurnar þessa dagana bera þess glöggt vitni, eru 50–60%.

Önnur leið, sem hefur verið reynd í þessum efnum, er sú leið sem reynd var á árinu 1981 þegar stjórnvöld og aðrir horfðu fram á að verðbólgan færi að óbreyttu upp í 80%. Þá voru gerðar marghliða efnahagslegar ráðstafanir til að kveða verðbólguna niður og hún varð ekki 80%, eins og gert hafði verið ráð fyrir, heldur 40%. Á sama tíma hélst kaupmáttur launa uppi. Það gerðist vegna þess að það voru flestir þættir í efnahagskerfinu teknir með. Ég er sannfærður um að þó að þessi tilraun hafi hvergi verið nærri nóg og góð á árinu 1981, og kom þar margt til, þá hafi hún verið ein heiðarlegasta tilraunin sem gerð hefur verið til að taka á öllum þáttum efnahagslífsins í einu í því skyni að koma verðbólgunni niður.

Vandi okkar í síðustu ríkisstj. var margþættur, m.a. sá að við höfðum ekki meiri hluta í þinginu, m.a. ekki í Nd. Vandinn stafaði líka af því að Framsfl. var ekki tilbúinn til að gera neitt annað til að keyra niður verðbólguna en að lækka kaupið. Framsfl. sá aldrei neina aðra leið. Það mátti ekki taka á milliliðunum eða á innflutningsversluninni. Það mátti ekki taka á milliliðunum í landbúnaðinum. Það mátti hvergi hrófla við kerfinu — þessu kerfi sem framsókn og íhaldið hafa verið að byggja upp á síðustu áratugum. Framsókn var eins og varðhundur fyrir þetta kerfi í öllum tilvikum. Þess vegna var það sem verðbólgutölur urðu ekki lægri. Við vorum ekki tilbúin til að taka verðbólguna niður á kostnað launafólksins eingöngu. Alþb. er ekki flokkur sem situr í ríkisstj. upp á slík býti. Þetta verður að vera skýrt og er grundvallaratriði sem hv. 5. þm. Reykv. þarf að átta sig á.

Um hvað stóðu deilurnar í þjóðfélaginu á árunum 1971–1983? Hver var grunndeilan í öllu efnahagskerfinu? Um hvað var verið að deila? Það var verið að deila um hvernig arðinum er skipt af þjóðarbúinu, hvað launafólkið eigi að fá mikinn hlut. Með myndun vinstri stjórnarinnar 1971 hækkar kaupmáttur launa í kringum 20%. Allan þann tíma sem líður fram til 1983 er verið að takast á um það að halda kaupmættinum uppi. Það sem er svo sögulegt við myndun leiftursóknarstjórnar Steingríms Hermannssonar árið 1983 er að árangur verkalýðshreyfingarinnar er að engu gerður með því að taka vísitöluna úr sambandi. Þess vegna þýðir ekkert fyrir menn að tala um verðbólgutölurnar einar út af fyrir sig í þessu efni. Menn verða líka að spyrja: Hvernig var kaupmáttur launa á þessum tíma? Hvað höfðu menn fyrir sig að leggja? Staðan í þeim efnum er ljós. Kaupmáttur launa var á þessum tíma 20–30% hærri en hann er núna.

Formaður Alþfl. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir á s.l. þingi — ég ætla að herma það á hann — að það hafði verið skynsamlegt að taka vísitöluna úr sambandi. Hann hefur orðað það þannig aftur og aftur að það hafi í raun verið þannig að ríkisstj. hafi farið vel af stað. Það eru orðrétt ummæli hv. þm. En hvernig fór ríkisstj. vel af stað? Hún fór vel af stað með því að lækka kaupið um 20–30%. Ef hv. þm. er á þeirri skoðun að það hafi verið rétt að lækka kaupið um 20–30% þá á hann eftir að læra mjög mikilvæga lexíu í íslenskum stjórnmálum, sem sé að ríkisstj. sem reynir að stjórna landinu gegn verkalýðshreyfingunni getur ekki stjórnað landinu. Það er tilgangslaust að reyna slíkt.

Hafi hv. þm. gert sér vonir um að Alþb. hefði lært það, eins og hann orðaði það, og væri tilbúið til að taka þátt í að stjórna landinu gegn verkalýðshreyfingunni, þá skal ég segja það fyrir mína hönd og flokksins: Við höfum ekki lært það. Við viljum ekki stjórna landinu gegn verkalýðshreyfingunni vegna þess að við teljum það óframkvæmanlegt. Ef menn eru þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að taka vísitöluna úr sambandi, hvað átti fólkið þá að fá í kaup? Vill Alþfl. ekki gera svo vel og svara því? Hvaða kaup áttu menn að fá? Ég minni á að hv. þm. Karl steinar Guðnason, 6. landsk. þm., mótmælti í blöðum sérstaklega þessum ummælum hv. 5. þm. Reykv., taldi að Alþfl. hefði alls ekki verið inni á þessu. Er það kannske einkaskoðun núverandi formanns Alþfl. og Alþfl. hafi verið skiptur í þessu efni og hv. 5. þm. Reykv. róið einn á báti? Þá er mér rórra, satt að segja, ef svo er. En fróðlegt væri að fá svör við því.

Hins vegar er það rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. segir, að verðbólgan veldur gífurlegum fjármagnstilflutningum og vanda fyrir láglaunafólkið og sérstaklega þá sem hafa allra minnst handa á milli. Í þeim efnum vil ég minna á að í tíð síðustu ríkisstj. voru teknar ákvarðanir um margvíslegar endurbætur á félagslegri þjónustu til að koma til móts við þetta fólk. Það var ákvörðun okkar að snúa okkur sérstaklega að því að bæta kjör aldraðra og kjör fattaðra. Það var alveg ljóst að við urðum að velja þarna á milli. Og það var ákvörðunarefni okkar að bæta verkamannabústaðakerfið. Það er ljóst að með því að taka þá peninga sem fóru í málefni fatlaðra, aldraðra og verkamannabústaðakerfið var hugsanlegt að auka eitthvað útlán úr Byggingarsjóði ríkisins. En stjórnmálamenn verða að velja. Þeir verða að ákveða forgangsröð. Það er þeirra skylda. Það þýðir ekkert fyrir þá að fleyta kerlingar á einhverjum vinsældalistum. Þeir verða að raða í forgangsröð eftir þeim fjármunum sem þeir hafa úr að spila.

Ég taldi og ég tel enn rétt að brýnast hafi verið að verja fatlaða, aldraða og lágtekjufólk sem kemst inn í verkamannabústaðakerfið fyrir þeirri verðbólgu sem óneitanlega var þarna um að ræða. En til viðbótar kemur að kaupmáttur launanna var — og það er grunnatriði — 20–30% hærri en hann er nú. Þá gat fólk betur byggt og borgað skuldir sínar en það getur gert í dag.

Hv. þm. Alþfl. fluttu haustið 1978 frv. á Alþingi um að það ætti að taka upp raunvexti sem hv. formaður Alþfl. kallar núna ránvexti. Það er gott hjá honum vegna þess að það er ránvaxtastefna sem hann er núna að berjast á móti og við erum sammála um. Hann telur ránvextina að vísu hærri en raunvextina. (Gripið fram í.) Já, já, já. Það er það sem hann er að tala um. Ég held að ránvaxtastefnan hafi byrjað með raunvaxtastefnunni. Það samhengi þurfa menn að horfa á. Hver var tilgangur Alþfl.-manna með frv. um raunvexti á sínum tíma? Hann var sá að reyna að draga úr verðbólgu og verðþenslu í þjóðfélaginu, koma í veg fyrir eignatilflutning út á ódýrt lánsfé o.s.frv. Niðurstaðan hefur orðið sú að raunvaxtastefnan hefur breyst í ránvaxtastefnu, allsherjar kapphlaup í þjóðfélaginu um sparifé undir trylltri forustu ríkissjóðs. Er nú svo komið að það er verið að flytja til, vegna raunvaxtastefnunnar alias ránvaxtastefnunnar, stórkostlega fjármuni í þjóðfélaginu þessa dagana. Útilokað er fyrir þá Alþfl.-menn að ætla að neita því að þeir eiga verulegan þátt í þessu upphafi hávaxtastefnunnar, ránvaxtastefnunnar hér á landi. Kenningarnar um að t.d. útflutningsatvinnuvegirnir eigi að borga í öllum tilvikum einhverja raunvexti eru allrar athygli verðar. En ég segi: Hvaða ástæða er til að útflutningsvörubirgðir, sem fyrirtæki í útflutningi liggja með, skili svo og svo miklum raunvöxtum meðan birgðirnar liggja á tilteknum stað hér á landi og bíða þess að vera fluttar út? Ég held það sé algjör fjarstæða að gera kröfur til að útflutningsvörubirgðir skili viðbótarfjármagni einungis af því að þær bíða eftir að fara úr landinu. Ég get ekki skrifað upp á slíka vaxtastefnu fyrir mitt leyti. Ég held að slík vaxtastefna endi með því að fyrirtækin geta ekki borgað kaup. Þegar menn eru að tala um að borga þurfi vexti og raunvexti verða menn að gera sér grein fyrir því að verið er að þrengja svigrúm fyrirtækjanna til að borga kaup, það er meginatriði. Menn eru að velja á milli hvort fyrirtækið borgar kaup eða hvort fyrirtækið borgar fjármagnskostnað. Sá sem segir að fyrirtækið eigi að eyða meiru í vexti, meiru í fjármagnskostnað er að segja: Fyrirtækið á að borga lægra kaup vegna þess að menn nota ekki peningana til að borga með þeim bæði kaup og vexti.

Í ummælum hv. formanns Alþfl. kom m.a. fram að á undanförnum árum hafi frystihúsin og fyrirtækin verið rekin á núllgrundvelli og ekki fengið fjármagn til endurnýjunar. Þetta er ein spekin sem menn hafa étið hver upp eftir öðrum á undanförnum árum. Hver er þessi núllgrundvöllur sem menn eru að tala um? Það er eitthvert meðaltalsfrystihús sem er reiknað út inni við Rauðarárstíg. Meðaltalið er sett í kringum núll, sem þýðir að annar helmingurinn af frystihúsunum er fyrir ofan núllið og hinn helmingurinn er fyrir neðan núllið. Hér er það ekki þannig, eins og ætla mætti af þessu núllgrundvallartali, að menn hafi verið að dæma öll frystihús í landinu til rekstrartaps. Þvert á móti. Ég bendi á að í útreikningum Þjóðhagsstofnunar hefur alltaf verið gert ráð fyrir að þar væru inni fjármunir til endurnýjunar, bæði á vélum og tækjum, í frystihúsunum. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir að þarna er um að ræða tiltekið meðaltal og oft og tíðum eru þessi meðaltöl meira og minna vitlaus. Meðaltalið má ekki verða eini vegvísir stjórnmálamanna í þessum efnum.

Hv. þm. segir í ræðu sinni að skjóttekin gróðastarfsemi, milliliðastarfsemi, innflutningsverslun, dreifing og þjónusta, hafi blómstrað á undanförnum árum. Það er rétt hjá honum, en það hefur hlaupið ofvöxtur í hana að undanförnu. Ég held að við höfum ekki staðið okkur nógu vel í því að halda aftur af þessari þenslu. Ég er fullkomlega sammála þm. um það. Og ég vona að hann sé sammála mér um að þenslan í þessari atvinnugrein á árunum 1960–1970 hafi verið langt umfram efni þjóðarinnar.

Ég kann hins vegar efnahagslega skýringu á þessari þenslu. Hún er fyrst og fremst sú að á þessum tíma dansaði þetta kerfi meira og minna stjórnlaust sem afleiðing af markaðsstefnunni sem var í grófum dráttum tekin upp í íslenskum efnahagsmálum á árunum 1960–1970. Eftir að sú stefna hafði verið tekin upp, fríverslunarstefna innanlands og utan, var mjög erfitt — og er — að taka á þessu. Það tókst hins vegar að halda verðlagsákvæðum í gildi, tókst að halda aftur af vaxtahækkunum þangað til núverandi ríkisstj. tók við. Þá er allt gefið laust, bæði kostnaður við fjármagn, kostnaður við vöru og þjónustu og annað þess háttar.

Hv. þm. kom að því að það væri keppikefli fyrir Alþb. að vera í ríkisstj. Það er keppikefli fyrir Alþb. að hafa áhrif. Það er keppikefli fyrir Alþb. að koma fram stefnu sinni. En Alþb. hefur engan áhuga á því að fara í ríkisstj. nema til að hafa áhrif í samræmi við sína stefnu. Alþb. getur ekki gengið inn í ríkisstj. með svipuðum hætti og t.d. Framsfl. á árinu 1983 þar sem gjörsamlega allt er látið laust í upphafi stjórnartímans. Framsfl. fellur frá öllum sínum sjónarmiðum. En Framsfl. hefur áður hagað sér svona til að koma sér inn í ríkisstj. Ég ætla aðeins að nefna það seinna í ræðu minni hvernig Framsfl. hagaði sér í fyrsta stjórnarsamstarfinu við Alþfl. á árunum 1934–1938, í stjórn hinna vinnandi stétta þar sem Framsfl. féllst á kosningastefnuskrá Alþfl. eins og hún lagði sig og Alþýðublaðið lýsti því yfir að forustumenn Alþfl.: Þetta er okkar stjórn. Framsfl. lýsti því aftur á móti yfir: Við höfum nú fyrirvara um þetta og fyrirvara um hitt. Hvernig endaði sú stjórn? Hún endaði með því að Framsfl. sveik þennan málefnasamning stjórnar hinna vinnandi stétta svo að segja eins og hann lagði sig. Og þegar kom að því að gera Kveldúlf upp á árinu 1937 gafst Framsfl. upp vegna þess að hann sá að ákveðin SÍS-fyrirtæki yrðu þá gerð upp líka. Þannig hefur bandalag þeirra flokka sem núna stjórna landinu alltaf verið. Þeir eru fulltrúar ákveðinna fyrirtækja og gróðahagsmuna í þessu landi. (JBH: Stemmir þetta við reynslu hv. ræðumanns af tuttugu ára samstarfi við SÍS-flokkinn?)

Nú kem ég aðeins að því, hv. þm., hvernig þessu samstarfi hefur verið háttað og hvernig samstarfið hefur verið við Framsfl. að því er okkur varðar. Ég ætla fyrst að rifja upp að sá flokkur sem hefur verið lengst í ríkisstjórn í sögu lýðveldisins, en það eru fjörutíu ár, er Alþfl., lengst samfellt í fimmtán ár. (JBH: Lengst samfellt?) Samfellt. Maður skyldi ætla að þessi flokkur hafi markað slík spor á hálfum öðrum áratug í löggjöf og efnahagsþróun landsins að þar yrði ekki mörgu snúið til verri vegar eftir að hann hefði skilið við skútuna. Framsfl. hefur núna setið lengst samfellt í stjórn í þrettán ár, þ.e. frá 1971. Það er reyndar komið á fjórtánda ár, frá 1971–1985. Sjálfstfl. hefur setið lengst samfellt í ríkisstj. í þrettán ár, frá 1958–1971. M.ö.o.: enginn flokkur hefur sefið lengur samfellt við stjórnvöl þessa þjóðfélags en Alþfl. Frá þessum tíma, á árunum 1956–1971, má nefna ýmis dæmi um málefni sem ég er sannfærður um að Alþfl. er ekki ánægður með hvernig þróuðust. Ég er sannfærður um að Alþfl. skýrir það núna með því að hann hafi ekki verið nægilega sterkur í samstarfinu við íhaldið og ég er sannfærður um að Alþfl.-mennirnir á árunum 1937, 1938 og 1939 skýrðu mistökin í stjórn hinna vinnandi stétta með því að Alþfl. hafi ekki verið nógu sterkur og Framsfl. of sterkur.

Reynsla mín af samstarfi við Framsfl. er mjög svipuð og reynsla Alþfl. í stjórn hinna vinnandi stétta. Ég nefni hér stjórn hinna vinnandi stétta vegna þess að það hefur nýlega verið gefinn út ritlingur um þessa stjórn eftir Valdimar Unnar Valdimarsson sem heitir „Alþýðuflokkurinn og stjórn hinna vinnandi stétta 1933–38, rit Sagnfræðistofnunar 12, Reykjavík 1984“. Þar kemur fram að Framsfl. hefur alltaf tilhneigingu til að fallast á kröfu þess flokks sem hann er að semja við um áð koma sér inn í ríkisstj. í upphafi stjórnartímans, en lætur svo loforðin öll lönd og leið þegar líður á tímann. Þetta er sama reynslan og Alþb. hefur af Framsfl., sama reynslan og Alþfl. gekk í gegnum á árunum 1934–1937, og Sjálfstfl. er að sumu leyti að kynnast núna þó að þeir flokkar eigi mikið meira sameiginlegt en nokkurn tíma Alþb. og Framsfl.

Eitt af því sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og þeir Alþfl.-menn eru stundum að gagnrýna í sambandi við Alþb. er stefnumótun okkar í landbúnaðarmálum. Það er talað um það að Alþb. hafi viljað styðja við bakið á bændum gegn launþegum í landinu, hinum almenna launamanni, og það er talað um niðurgreiðsluvitleysuna. Éta vandann, er sagt og hafðar í flimtingum þær áherslur sem Lúðvík Jósepsson hafði í landbúnaðarmálunum á árunum 1978 og 1979. Um þá landbúnaðarstefnu sem þar var lögð áhersla á má margt segja. En það er óhjákvæmilegt að viðurkenna að á milli niðurgreiðslna og neyslu á landbúnaðarvörum og kaupmáttar launa er órjúfanlegt samhengi hvað sem öllu öðru líður. Núna hefur það gerst að niðurgreiðslur í hlutfalli af úfsöluverði á dilkakjöti eru sennilega komnar niður fyrir 10% og hafa aldrei verið lægri um margra áratuga skeið. Niðurgreiðslur á nýmjólk eru komnar niður fyrir 10%, en hafa verið í 31%. Niðurgreiðslur á smjöri eru komnar niður í 22%. Þannig mætti lengi telja. Ég er sannfærður um að offramleiðsluvandinn í landbúnaðinum getur vaxið við það að menn dragi úr niðurgreiðslum. Menn geta neitað þessu samhengi og sagt: Þetta er tóm vitleysa, það er verið að segja fólkinu að éta vandann. En samhengið er þarna, það þýðir ekki annað fyrir menn en að horfast í augu við það. Alþfl. féllst á þetta samhengi við stjórnarmyndun haustið 1978 þegar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum voru auknar stórkostlega frá því sem áður hafði verið. Alþfl. samþykkti þá stefnu með aðild sinni að stjórninni haustið 1978.

Varðandi landbúnaðarpólitíkina að öðru leyti ætla ég að segja fáeinar setningar frá mínum bæjardyrum séð. Ég tel að nálgast eigi þau vandamál allt öðruvísi en gert hefur verið, hvort heldur það gerir Framsfl., sem vill verðtryggja eigið tilverukerfi í gegnum landbúnaðarkerfið, eða Alþfl. og að hluta Sjálfstfl. sem vill eingöngu horfa á markaðinn. Ég ætla að byrja annars staðar í sambandi við landbúnaðarmálin. Ég spyr fyrst: Hvað þolir auðlindin? Hversu mikinn arð getur landið gefið og hvernig skiptist það eftir landsvæðum? Þá spyr ég: Hversu mikið magn landbúnaðarafurða er unnt að framleiða úr þeirri auðlind sem grasnytjarnar eru á hverju svæði, ræktun og aðrir landkostir? Þarna á að byrja. Síðan á að laga byggðastefnu og afkomu bænda að þessu. Ef við byrjum á markaðshliðinni og afkomu bænda er meiri hætta á rányrkju á auðlindinni, landinu sjálfu, en ella er um að ræða. Ég held að umræður um landbúnaðarmál á þessum grundvelli, þ.e. á grundvelli auðlindarinnar, séu mikið heillavænlegri fyrir þjóðina og þingið en sú umræða og togstreita sem hefur farið fram um þessi mál á undanförnum árum.

Ég gæti aðeins vikið að húsnæðismálum, sem við höfum rætt hér oft, en ég ætla ekki að tefja umr. mikið í þeim efnum. Ég get bent á frv. Alþb. um 1.5 milljarða til húsnæðismála, um nýtt fjármagn til byggingarsjóðanna, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.

Ég ætla að víkja aðeins að skattamálunum. Því er stundum haldið fram af þeim hv. þm. sem ég er aðallega að ræða við að litið hafi verið gert í skattamálum á undanförnum árum. Sumum fannst talsvert gert, a.m.k. þeim sem eiga skrifstofu- og verslunarhúsnæði. A.m.k. var fróðlegt að lesa táraflóðstilkynningarnar sem maður fékk svo að segja mánaðarlega frá Verslunarráði Íslands um að skattastefna Ragnars Arnalds væri að drepa verslunina. Ég held að líka væri fróðlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir því að síðasta ríkisstj. beitti sér fyrir því að það voru í fyrsta sinn í sögunni lagðir skattar á banka hér á landi. Það hafði aldrei áður verið gert. Ég held að það væri líka fróðlegt fyrir hv. þm. að kynna sér það hvernig sjúkratryggingagjald var fellt niður af lágtekjum. Og ég held það væri fróðlegt fyrir hv. þm. að kynna sér þær endurbætur á innheimtu söluskatts sem áttu sér stað á síðasta tímabili. En ég vil segja það við hv. þm. og aðra hér að auðvitað var ekki um að ræða tæmandi lagfæringar á þessu. Margt var í deiglunni. Í rauninni er nauðsynlegt, að mínu mati, að endurmeta áherslur í skattamálum, m.a. með tilliti til þess hvort ekki á að flytja áhersluna yfir á eignir í auknum mæli af tekjum. En það má ekki gerast í einu skrefi. Það hlýtur að taka þó nokkurn tíma ef það á ekki að valda stórfelldum vandamálum.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék nokkuð að spurningunni um hvort við hefðum eitthvað lært af því að vera í tilteknum ríkisstjórnum á liðnum árum. Ég vona satt að segja að við höfum eitthvað lært. Við erum reynslunni ríkari. Það er eitt atriði sem ég vil leggja þar megináherslu á. Ég tel ekki að það sé unnt að gera ráð fyrir að ríkisstj. nái varanlegum árangri við endurbætur á þjóðfélaginu, hvort sem það er í félags-, efnahags- eða atvinnumálum, öðruvísi en að stjórnkerfinu verði breytt í grundvallaratriðum. Stjórnkerfið eins og það er nú er fjandsamlegt róttækum flokkum, það er fjandsamlegt róttækum sjónarmiðum. Ég tala af reynslu í þessu efni. Ég veit hvernig lagst er á mál í stjórnkerfinu. Auðvitað ber Alþingi ábyrgð á stjórnkerfinu á hverjum tíma og þar með ríkisstjórnarmeirihlutinn, en til þess að breyta þessu stjórnkerfi þarf meiri hluta á Alþingi. Það er t.d. ekki nóg fyrir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að segja: Ég vil reka bankastjóra Seðlabankans. Hann þarf meiri hluta á Alþingi á bak við þessa hugmynd sína þó honum dugi meiri hluti í Alþfl. til að reka fólk þar. Þennan lýðræðislega meiri hluta verða menn að hafa og þeir verða að sætta sig við að ekki er hægt að ná fram öðrum breytingum á þjóðfélaginu en þeim sem lýðræðislegur meiri hluti er fyrir að ná í gegn í þinginu á hverjum tíma. (FrS: Hv. þm. Jón Baldvin þarf engan meiri hluta í sínum flokki til að reka fólk. Hann gerir það bara einn.) Já, hv. þm. Friðrik Sophusson vill greinilega læra af honum. Ég nefni þá ekki sem hv. þm. Friðrik Sophusson vill reka. Það gæti orðið sex manna listi.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við áttum okkur á því að til að tryggja róttækar umbætur til frambúðar verður að gjörbreyta stjórnkerfinu. Það verður t.d. að afnema æviráðningu æðstu embættismanna, ráða þá til takmarkaðs tíma í senn. Það verður að gjörbreyta stjórnarráðslögunum. Ég held að ef núv. ríkisstj., sem er með tiltölulega sterkan meiri hluta hér í þinginu, færi út í að breyta stjórnarráðslögunum yrði hún að leggja áherslu á samstarf við stjórnarandstöðuna um að breytingar á stjórnarráðslögunum tækju gildi frá og með næstu kosningum. Ég held að það sé mjög erfitt fyrir hvaða flokk sem er að breyta stjórnarráðslögunum þannig að það eigi að taka gildi hér og nú því að það eru alltaf alls konar hagsmunir einstaklinga og samtaka sem rekast á breytingaviðleitni á miðjum kjörtímabilum. -En ég tel að það sé eitt stærsta framfaramál þessa þjóðfélags að gjörbreyta Stjórnarráði Íslands frá því sem það er nú.

Ég vil einnig nefna í þessu sambandi einstakar stofnanir sem hafa á undanförnum árum tregðast við, þrátt fyrir skýlaus fyrirmæli ráðh., að framkvæma það sem þær eiga að framkvæma. Í þessu sambandi get ég t.d. nefnt Húsnæðisstofnun ríkisins, ég get nefnt Tryggingastofnun ríkisins, ég gæti nefnt fleiri slíka aðila, að ég tali nú ekki um bankana. Hvað halda menn að það séu margir starfsmenn í viðskrn. sem sjá um bankana? Viðskrn. er sem kunnugt er bankamálarn. Hvað ætli þeir séu margir? Enginn. Ekki einn einasti maður í viðskrn. hefur með bankamálin að gera. Þannig hefur það verið núna undanfarin 2–3–4 ár. Það var þarna einn maður um skeið, en er enginn núna. Þetta gerir það auðvitað að verkum að viðskrn. er á hverjum tíma meira og minna sett undir hælinn á Seðlabankanum sem er stórkostlega hættulegt, en þetta seðlabankakerfi var byggt upp af þeim Gylfa Þ. Gíslasyni og Jóhannesi Nordal á sínum tíma. Þeir voru þar brautryðjendur og lögðu grunninn að seðlabankalögunum frá 1961 eins og þau eru. Ég hef farið yfir ræðuhöld hæstv. fyrrv. ráðh. Gylfa Þ. Gíslasonar hér á Alþingi um seðlabankalögin þar sem því er lýst í bak og fyrir hvílíkt framfaraspor það sé að hafa seðlabankalögin eins og þau eru með því mikla valdi sem Seðlabankinn hefur.

Það sem ég hef lært, af því að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spurði um það, er að útilokað er að fara inn í ríkisstj. með róttækar umbótatillögur, jafnvel þó að þær séu festar niður í málefnasamningi, öðruvísi en að gerbreyta stjórnkerfinu. Ég vil líka segja það að fenginni reynslu að þó að sett séu orð á blað í málefnasamningi við Framsfl. heldur það ekki nema tiltölulega mjög skamman tíma. sú er reynsla m.a. okkar frá liðnum árum.

Alþb. hefur að undanförnu rætt um þann möguleika hvort hægt væri að búa til það sem kallað er nýtt landstjórnarafl. Hvað er það? Með nýju landstjórnarafli eigum við við að unnt verði að mynda ríkisstjórn í landinu sem er þannig skipuð að forustu til og yfirgnæfandi meiri hluta a.m.k. að Framsfl. og Sjálfstfl. ráði þar hvorugur úrslitum um þróun mála. Það er kominn tími til að gefa þeim flokkum báðum frí. Það er kominn tími til að það verði til nýtt afl í landinu sem þorir og hefur afl og vilja til að ráðast til atlögu við staðnað valdakerfi þessa þjóðfélags sem er orðið rándýrt og ofurþungt á herðunum á launafólki í þessu landi. Þetta grundvallaratriði höfum við viljað ræða m.a. við stjórnmálaflokka eins og kunnugt er og að því máli kom hv. 5. þm. Reykv. hér á dögunum. Það sem mér fannst sérstaklega jákvætt í máli hans, og ég ætla að ljúka orðum mínum með því, var hvernig hann tók á þessu efnahagsfrv. Alþb. Hann vildi fyrir sitt leyti fallast á ýmis atriði sem þar eru. Ég get ekki gert þá kröfu til hans að hann fallist á þau öll, en mér fannst koma fram vilji til samstarfs, skilningur á nauðsyn þess að þau öfl, sem vilja ekki hlíta eilífri forsjá afturhaldsflokkanna í þessu landi, snúi bökum saman.