14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þetta er að vísu mikið alvörumál, sem hér er hreyft, en þó held ég að væri nú lausn að hraða afgreiðslu þess svo að hv. Alþingi gæti komist að minna mikilvægum málum. En í 12. gr. þingskapa stendur orðrétt með leyfi forseta:

„Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í þeirra stað.“

Nú veit ég ekki betur en hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sé einn af varaforsetum þingsins svo að ég legg til að hann beiti þá því valdi sínu í fjarveru forseta næst þegar þar kemur málum og láti þá taka þessa lappa niður og er þá málið leyst.