23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

69. mál, kennsluréttindi kennara í grunnskólum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. 1. spurning hv. 3. landsk. þm. er þessi: „Hve margar stöður í grunnskólum eru skipaðar eða settar kennurum með kennsluréttindi?“ Svarið er að það liggja ekki ennþá nákvæmar tölur fyrir nú um yfirstandandi skólaár, en ætla má að hlutföll séu svipuð og á síðasta skólaári. Þá voru settir eða skipaðir kennarar í grunnskólum alls 2 715 og af þeim voru 2 302 með full kennsluréttindi eða 84.8%. Kennarar án kennsluréttinda voru 413 eða 15.2%.

2. spurningin var þessi: „Hve margir stundakennarar við grunnskóla eru með kennsluréttindi?“ Ég tek það fram í þessu sambandi að ekki er unnt að gefa hin allra fyllstu svör við sumum spurningunum vegna verkfallsins. E.t.v. get ég gefið fyllri svör þegar starfslið ráðuneytisins er komið til starfa. Þessar upplýsingar hefur deildarstjóri grunnskóladeildar, Sigurður Helgason, unnið og kveður vissa erfiðleika fólgna í þessu atriði. En svarið við spurningunni um stundakennara við grunnskóla var þetta, að í fyrra voru nálægt 50% stundakennara í meira en hálfu starfi með full kennsluréttindi.

3. spurningin var: „Hvert er hlutfallið milli réttindamanna og réttindalausra í 1.–6. bekk og 7.–9. bekk grunnskólans?“ Svarið er: Kennarar með full kennsluréttindi eru hlutfallslega fleiri í neðri bekkjum grunnskólans. Spurningunni er að öðru leyti ekki hægt að svara vegna þess að margir kennarar kenna bæði í neðri bekkjum og efri bekkjum, einkum í grunnskólum í dreifbýli.

4. spurningin var þessi: „Hvert er hlutfali milli réttindamanna og réttindalausra í grunnskólum í þéttbýli og dreifbýli miðað við

a) full stöðugildi,

b) fjölda kennara?“

Hlutfall kennara með full kennsluréttindi var sem hér segir í einstökum fræðsluumdæmum skólaárið 1983– 1984: Í Reykjavík 98.6%, á Reykjanesi 91.5%, á Vesturlandi 70.5%, á Vestfjörðum 65.8%, á Norðurlandi vestra 75.6%, á Norðurlandi eystra 78%, á Austurlandi 63.1% og á Suðurlandi 82.1%. Það er því miður ekki mannafli í menntmrn. þessa dagana til að reikna út stöðugildi, en hv. þm. skal fá svar við því strax og um hægist í þeim efnum.