14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Strax þegar það hafði komið í ljós að fisksjúkdómur var kominn upp í Kollafirði var ákveðið að ekki yrði leyfður neinn flutningur á hrognum, seiðum eða laxi þaðan svo að ekki væri hætta á því að hann bærist hér eftir út úr stöðinni. Jafnframt var lögð áhersla á að reyna að rannsaka eins og kostur væri hvernig þessum málum væri háttað, hversu víðtækur þessi sjúkdómur væri, til þess að gera sér betur grein fyrir því hvað væri rétt að aðhafast.

Að undanförnu hefur verið óskað eftir því að Alþingi veitti aukið fjármagn til fisksjúkdómarannsókna. Á fjárlögum þessa árs var bætt við nýrri stöðu. Að því leyti er aðstaðan betri nú en áður hafði verið. Ég óskaði jafnframt eftir því við fisksjúkdómasérfræðinginn að hann gerði tillögur um á hvern hátt væri hægt að bæta þar betur úr. Hann gerði lista yfir þau tæki sem væru nauðsynleg í því skyni, hann lagði hann fram, má segja, strax. Jafnframt var honum veitt heimild til að kaupa þessi tæki. Enn fremur er nú verið að bæta aðstöðu hvað húsnæði varðar við tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum þar sem þessar rannsóknir fara fram að svo miklu leyti sem það er gert á rannsóknarstofu.

Jafnframt óskaði ég eftir því, eins og ég sagði, að eins víðtæk rannsókn færi fram á þessu sviði og kostur væri og þá sérstaklega á því hvort sjúkdómurinn væri í laxi utan Kollafjarðar. Sýkingin er langmest í laxi sem hefur gengið í stöðina á síðasta sumri. Það er því augljóst að hann er á þann hátt utan stöðvarinnar. Áður en frekari ráðstafanir eru ákveðnar er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvar þess má vænta að þessi sjúkdómur geti komið upp. Hann hefur áður komið upp tvisvar, í Elliðaánum í annað skiptið og í hitt skiptið í Laxalóni. Að þessu starfi er unnið ötullega af þessu starfsliði og jafnframt var lögð áhersla á að reynt yrði að útvega meira starfslið eftir því sem fisksjúkdómafræðingur gerði tillögur um.