14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

102. mál, framleiðslustjórn í landbúnaði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hefur flutt allítarlega ræðu um landbúnaðarmál sem vissulega má segja að eðlilegt sé þar sem hér er um yfirgripsmikinn og mikilvægan málaflokk að ræða. Sumt get ég tekið undir í hans ræðu, en öðru get ég ekki samsinnt. Einu atriði vil ég sérstaklega mótmæla harðlega strax í upphafi, það er að forsvarsmenn bændasamtakanna stundi glæpastarfsemi og kalla megi þá mafíu.

Eins og kom fram í máli ræðumanns eru þessi mál til umfjöllunar hjá ríkisstj. og landbrn. Það verður lagt fram frv. um breytingar á framleiðsluráðslögunum síðar á þessu þingi og þá mun þetta mál verða ítarlega rætt. Ég vil þó minnast á örfá atriði í tilefni af ræðu hv. þm.

Það er rétt að framleiðslustefna mótaði framleiðsluráðslögin þegar þau voru sett. Þá var of lítil framleiðsla búvara í landinu fyrir innanlandsmarkaðinn og þá ríkti í öllum löndum sú stefna að auka framleiðslu og reyndar ekki aðeins í landbúnaði heldur á öllum sviðum. Þess vegna var eðlilegt að sú framleiðslustefna setti svip sinn fyrst og fremst á framleiðsluráðslögin. síðustu 25 árin hefur annað atriði verið grundvöllur, má segja, að framleiðsluráðslögunum. Það er stefna Alþfl., sem hann mótaði í samstjórn með Sjálfstfl. árið 1960, að taka upp útflutningsuppbætur. Með því var búið að skapa markaðstryggingu fyrir svo mikla búvöruframleiðslu að það hlaut að setja mjög svip sinn á landbúnaðarstefnuna næstu árin og meðan þær væru í gildi. Það er því næsta furðulegt að segja að Alþfl. hafi farið að benda á hættu af þessu upp úr 1960, á sama tíma sem hann lögleiðir þetta fyrirkomulag. Hv. 3. þm. Reykn. virðist hins vegar skilja að þegar búið er að setja þetta ákvæði og á það treyst í áratugi er erfitt að kippa því snögglega í burtu.

Hv. 3. þm. Reykn. vildi gera lítið úr þeirri vinnu sem nú er• verið að leggja fram til að byggja upp nýja atvinnustarfsemi í sveitum. Ég vil benda á að á síðasta ári var stuðningurinn við loðdýraræktina margfaldaður. Þá var veittur öflugur stuðningur til skipulegrar uppbyggingar fóðurstöðva um landið og lánveitingum úr stofnlánadeild var fyrst og fremst beint til loðdýraræktarinnar og var rúmlega 50 millj. kr. varið í þessu skyni. Vissulega er ekki hægt að kippa öllu öðru í burtu allt í einu. T.d. verða alltaf eigendaskipti að jörðum. Það gildir jafnt um jarðir þar sem stunduð er loðdýrarækt og önnur framleiðsla. Til þess þarf allverulegan hluta af lánsfé stofnlánadeildar. Enn fremur er um að ræða ýmsar fleiri framkvæmdir í sveitum sem byrjað er á og nýtast ekki að fullu nema þeim sé haldið áfram.

En ég get tekið undir að þarna þurfi að sýna fyllstu gát. Í ræðu sem ég flutti á aðalfundi Stéttarsambands bænda 1983 lagði ég áherslu á að áður en lánveitingar yrðu ákveðnar lægju fyrir stofnkostnaðar- og rekstraráætlanir um framkvæmdir. Framlög úr ríkissjóði til landbúnaðarins eru einnig í endurskoðun. Ég hef lagt áherslu á að í fyrsta lagi hljóti þau að miðast við þann búrekstur sem á að fara fram á hverri jörð og í öðru lagi þær greinar sem menn telja mesta þörf á uppbyggingu í.

En þó að þarna þurfi að leita nýrra leiða, nýrra verkefna, mega menn ekki svelta þær búgreinar, mjólkur- og kjötframleiðslu, sem menn hafa byggt á á undanförnum árum. Þar þurfa menn einnig að njóta viðunandi afkomu og eðlilegt viðhald verður að eiga sér stað þar.

Reynt hefur verið að auka þekkingu á sviði nýrra búgreina. Kennsla hefur verið tekin upp við báða bændaskólana í loðdýrarækt og við Bændaskólann á Hólum í fiskeldi. Leiðbeiningarþjónusta hefur einnig verið aukin á þessu sviði. Vissulega er rétt að ráðunautar og aðrir þurfa að fylgjast með nýjungum og verða þannig sem best færir um að gegna sínu starfi. Það er þó athyglisvert að benda á í þessu sambandi að í Noregi er forstöðumaður rannsókna í fiskeldismálum fyrrv. aðalsérfræðingur Norðmanna í sauðfjárrækt og hann lagði áherslu á að í nýjum búgreinum yrðu að gilda sömu lögmál og í öðrum búskap. Ég held að reynslan hér á landi, a.m.k. í loðdýraræktinni, hafi sýnt að ekki fór að ganga vel fyrr en farið var að vinna á sama hátt í öðrum búgreinum af bændum sjálfum og í tiltölulega smáum stíl til að byrja með. Því fer víðs fjarri að það sé einhver löstur fyrir þá sem ætla sér að vinna við nýjar búgreinar að hafa þekkingu á öðrum búskap. Segja má að það sé grundvallaratriði.

Augljóst er að það er sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda og neytenda að hafa sem mesta hagkvæmni í búrekstri og vinnslu og dreifingu búvara. Það held ég að bændum sé betur ljóst en öllum öðrum. Þess vegna hafa þeir reynt á undanförnum áratugum að skipuleggja þá starfsemi út frá því sjónarmiði. Öllum ætti að vera augljóst hversu þýðingarmikil skipulagningin er. Það var gerbreyting t.d. þegar Mjólkursamsalan var stofnuð fyrir 50 árum og hver og einn bóndi hætti að flytja mjólk sína til neytandans í Reykjavík, heldur var tekin upp skipulögð vinnsla og dreifingarkerfi. En vissulega hafa viðskiptahættirnir breyst og eru alltaf að breytast. Hv. 3. þm. Reykn. las upp eitt atriði, um skyldu mjólkurbúða til að hafa allar framleiðsluvörur á boðstólum. Um það leyti sem framleiðsluráðslögin voru sett munu það hafa verið sex tegundir af mjólkurvörum sem Mjólkursamsalan framleiddi, en núna eru þær orðnar á annað hundrað. Vissulega er eðlilegt að slíkt lagaákvæði falli niður, enda hygg ég að því hafi ekki verið framfylgt á síðustu árum. Þeim ákvæðum mun verða breytt við þá endurskoðun sem nú stendur yfir eins og vitanlega mörgum þeim ákvæðum sem nú eru í lögunum.

Eins og ég sagði ætla ég ekki að flytja langt mál um þáltill. að þessu sinni, en fullyrði að við þá endurskoðun sem nú er verið að vinna að og kemur fram á Alþingi sem nú situr verður reynt að taka tillit til hinna breyttu sjónarmiða, breyttu aðstæðna. Það verður reynt að samræma sjónarmiðin því að vissulega stangast óskir manna stundum á. Mér fannst það ákaflega athyglisvert sem núverandi landbrh. Dana sagði við mig. Hann mun hafa verið ráðh. u.þ.b. tvö ár. Hann sagði að sín landbúnaðarstefna hefði verið sú að hafa sem allra minnst afskipti af landbúnaði. Samt hefði það orðið hlutskipti sitt að taka upp miklu meiri stjórnun þar en nokkur fyrirrennara hans hefði gert vegna þeirra aðstæðna sem landbúnaðurinn býr við í Danmörku eins og í öllum okkar nágrannalöndum.

Við þeim erfiðleikum sem nú er við að etja verður vitanlega að bregðast af festu og ríkisvaldið verður að styðja eins og kostur er að bændur komist fram úr þeim erfiðleikum. Það er ekki aðeins nauðsynlegt bændanna vegna, heldur þjóðfélagsins alls.