14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

102. mál, framleiðslustjórn í landbúnaði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hefur flutt langa ræðu sem ég mun ekki ræða efnislega að þessu sinni, aðeins víkja að örfáum atriðum. Þessi ræða var hófsamlega flutt, svo sem oft er hjá þessum hv. þm., og ýmislegt var þar réttilega sagt. Á hinn bóginn var annað sett fram með þeim hætti að a.m.k. mátti orka tvímælis. Ég ætla hins vegar ekki að rifja upp þær deilur um landbúnaðarstefnuna sem staðið hafa á undanförnum árum og þátt Alþfl. í þeim deilum og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau smekklegu orð hv. flm., 3. þm. Reykn., að helst hafi ekki mátt víkja að málefnum landbúnaðarins án þess að settir hafi verið ýmsir skriffinnar í að vaða elginn og þeim hafi öllum verið stjórnað af landbúnaðarmafíunni. Ég vil aðeins segja um þetta atriði, þó ég beini því ekki sérstaklega til þessa hv. þm., að ýmsir aðrir en skrifinnar á vegum landbúnaðarins hafa vaðið elginn um landbúnaðarmál með þeim hætti að það hefur orðið þeim sjálfum til vansæmdar. Þó ég sé ekki að kenna þá við eina mafíu eða aðra er mér ekki grunlaust um að undir þetta megi flokka einstaka menn sem tengdir hafa verið Alþfl.

Ég vil hins vegar segja í tilefni af tilvitnunum hv. þm. í greinar Guðmundar Stefánssonar búnaðarhagfræðings og erindi sem þessi starfsmaður bændasamtakanna flutti á ráðunautafundi, að þar er margt mjög vel og réttilega sagt þó að í sumum greinum megi kenna að farið sé nokkuð offari og annað orki tvímælis. Ég tek sem dæmi, án þess að nefna tölur, skiptingu fjármagns, lánsfjár og framlaga á milli hefðbundins búrekstrar og svokallaðra nýbúgreina.

Ég tel, sem kom líka fram í máli hv. 3. þm. Reykn., að við höfum ekki mátt fara hraðar, svo dæmi sé tekið, í uppbyggingu loðdýraræktar hér á landi en gert hefur verið. Við höfum orðið fyrir óhöppum í þeirri grein, minkastofninn, sem var fluttur inn, var sýktur. Við höfum þurft að leggja í mikinn kostnað við að útrýma þeim sjúkdómi. Við höfum varðandi þann þátt loðdýraræktarinnar sem snýr einkum að refarækt og hófst hér á árinu 1979 þurft að byggja upp í landinu sjálfu þekkingu og reynslu sem eru mikilvægustu undirstöður þess að hægt sé að reka þennan atvinnuveg með árangri. Þess vegna var, a.m.k. á þeim árum sem ég var þessum málum kunnugastur, ekki hyggilegt að fara hraðar en gert var í því að byggja upp þessa atvinnustarfsemi meðan við vorum að afla okkur reynslu og þekkingar innanlands. Það er hins vegar svo komið að við höfum þegar náð verulegum árangri á þessum sviðum, reynsla hefur safnast upp, við erum sífellt að öðlast nýja og nýja þekkingu. Ungir menn hafa sótt þekkingu til annarra landa og við höfum byggt upp möguleika innanlands til að mennta menn í þessum greinum. Þess vegna er svo komið að undirstaðan er fengin í loðdýrarækt og við erum að ná meiri tökum á því í krafti þeirrar reynslu og þeirrar menntunar sem við höfum aflað okkur. Á þetta ber að líta þegar horft er til þess hvernig fjármagni hefur verið skipt á milli einstakra greina landbúnaðarins, eins og hér var vitnað til, því að vitaskuld er það svo að þeir sem stunda aðra þætti landbúnaðar en hér er um rætt eru svo margfalt fleiri en þeir sem fram til þessa hafa unnið að loðdýrarækt og hinum svokölluðu nýbúgreinum.

Það er enn fremur skoðun mín að hið opinbera, ríkisvaldið og kerfið, eigi ekki með framlögum og lánveitingum að beita sér fyrir uppbyggingu í t.a.m. loðdýrarækt á eigin vegum umfram það sem gert hefur verið, umfram það sem bændurnir sjálfir vilja standa fyrir. Það á að fylgja eftir því sem fram kemur að frumkvæði bændanna sjálfra, styðja það frumkvæði og gefa því frumkvæði möguleika til að dafna og veita fjármagn í samræmi við það. Hin opinbera uppbygging á ekki að ná lengra en svo að byggja upp eins og gert var með uppbyggingu kennsluaðstöðu á Hólum og. nú síðast, sem er á þessu fjárlagaári, með því að veitt er fé til uppbyggingar loðdýrahúss á Hvanneyri, þannig að þar geti einnig hafist verkleg fræðsla í þessum efnum. Hin opinbera starfsemi á ekki að ná lengra en svo að leggja grundvöll að þekkingaröflun, fræðslu, jafnvel tilraunastarfsemi, svo og að veita eðlilega aðstoð þegar sérstök óhöpp verða eins og í sambandi við sjúkdóma og úfrýmingu þeirra. Að öðru leyti ber að fylgja eftir frumkvæði bændanna sjálfra og gefa bændunum svigrúm. Ég vænti þess að þegar hv. 3. þm. Reykn. skoðar málið frá þessum sjónarhóli séum við sammála því að ég held að hv. þm. sé ekki það mikill krati — hann notaði sjálfur það orð — að hann vilji færa þessa atvinnustarfsemi undir ríkisforsjá.

Hið sama má að verulegu leyti segja um fiskiræktina. Ég beitti mér fyrir því á sínum tíma að veita styrki ýmsum ungum mönnum sem sóttu nám í fiskirækt til annarra landa. Ég hygg að af því hafi orðið verulegt gagn, þessa hafi verið full þörf. Ég beitti mér einnig fyrir því að byggt var upp kennslubú í fiskirækt á Hólum í Hjaltadal sem ég efa ekki að verður og hefur orðið undirstaða þekkingaröflunar í þessari grein. Einnig í þessari grein er það þekkingin, natni, eins og ræðumaður sjálfur orðaði það, og samviskusemi í meðferð þessa rekstrar sem ræður úrslitum um hvernig útkoman verður. Mér er ekki kunnugt um að verulega hafi staðið á lánveitingum í þessari grein fyrr en, eins og hv. ræðumaður nefndi einnig, upp kom deila á milli fulltrúa fiskeldisstöðva í landinu og fulltrúa veiðimála og veiðiréttar annars vegar og Stofnlánadeildar landbúnaðarins hins vegar um greiðslur þessarar greinar landbúnaðarins til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Í ályktunum frá þessari grein landbúnaðarins, þeim sem veiðimálum sinna og þeim sem stóðu að fiskirækt, óskuðu þeir jafnvel eftir að verða leystir undan því að greiða framlög til stofnlánadeildar og þá jafnframt að afsala sér rétti til lána sem stofnlánadeildin veitti og taka sín lán annars staðar. Skömmu áður en ég fór úr landbrn. leysti ég þetta mál til bráðabirgða. Ljóst var að það ástand gaf ekki staðið nema skamma hríð og mér er ekki nægilega kunnugt um hvernig að því hefur verið staðið síðan.

En þarna eru augu manna að opnast æ meir fyrir því að við eigum mikla möguleika, eins og lýst var úr þessum ræðustóli í dag, sem við þurfum að vera reiðubúnir að geta mætt með stuðningi, einkanlega lánsfé, því það er heppilegt, ef við getum byggt upp nýjar atvinnugreinar í landinu, að þær þurfi ekki að byggja á framlögum. Ríkisstj. hefur ákveðið að hluti af því fé, sem svokallaður þróunarsjóður á að fá til ráðstöfunar skv. því sem fram kemur í frv. til lánsfjárlaga og í fjárlögum, renni til nýjunga og hagræðingar í landbúnaði, en þetta fé svarar til 55–60 millj. kr.

Ég held að margt væri hægt að ræða í tengslum við þær tilvitnanir sem fram komu í grein Guðmundar Stefánssonar, en ég skal spara það. Ég vil aðeins undirstrika, sem ég hef í mörg ár lagt á ríka áherslu, ég segi nærri megináherslu á, að öll framleiðsla verður að byggjast á því að hún seljist. Hún hlýtur að verða að byggjast á markaði. Þess vegna ber að sinna markaðnum með nýrri tækni í vinnslu og með sölutækni á þann máta sem frekast er unnt til að geta þjónað markaðnum sem best og nýtt hann fyrir innlenda framleiðslu. Hér á ég bæði við innlendan markað og eins að svo miklu leyti sem framleiðsla okkar landbúnaðar getur orðið gjaldgeng á erlendum markaði. Það hlýtur að verða að byggja á þessum atriðum og vil ég gjarnan undirstrika það sem fram kom í tilvitnunum hv. 3. þm. Reykn.

Hann sagði einnig að vandinn hafi verið sífellt að vaxa síðan 1960. Þarna er nokkuð rúmt yfir farið a.m.k. Það var tekið á þessum vanda að nokkru með lagabreytingum 1979, en síðan með breytingum á þeim lögum og skörpum stjórnvaldsaðgerðum 1980 sem höfðu veruleg áhrif. Þær komu fram í því að innanlandsframleiðsla mjólkur minnkaði úr 120 millj. lítra í 102–103 millj. lítra og var þá við hæfi innlenda markaðarins. Stóð svo í 2–3 ár a.m.k. Það er þess vegna ekki hægt að segja að vandinn hafi sífellt verið að vaxa frá 1960, heldur hefur a.m.k. á þessum hluta vandans verið tekið, þó að nokkuð hafi slakað á aftur á síðasta ári varðandi þessa framleiðslugrein.

Ég held að ég fari ekki út í að ræða efnislega ræðu hv. 3. þm. Reykn. að þessu sinni. Þó kom fram undir lok ræðu flm. að hann hefði heyrt nýverið, eins og hann orðaði það, að nefnd væri að starfi til að endurskoða þau mál sem till. greinir. Þessi nefnd hefur verið að starfi í u.þ.b. eitt ár. Það er mikið vanmat hjá hv. þm. ef hann telur þessi mál það einföld og auðleyst, eins og hér kemur fram í tillgr. sjálfri, að unnt sé að skila niðurstöðum í máli af þessu tagi fyrir 1. apríl 1985. Þó þessi till. flm. kynni að verða samþykkt fyrir miðjan næsta mánuð er það mikið vanmat og sýnir ókunnugleika hans á þessum málum.

Hins vegar vil ég segja að ég tel ekki tilefni til þess að Alþingi kjósi nefnd til að vinna verk sem önnur nefnd á vegum landbrh., á vegum stjórnarflokkanna, er að vinna. Í þeirri nefnd eiga sæti fjórir mætir alþm., sem ég ber fullt traust til, og vinna að þessu verki ásamt aðstoðarmanni hæstv. landbrh. Ég vil a.m.k. sjá hvort niðurstaða þessarar nefndar kemur ekki til okkar áður en önnur nefnd er kosin af hv. Alþingi til að gegna sama hlutverki.

Það var ekki síst þetta sem ég vildi láta koma fram. Hitt er víst og ljóst að nú eru, að ég ætla, allir sammála um, eins og sýnir sig á yfirlýsingum stjórnarflokkanna og á því starfi sem verið er að vinna á þeirra vegum, að nauðsyn er á endurskoðun framleiðsluráðslaganna, sem þessi till. fjallar um, og þeirra mála sem tengjast framleiðsluráðslögunum og framkvæmd þeirra. Ég tel að sú vinna sem í gangi er á vegum stjórnarflokkanna hafi það að markmiði að mæta þeim nýju viðhorfum sem uppi eru í þessum málum. Eins og ég sagði áður ber ég fullt traust til þess að það starf takist, þannig að sú löggjöf sem Alþingi væntanlega afgreiðir að þeirri vinnu lokinni feli í sér að móta nýjan lagaramma um framleiðslustjórn, um verðlagningu, sölumál, sölutækni og markaðsmál landbúnaðarins.

Ég ætla ekki að bæta við þetta þó hér sé um efni að ræða sem gæti kallað á mjög miklar og ítarlegar umr., en aðeins láta þá skoðun mína koma fram að till. þessi er óþörf og virðist flutt — ef ókunnugleiki hv. þm. er ekki meiri en ég ætla — til að æfa sig í ræðuhöldum á hv. Alþingi, en ekki til neins annars.