14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

102. mál, framleiðslustjórn í landbúnaði

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Hæstv. forseti. Ég vona að ekki hafi komið forseta mjög á óvart að ég tæki til máls aftur í þessu máli. (Forseti: Engan veginn. Það var staðreynd að enginn hafði kvatt sér hljóðs, en þess var getið óðar sem hv. þm. gaf merki. En það er ekki sjálfgefið að menn þurfi endilega að tala tvisvar eða þrisvar. Það er í valdi hvers og eins og forseti gengur ekki út frá neinu fyrirfram.) Þetta var bara hugboð.

Herra forseti. Mér fannst það allskrýtið hjá hæstv. ráðh. og öðrum þm. sem hér töluðu og hafa víðtæka reynslu í landbúnaði að þeir skyldu gera það að umtalsefni að hér væri um málaflokk að ræða sem væri eðlilegt að fjallað væri ítarlega um, eins og ég var raunar að gera að umtalsefni að nauðsynlegt væri, en segja jafnharðan að þeir ætluðu samt ekki að gera það. Ég held að það sé mikið atriði að fram fari ítarleg og skynsamleg umræða um þetta mál. Orð þeirra voru mér því í sjálfu sér vonbrigði og mér þykja þau einkennileg þegar menn hafa þá skoðun, eins og kom fram hjá öllum þeim þremur ræðumönnum sem hér töluðu, hæstv. ráðh., hv. þm. Pálma Jónssyni og hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að nauðsynlegt væri að um þetta færi fram ítarleg og skynsamleg umr. Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði ekki vanþörf á að ræða þessi mál, svo að notuð séu hans orð, en að því sögðu kikna þeir niður og segja: Við ætlum nú samt ekki að gera það. Við ætlum ekki að fara hér út í þá ítarlegu umr. sem við teljum nauðsynlegt að fari fram á þessum vettvangi. Í þessu þykir mér felast verulegur þverbrestur og ekki samræmi. Ég hefði einmitt haldið að nauðsynlegt væri að menn ræddu þessi mál ítarlega og málefnalega, eins og ég gerði reyndar að umtalsefni í framsöguræðu minni fyrir þessari þáltill.

Í ræðu hæstv. ráðh. kom ekkert fram um hver væri stefna ráðh. að því er varðaði endurskipan mála sem eru á vegum Framleiðsluráðsins eða endurskoðun laganna um Framleiðsluráð. Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa á þessu einhverja skoðun. Þetta hefði verið eðlilegur vettvangur, staður og stund til að gera grein fyrir því hver stefnan ætti að vera í þessum efnum. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að ráðh. geri þinginu nú grein fyrir því til hvaða áttar eigi að stefna í þessum efnum og ekki eingöngu með þeim óljósu orðum að það eigi að færa sig eitthvað nær nútímanum eða taka meira tillit til aðstæðna eins og þær eru núna. Ég held að mönnum hljóti að vera það forvitnismál hvers konar endurskoðun er að fæðast í þeirri nefnd sem er starfandi á hans vegum. Ég ætla þá líka að segja að ég held að það sé ljóður á starfsháttum í sambandi við nefndir af þessu tagi að menn skuli ekki einmitt hafa uppi opinbera umræðu samtímis. Betur sjá augu en auga og menn hafa gott af því, þegar verið er að fjalla um svona mál, að heyra fleiri sjónarmið, heyra með- og mótrök fyrir hinum ýmsu þáttum og átta sig þannig betur á málinu. Einnig af þeirri ástæðu og til að tryggja framgang skynsamlegri niðurstöðu í þeirri nefnd sem að starfi er hefði verið bæði skynsamlegt og rétt, að ráðh. gerði þinginu og þar með alþjóð grein fyrir því, þar með bændum í landinu og neytendum, hvað sé á döfinni.

Ég skildi reyndar ekki sumt í ræðu hæstv. ráðh. Hann talaði um það í sambandi við loðdýrarækt að menn ættu ekki að líta á það sem löst þó að menn hefðu þekkingu á öðrum búskap. Ég veit ekki hvaðan hæstv. ráðh. hefur það að einhverjir gangi með þá skoðun að ef menn hafi góða þekkingu á sauðfjárbúskap eigi þeir alls ekki að fást við loðdýrarækt. Þetta er alveg þveröfugt við það sem t.d. kom fram í ummælum mínum í umr. um till. sem varðaði sjúkdóma í fiski. Þá gerði ég einmitt að umtalsefni að ýmsir kunningjar mínir í sveit, bændur í sveit, hefðu svarað því til, þegar ég spurði þá hvernig stæði á því að svona áfallagjarnt væri í loðdýrabúskapnum, bæði að því er varðaði minkaræktina og síðar í refaræktinni, að það væri svo rík tilhneiging til að setja búskussana í þessar nýju greinar. Þeir, sem hefði ekki gengið vel í sauðfjárbúskap eða öðrum hefðbundnum búskap væru þá kannske styrktir eða studdir til að hefja búskap í hinum nýju greinum, en búskussar væru alltaf búskussar. Þetta sögðu vinir mínir, sem ég hef hitt, til sveita. Nú er fyrir þá sem þykjast hafa og ég veit að hafa mikla þekkingu á þessu sviði að svara fyrir hvort þetta feli í sér að ég telji það einhvern löst í sambandi við loðdýrarækt að menn hafi þekkingu á öðrum búskap. Ég tel svo ekki vera þvert á móti. Það er líka fyrir þá sem þekkingu hafa á þessu sviði að upplýsa hvort hér sé um rétta tilgátu að ræða, sem ég varpaði hér fram vegna þess að ég hafði heyrt hana, að hluti af skýringunni væri þessi.

Hvað sem því líður kom fram að þeir þm. Stefán Valgeirsson og Pálmi Jónsson og ég held líka hæstv. ráðh. voru sammála mér um að það þyrfti natni og þekkingu í þessari búskapargrein alls ekki síður en öðrum. Af þeim orsökum sagði hv. þm. Pálmi Jónsson að það hefði legið í orðum mínum, sem rétt væri, að ekki hefði mátt fara hraðar í uppbyggingu í loðdýraræktinni en gert hefði verið. Það getur vissulega verið rétt. En í fyrsta lagi hefðu menn getað byrjað fyrr og í öðru lagi fer ég ekki ofan af þeirri skoðun minni að menn hefðu getað byrjað öðruvísi. Menn hefðu getað byrjað á því að afla þeirrar þekkingar, vitneskju og rannsókna sem voru grundvöllur þess og forsenda að vel tækist til. Sú fjárfesting sem menn hefðu lagt í af þeim sökum þurfti ekki að hlaupa á mörgum hundruðum eða tugmilljónum kr., en hún hefði áreiðanlega skilað sér mjög vel. Eins er það í sambandi við fiskiræktina. Við erum búin að tala hér um fiskirækt í meira en áratug en að því er þekkingaröflunina varðar, að því er menntunina varðar, að því er „uppeldið“ varðar til þess að stunda þennan búskap höfum við farið hræðilega hægt af stað. Ég tel það ekkert stórvirki þó að sett hafi verið upp deild við Bændaskólann á Hólum í fiskeldi. Aðalatriðið er að þeir sem fara í þessa starfsemi eigi kost á því að læra til þess sem um er að ræða.

Þeir gerðu það báðir að umtalsefni, hæstv. landbrh. og hv. þm. Stefán Valgeirsson, að fyrir 1960 hefði verið leyft að hækka verð innanlands vegna útflutnings, en síðan hefðu verið sett ný lög, sem Alþfl. stóð að, varðandi útflutningsbætur. Þetta er rétt. Ég hef aldrei mótmælt því. Ég skal ekki um það segja hversu skynsamlegt þetta hafi verið fyrir næstu árin, 1960–1965. Hins vegar var alveg ljóst að árið 1965 var komið fram hversu varasamt þetta væri. Það var þegar árið 1965, fyrir 20 árum, komið fram hversu vafasamt og varasamt þetta væri. Fyrir 20 árum, hugsið þið ykkur! Það er kannske ekkí nema von að hv. þm. Stefán Valgeirsson tæki svo til orða að tíminn frá 1959 hefði ekki verið notaður sem skyldi.

Það er nefnilega mergurinn málsins. Og þetta er að gerast aftur og aftur hjá okkur. Tíminn er illa notaður, menn horfa ekki fram á veginn.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði líka að umræðuefni að ég hefði spurt hvort í þeirri endurskoðun sem væri í gangi á vegum hæstv. landbrh. væru þá ekki einhverjir nýir menn með ferskar hugmyndir. Ég endurtek þá skoðun mína að það sé nauðsynlegt. En ég gerði auðvitað ekki ráð fyrir því að þarna væru að verki einhverjir heimskingjar sem ekkert skildu, eins og mér fannst liggja í orðum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar þegar hann sagði að nauðsynlegt væri að mennirnir hefðu innsýn og að þeir skildu það sem um væri verið að fjalla. Annaðhvort væri nú! Það er grundvallaratriði. Mér finnst ekki að menn geti verið með svona málflutning, hv. þm. Stefán Valgeirsson. Ég verð reyndar að segja að þarna finnst mér brydda á því, sem menn hafa oft fengið að heyra ef þeir hafa vogað sér að tala um landbúnaðarmálefni, að þeir hefðu ekkert vit á því ef þeir voru ekki úr þeim kjarna sem hefur ráðið málum í þessari grein á undanförnum árum og áratugum. Það hefur að mínum dómi verið röng nálgun hjá þeim sem hafa verið í forsvari í landbúnaðinum. (SV: Þú hefur ekki hlustað á málflutning minn.) Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér áðan að það væri ekki vanþörf á að ræða þessi mál ef reynt væri að fara ofan í saumana á þeim vandamálum sem blasa við. Og það er það sem ég hef verið að biðja um. En síðan veigra menn sér við að ræða málið, þ. á m. hv. þm. Stefán Valgeirsson.

Hæstv. landbrh. gerði hér aðeins að umtalsefni að hann hefði skipað nefnd í þetta mál og víst hafði ég heyrt það nefnt áður og gat þess í framsöguræðu minni. Það var reyndar rangt með farið hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að ég hefði sagt að ég hefði einungis nýverið heyrt um þessa nefnd. Ég tók svo til orða að ég hefði nýlega heyrt um að hún væri að störfum, en ég hefði að vísu oft heyrt það áður að hún væri að störfum og hún væri rétt að ljúka störfum. Og það getur vel passað við það að nefndin sé ársgömul eða rúmlega það. Sannleikurinn er sá að annað veifið, þegar menn taka hér einhver mál upp til umfjöllunar, hvort heldur það er þetta mál eða annað, þá er ævinlega viðkvæðið að nefnd sé að störfum og hún sé alveg að ljúka við. En það vill stundum dragast. Stjórnarskrárnefnd er búin að vera að störfum í 40 ár svo að dæmi sé tekið. Þar er líka ein nefndin sem er alltaf að störfum allt árið að ljúka sér af. En ekkert hefur gerst.

En í sambandi við þessa umræddu nefnd.langar mig til að ítreka þá spurningu til hæstv. landbrh. sem ég bar fram hér áðan og ég skal þá bera hana fram með öðrum hætti. Ég spurði: Hvaða aðilar eru í þessari nefnd, hverjir eru í nefndinni? Eru það fulltrúar neytenda? Eru það fulltrúar kerfiskarlanna eða eru það nýir menn með ferskar hugmyndir? Nú vil ég bara fá að vita nöfnin á þessum mönnum. Ef ekki er hægt að svara spurningunni eins og hún var borin fram í upphafi, þá vil ég fá að vita nöfnin á þeim aðilum sem sitja í þessari nefnd svo að ég geti þá dæmt um það sjálfur í hvaða kategóríu eða flokki þeir eigi heima af þeim flokkum sem ég nefndi.

Í máli hæstv. ráðh. kom fram að kollegi hans í Danmörku hefði sagt að hann vildi hafa sem minnst afskipti eða sem minnsta stjórnun í landbúnaðarmálum en hefði þó neyðst til harðari stjórnunaraðgerða en nokkur af forverum hans. Ég spyr nú hæstv. ráðh.: Er þetta líka skoðun núv. hæstv. ráðh., að það sé skynsamlegt að hafa sem minnst afskipti og sem minnsta stjórnun í þessari grein? Við skulum a.m.k. spyrja hvort hann vilji hafa stjórnunina sem einfaldasta og skýrasta. Það skiptir máli í þessu sambandi vegna þess að flóknari lög með eins mörgum ákvörðunum og margbreytilegum og eru í þessum framleiðsluráðslögum er varla að finna. Þær eru slíkur frumskógur að ýmsir þeir sem eru vel að sér í efnahagsmálum hafa hreinlega játað það fyrir mér að þeir botni ekki í því hvernig það sé allt framkvæmt sem í lögunum standi. (Gripið fram í: Það er ekki allt framkvæmt.) Það var nefnilega það. Það væri kannske ráð að fá svolítið yfirlit yfir það hvað væri framkvæmt og hvað ekki.

En það er svolítið skrýtið með lögin því að hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að Stofnlánadeildin yrði auðvitað að fara eftir lögum og þess vegna gæti hún ekki veitt lán til þeirra sem ekki greiddu gjöld til deildarinnar. En hæstv. landbrh. sagði að tiltekin grein, sem væri í lögunum, væri auðvitað svo vitlaus að það væri ekki farið eftir henni. Hún er um það að í öllum þeim verslunum, ekki bara mjólkurbúðum, en í öllum þeim verslunum sem hefðu mjólkurafurðir til sölu skyldi selja allar þær vörutegundir sem mjólkursamsölurnar á viðkomandi svæði hefðu upp á að bjóða.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það að þetta er afskaplega vitlaus lagagrein miðað við núverandi aðstæður. En ég held að það gildi bara nákvæmlega sama um lagagreinina sem hv. þm. Stefán Valgeirsson var að vitna í. Hún er alveg hræðilega vitlaus og hefur líklega alltaf verið, ekki bara núna, vegna þess að ef menn ætla að stuðla að framþróun í greininni verða menn auðvitað að vera reiðubúnir að veita fjármagn í þær nýjungar sem eru að koma upp. Og það sem nýtt er getur ekki hafa greitt áður til sjóðsins.

Hv. þm. Pálmi Jónsson, sem ég veit nú reyndar ekki hvort er hér í húsinu lengur, sagði að ég hefði sagt að vandinn væri sífellt að vaxa. Og það var á hv. þm. Pálma Jónssyni að skilja að þar færi ég rangt með því hann hefði minnkað. Það er rétt að offramleiðslan í mjólk og kjöti er ekki jafnmikil núna og hún var 1978. En vandinn í landbúnaðinum er ekkert minni núna en áður að ýmsu öðru leyti. Þetta verður ekki bara mælt í mjólkurstöðuvötnum, smjörfjöllum eða kindakjötshólum. Þetta verður líka mælt í afkomu bændastéttarinnar. Og við skulum bara sjá hvað Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóri hefur um þetta að segja, hvort vandinn hafi stórlega minnkað. Hann hefur minnkað á einu sviði en hann hefur líka verið fluttur til, því að Hákon Sigurgrímsson segir í grein í Tímanum 12. febr., og hún mun vera ættuð af þessari sömu ráðstefnu búnaðarráðunauta og sú grein sem ég vitnaði til hér áðan:

„Bændur hafa verið neyddir til þess að draga úr framleiðslunni án þess að geta hækkað verð afurðanna eins og þurft hefði til þess að mæta tekjutapinu.

Hækkanir rekstrarvara og launa hafa á undanförnum misserum verið það miklar að þær, ásamt minnkandi niðurgreiðslum, hafa fullnýtt verðþol búvaranna.

Ekkert svigrúm hefur verið til þess að velta áhrifum samdráttarins út í verðlagið. Það hefur því að mati forustumanna bænda verið skárri kostur fyrir bændastéttina fram að þessu að taka á sig tekjutapið vegna samdráttarins en að eiga á hættu stórfelldan samdrátt í búvörusölunni vegna of hás verðlags. En að mínu mati hefur þessi gata nú verið gengin á enda. Bændur hafa dregist svo aftur úr öðrum stéttum tekjulega að ekki verður lengur við unað.“

Og hefur þá vandinn bara horfið og gufað upp eins og hv. þm. Pálmi Jónsson var að tala um hér áðan? Ekki aldeilis. Hann brennur aldeilis á baki bændanna núna. Ég hef orðið margoft var við það að þeir eru margir í öngum sínum yfir því ástandi sem ríkir vegna þess að framleiðslustjórnunin tekur ekki nema á takmörkuðum þáttum.

En það er athyglisvert að líta á þessa grein Hákonar Sigurgrímssonar varðandi önnur atriði. Hann segir t.d. varðandi hagkvæmni: „Andvaraleysi verðbólguáranna varðandi fjárfestingar, kaup á aðföngum og um mat á því hvað hagkvæmt er verður að hverfa. Þetta á einnig við um sölukerfi landbúnaðarins sem ekki hefur enn lagað sig að þeim breyttu aðstæðum sem samdráttur í framleiðslunni skapar.“

Það var helst að skilja hér áðan á orðum Stefáns Valgeirssonar að menn ættu ekkert að vera að tala um hvernig þetta væri hjá vinnslustöðvunum, þetta væri allt svo gott, og því um líkt. Menn gætu fengið að endurskoða reikningana, Alþingi gæti fengið að endurskoða reikningana og þar fram eftir götunum. Það væri ekki ástæða til að vera með neina gagnrýni. Ég er ekki einn með þessa gagnrýni. Hún hefur komið hér fram frá Hákoni Sigurgrímssyni framkvæmdastjóra meðal annarra. Ég veit ekki betur en hann sé í trúnaðarstöðu hjá samtökum bænda. Gripið fram í: Og Framsfl. líka.) Það getur vel skeð. Ég skipti mér ekki af því hvar menn eru í pólitík ef þeir skrifa skynsamlega. Hann ber að vísu ákveðinn ugg í brjósti varðandi þær breytingar, sem hann telur nauðsynlegt að verði gerðar, og segir að örfáir áhrifamiklir einstaklingar í bændastétt hafi snúist gegn sumum grundvallaratriðum stefnunnar þar sem þeir telji að þau komi um of við eigin pyngju. En ég ætla að vona að það verði ekki einhverjir slíkir sérhagsmunir sem ráði ferðinni og verði til þess að bregða fæti .fyrir þá endurskoðun sem er nauðsynleg í greininni.

En Hákon Sigurgrímsson bendir líka á það að ýmislegt, sem menn hafi lagt til grundvallar, geti nú orðið erfitt að halda sig við. Hann segir: „Eins og áður er vikið að hefur landbúnaðarstefnan fram til þessa einkennst af ríkri viðleitni til þess að viðhalda byggð í landinu.“ Svo segir hann: „Ljóst er að við þær aðstæður, sem nú hafa skapast, er ekki hægt að hafa það sjónarmið í öndvegi í jafnríkum mæli og hingað til. Byggðastefnu er ekki hægt að reka á kostnað bændastéttarinnar einnar. Sá samdráttur, sem þegar er orðinn í hinum hefðbundnu búgreinum, gerir það að verkum að ekki eru lengur verkefni og viðunandi tekjumöguleikar fyrir alla þá sem nú vinna við þessa framleiðslu.“

Þetta er vandamálið miðað við þessi orð framkvæmdastjórans. Ég held að ég haldi mig alveg fast við það að vandamálið hafi farið sívaxandi allar götur síðan 1965.

Í orðum hv. þm. Pálma Jónssonar kom líka fram harla einkennilegt atriði. Hann var að velta því fyrir sér hvort ég mundi ekki vera talsmaður þess að ríkið færi að reka refabú og minkabú. Ja, ég gat ekki skilið manninn öðruvísi. Hann sagði að kerfið ætti ekki að beita sér fyrir uppbyggingu á eigin vegum, að opinber uppbygging ætti ekki að ná lengra en að afla þekkingar og veita aðstoð í áföllunum. Í framhaldi af þessu fór hann að tala um ríkisrekstur og því um líkt. Ég skil ekki hvaðan maðurinn hefur þetta. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma látið að því liggja, og fjarri er það mér að ætlast til þess, að ríkið færi að reka refabú eða minkabú. Ég veit ekki hvaðan maðurinn hefur þetta.

En það er annað. Hann sagði að landbúnaðurinn ætti ekki að vera undir ríkisforsjá. Vel að merkja. Gefur ekki verið að það sé einmitt það sem hefur verið að hjá okkur að landbúnaðurinn sé og hafi verið undir allt of mikilli ríkisforsjá? Allir þeir framleiðslustyrkir, ræktunarstyrkir, skurðgraftarstyrkir o.s.frv., sem ég gerði hér að umtalsefni áðan og búnaðarhagfræðingurinn gerði að umtalsefni, er það ekki ríkisforsjá? Eru útflutningsbæturnar ekki ríkisforsjá? Það skyldi þó ekki vera að það væru einmitt þeir sem hafa ráðið mestu í þessum efnum, þm. Sjálfstfl. og Framsfl., sem hafi stefnt landbúnaðinum í allt of mikla ríkisforsjá við vaxandi og stöðuga gagnrýni frá Alþfl.? Það skyldi þó ekki vera? (SV: Viltu ekki telja Alþfl. með?) Það er ríkt í huga hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að Alþfl. hafi haft áhrif á landsstjórnina á áratugnum frá 1960–1970, sem var að mörgu leyti ágætt skeið. (SV: Menn gleyma því.) En þm. ætti þá ekki heldur að gleyma því að Alþfl. varaði við því strax á miðjum 7. áratugnum, fyrir 20 árum, að það kerfi sem við byggjum við væri gallað og varasamt og að sú ákvörðun, sem hann hefði staðið að 1960, væri varasöm. Það sagði Alþfl. strax þá og hann er búinn að segja það í 20 ár. Ég held að það væri gott ef einhverjir aðrir viðurkenndu mistök sín og tækju til hendinni í því sem þarf að gera frekar en halda sig alltaf við einhverja atburði sem gerðust fyrir 30–40 árum.

Herra forseti. Það kom líka fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar að hann teldi að sú till. sem hér væri flutt væri óþörf. Ég er ekki sammála honum. Mér er alveg sama þó að það sé í gangi einhver endurskoðun á vegum rn. Í svona mikilvægum málaflokki tel ég að það sé fyllsta ástæða til þess fyrir þingið að fara að eigin frumkvæði ofan í saumana á þessu máli. Auk þess hefur maður orðið þó nokkra reynslu af því að hvenær sem mál eru borin upp af ýmsu tagi hér á þinginu og þingið hefur áhuga á því að láta rannsaka þau, setja í þau nefnd, þá á að afgreiða það með því að það sé einhver nefnd að störfum og hún sé alveg að klára. Þetta geta menn þulið hér ár eftir ár án þess að menn sjái nema stöku sinnum einhvern árangur af því.

Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðh. um að hann geri grein fyrir því hverjir eru í þessari nefnd, sem er starfandi í þessu máli, og geri þinginu grein fyrir því hver skoðun hans sé um það í hvaða átt eigi að þróa þessi mál, hver sé stefna hans varðandi þá uppstokkun sem hann stendur þó fyrir.

Það er líka annað í þessu efni. Meðan ekki liggur fyrir hver sú stefna sé, sem verið er að vinna að í nefndinni, höfum við ekki hugmynd um hvort hún er að skapi þingsins. Það er fráleitt að þingið láti afgreiða sig með því að það sé einhver nefnd að störfum sem enginn veit hvað er að gera eða hvert er að stefna eða hvað hún vill. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess, hvað sem öllu líður, að samþykkja þessa till.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál, herra forseti. En ég hefði gjarnan kosið að þeir ræðumenn sem tóku hér til máls og þeir sem mest vit hafa á þessum málum hefðu látið ljós sitt skína vegna þess sem þeir sögðu sjálfir um nauðsyn þess að fram færi ítarleg umr. um málin. Það er ég sannfærður um að ítarleg og skynsamleg umr. um þetta mál er landbúnaðinum til framdráttar og þjóðinni til heilla rétt eins og samþykkt þessarar þáltill. gerir ráð fyrir.