14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

204. mál, geymsla kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði, sem liggur hér fyrir á þskj. 239 og er 204. mál þingsins. Meðflm. mínir eru hv. þm. Páll Pétursson, Stefán Benediktsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Geir Gunnarsson. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að löggjöf um bann við geymslu og notkun á hvers konar kjarnorkuvopnum hér á landi, jafnt á tímum friðar sem ófriðar. Bannið nái einnig til siglinga með kjarnorkuvopn, flutninga í lofti eða á annan hátt um eða yfir íslenskt yfirráðasvæði.

Í samræmi við ófrávíkjanlega yfirlýsingu Alþingis um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á Íslandi verði aldrei staðsettar í landinu hersveitir sem sérþjálfaðar eru í meðferð kjarnorkuvopna, né heldur neinum þeim búnaði fyrir komið sem nauðsynlegur er fyrir notkun þeirra.

Kveðið verði sérstaklega á um að eftirlit af Íslands hálfu með framkvæmd laganna verði tryggt.“

Við lifum í heimi sem er í vissum skilningi kominn á lánaðan tíma þar sem nú hafa um alllangt skeið staðið tveir risar sinn hvoru megin okkar og Atlantshafsins og hlaðið upp sífellt stórfelldari eyðingarvopnum sem fyrir löngu eru orðin nægilega máttug til að tortíma öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum á örfáum klukkustundum. Þetta er ógnvekjandi staðreynd sem ekkert mannsbarn getur látið afskiptalausa. Síst af öllu við Íslendingar sem erum flækt inn í þennan ljóta leik vegna þátttöku okkar í hernaðarbandalagi.

Til eru að vísu þeir sem mæla kjarnavopnum bót. Þeir segja sem svo að tilvist þeirra hafi haldið friðinn í stórum hluta heims allt frá síðustu heimsstyrjöld, að ógnarjafnvægið, hræðslan við tortímingarmátt andstæðingsins, hafi komið í veg fyrir heljarglímu risanna. Fyrir þessu kann að vera unnt að færa einhver rök, en hljóta ekki allir menn að vera sammála um að núverandi þróun getur aðeins leitt til glötunar? Ef vígbúnaðarkapphlaupið heldur áfram á þeim aukna hraða sem Reagan-stjórnin hefur nýverið lofað, vopnakerfin verða sífellt fullkomnari og flóknari, hlýtur þá ekki í sífellu að aukast hættan á því að kjarnorkustyrjöld hefjist, annaðhvort af slysni eða vegna þess að einhverjir hreinlega þoli ekki spennuna lengur?

Kjarnavopn eru glæpur gegn mannkyninu, tilvist þeirra er óþolandi ógnun við allt líf á jörðinni. Við skuldum börnum okkar og afkomendum öllum að gera hvað við getum til að beina risaveldunum af þeirri braut sem þau eru nú á og aðeins getur leitt til tortímingar. Um þetta hygg ég að flestir Íslendingar geti verið sammála. Þeir eru líka sammála um að kjarnorkuvopn skuli ekki vera á Íslandi né þeim beitt héðan til árásá á önnur lönd. Fyrir því liggja bæði skoðanakannanir um vilja þjóðarinnar svo og margendurteknar yfirlýsingar ráðamanna allt frá því að herstöð var komið á fót á Keflavíkurflugvelli. Við erum ekki sammála um herstöðina en því ber að fagna að við getum a.m.k. sameinast um að hún skuli ekki vera kjarnorkumiðstöð. Þess vegna ættu allir að geta sameinast um þá till. sem hér liggur fyrir.

En þá munu menn spyrja: Er nokkur þörf fyrir slíka till.? Er ekki Ísland kjarnorkulaust svæði hvort sem er? Hæstv. utanrrh. mun vafalaust standa hér upp og fullyrða að svo sé. Hér séu ekki og muni ekki verða kjarnorkuvopn nema með leyfi Íslendinga. Þetta kann að vera rétt að vissu marki, en þar með er ekki allt sagt ef Íslendingar vilja vera sjálfum sér samkvæmir í þeirri stefnu sem Ólafur Jóhannesson orðáði svo á Alþingi 1979, með leyfi forseta: „Eitt grundvallaratriði varnarmálastefnu Íslands er að þar verði ekki staðsett kjarnavopn nema með leyfi Íslendinga.“ Þá verða þeir að fjarlægja undanþágumöguleikann, koma í veg fyrir að hægt verði að veita slíkt leyfi. Ég held að það væri flestum Íslendingum óbærileg tilhugsun að slíkt leyfi yrði hugsanlega veitt. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að rétt sé að fyrirbyggja að unnt sé að veita það. Auk þess höfum við enga tryggingu fyrir því að Bandaríkjamenn spyrðu okkur leyfis ef í harðbakkann slær, einkum með tilliti til þeirrar staðreyndar að það er ófrávíkjanleg stefna Bandaríkjanna að segja bandamönnum sínum ekki sannleikann um hvar þeir staðsetja kjarnavopn.

Mergurinn málsins er sá að herstöðin á Miðnesheiði hefur á margvíslegan hátt verið búin undir það að taka við kjarnavopnum og beita þeim. Meðan svo er hefur íslenska þjóðin enga tryggingu fyrir því að svo kunni ekki að fara að land þeirra verði gert að kjarnorkuherstöð þvert ofan í allar yfirlýsingar stjórnvalda. Ég vil aðeins rekja nokkur atriði varðandi þennan kjarnorkubúnað.

Á Keflavíkurflugvelli hafa nýlega verið staðsettar 18 orrustuvélar af gerðinni F 15, en þær geta borið kjarnavopn.

Í öðru lagi eru þar staðsettar 9 P3C Orion kafbátaleitarvélar sem geta borið kjarnorkudjúpsprengjur af gerðinni B-57, en þær er einnig hægt að búa Harpoon stýriflaugum með kjarnaoddum.

Í þriðja lagi eru vopnageymslur fyrir B-57 kjarnasprengjur í herstöð einni sem Macrihannish heitir á Vestur-Skotlandi.

Bandaríkjaforseti hefur gefið sérstaka heimild til þess að 48 B-57 sprengjur verði fluttar til Íslands á stríðstímum. Tilvist þessarar heimildar hefur ekki verið vefengd heldur einungis endurtekið þetta ónýta loforð um að Bandaríkjamenn muni ekkert gera nema með leyfi Íslendinga og mun ég aðeins koma að því síðar.

Þessi heimild hefur í för með sér að á Keflavíkurflugvelli er fyrir hendi aðstaða til að taka við þessum kjarnavopnum og beita þeim, m.a. sérstök sprengjubyrgi og sérþjálfaður mannafli. Bandaríkjamenn hafa gert áætlanir um að framleiða yfir 4000 stýriflaugar sem sumar verða búnar kjarnaoddum til að koma fyrir um borð í skipum og kafbátum. Stórum hluta þessara vopna verður komið fyrir í hafinu kringum okkur sem hernaðaráætlanir og framkvæmdir Bandaríkjanna eru að gera að einu almesta spennusvæði austurs og vesturs.

Af þessu má sjá að herstöðin á Miðnesheiði er í eðli sínu kjarnorkustöð, hvað sem yfirlýsingum íslenskra og bandarískra stjórnvalda líður. Till. okkar um að gera Ísland að kjarnorkuvopnalausu svæði er fram komin vegna þessara staðreynda, vegna þess að við teljum að það sé eina leiðin til að Ísland verði í raun kjarnorkuvopnalaust land, en einnig vegna þess að við teljum að brýna nauðsyn beri til að sporna gegn því æðisgengna vígbúnaðarkapphlaupi sem er að færa mannkynið fram á ystu nöf. Framlag Íslands gæti þá m.a. verið að lýsa landið kjarnorkuvopnalaust svæði. Sú aðgerð yrði að fela í sér algera tryggingu fyrir því að hér verði aldrei notuð kjarnavopn undir nokkrum kringumstæðum.

En hvað er kjarnorkuvopnalaust svæði? Um það eru nokkuð skiptar skoðanir hvað raunverulega eigi að felast í samkomulagi um slík svæði. En það er ljóst að fyrir Íslendinga mundu einhliða yfirlýsingar stjórnvalda vera harla gagnslitlar. Ég vil leyfa mér að setja hér fram skilgreiningar á lágmarkskröfum um kjarnorkuvopnalaus svæði sem Jens Evensen notaði í fyrirlestri árið 1982. Skilyrði hans eru m.a. þessi:

„Það eða þau ríki sem ákveða að gerast kjarnorkuvopnalaus svæði taka á sig þjóðréttarlega skyldu til að framleiða ekki kjarnavopn né staðsetja þau á landsvæði sínu né leyfa öðrum ríkjum að staðsetja þau á landsvæði sínu, hvort sem er í lofti, láði eða á landi. Kjarnorkuveldin verða á móti að skuldbinda sig til að virða hið kjarnorkuvopnalausa svæði og lofa að beita ekki kjarnavopnum né hótunum um notkun þeirra gegn löndum á svæðinu. Koma verður upp alþjóðlegu eftirlitskerfi til að tryggja að allir aðilar standi við skuldbindingar sínar. Nota þarf hin kjarnorkuvopnalausu svæði til að skapa í heiminum slökunarástand, létta spennunni af vissum heimshlutum og búa þannig í haginn fyrir batnandi samskipti þjóða og viðræður sem gætu leitt til afvopnunar.“

Þessi sjónarmið Evensens eru bæði skiljanleg og skynsamleg, en vígbúnaðarkapphlaupið æðir áfram. Jafnvel frá því að þessi fyrirlestur var fluttur hafa sjónarmið manna breyst og þjóðþing þriggja Norðurlandanna hafa nú samþykkt að lýsa lönd sín kjarnorkuvopnalaus svæði, Danmörk, Færeyjar og Grænland. Markmiðið er að Norðurlöndin öll verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði og þegar hefur verið lögð fram till. til þál. um að kjósa nefnd til að kanna hugsanlega þátttöku Íslands í umr. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Ég er meðflytjandi þeirrar till. en lít á hana sem varatill. nái sú till., sem ég mæli hér fyrir, ekki fram að ganga, þar sem ég lít svo á að hún nái allt of skammt. Ég tel að umr. um þessi mál sé nær tæmd. Ég held að nú sé kominn tími til aðgerða.

Á fjölmörgum fundum með Norðurlandaþjóðum hefur sú skoðun komið fram að torvelt sé að hafa Ísland með í kröfu Norðurlandaþjóða um að Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Ástæðan er sú að Ísland er eina landið sem hefur herstöð í landi sínu og það herstöð annars stórveldisins. Þeim mun mikilvægara er þá að fyrir liggi skýr vilji Alþingis um að í þeirri herstöð séu ekki og verði ekki kjarnorkuvopn á friðartímum né ófriðar. Um þetta hljóta allir að geta verið sammála og þar til nýlega töldu stjórnvöld þetta eflaust tryggt. En koma Williams Arkins til Íslands fyrir nokkrum mánuðum breytti þeirri fullvissu í óvissu og uppljóstranir hans um leyfisveitingar bandarískra stjórnvalda um flutning kjarnorkuvopna til landsins eru enn á dagskrá, nú síðast í stórblaðinu The New York Times miðvikudaginn 13. febr., þ.e. í gær. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Bandaríkin hafa gert áætlun um að flytja kjarnorkuvopn til Kanada, Íslands, Bermúda og Puerto Rico á hættutímum að sögn embættismanna Reagans-stjórnarinnar og skv. opinberum skjölum þar sem áætlunin er sett fram.“

Nýlegar fréttir í erlendum blöðum um að áætlanir þessar séu til staðar hafa skapað vandræði í Washington vegna þess að bandarískir embættismenn höfðu ekki upplýst viðkomandi stjórnvöld um málið. Tilvist áætlananna var staðfest fyrir stjórnvöldum í viðkomandi löndum eftir að blöð höfðu skrifað um málið að sögn embættismanna í Washington jafnvel þótt áætlanirnar hafi verið í gildi í allt að áratug. Enn fremur segir þar:

„Skv. fréttum afhenti herra Arkin Steingrími Hermannssyni forsrh. Íslands leyndarskjölin um kjarnorkuvopnaflutninginn frá 1975 snemma í desember 1984 og hann krafðist opinberlega skýringar frá Washington. Þann 7. desember sagði Geir Hallgrímsson utanrrh. Íslands að ef bandarískur forseti hafi gefið heimild til slíkra vopnaflutninga, þá væri það „hreint brot á varnarsáttmálanum“ á milli landanna. Þar átti hann við samkomulagið frá 1951 um herstöðina í Keflavík, þar sem segir m.a.: „Þjóðernisleg samsetning herafla og þau skilyrði, sem honum er gert að hlíta við notkun aðstæðna á Íslandi skv. þessum samningi, skulu ákvarðast í samkomulagi við Ísland.“

Embættismenn í Washington sögðu að Ísland hefði kannað afstöðu Danmerkur og Noregs varðandi uppsetningu kjarnorkuvopna á hættutímum, og komist að því að þau mundu geta samþykkt slíkt, en ekki án sérstakrar samþykktar.

Embættismenn í Washington sögðu að þeir væru ekki vissir í sinni sök um afstöðu Íslands til hugsanlegrar uppsetningar vopnanna, en þeir töldu þó að íslensk stjórnvöld teldu sig hafa fengið næga skýringu.“

Þetta segir í grein í stórblaðinu The New York Times, en hana skrifar Leslie H. Geld, fyrrv. háttsettur embættismaður í utanrrn. Carters, fyrrv. Bandaríkjaforseta. Í lok greinarinnar segir, með leyfi forseta, ég tel ástæðu til að leyfa mönnum að heyra þetta:

„Þegar embættismenn stjórnarinnar voru spurðir að því í dag hvernig stjórnvöld í Washington mundu bregðast við frekari uppljóstrunum um kjarnorkuvopnaáform Bandaríkjanna, sögðu þeir að sendiráðum Bandaríkjanna í öllum löndum þar sem kjarnorkuvopn eða ákvörðun um slík vopn væri til staðar hefðu verið sendar eftirfarandi leiðbeiningar:

„Eins og við höfum oftar en einu sinni lýst yfir opinberlega, þá er það stefna bandarískra stjórnvalda varðandi uppsetningu kjarnorkuvopna í öðrum löndum að hún sé í fullu samræmi við fyrirliggjandi tvíhliða samninga á milli ríkjanna og í samræmi við ákvörðun þjóðarleiðtoga NATO-ríkjanna sem samþykkt var í París 1967, þar sem ákveðið var að „uppsetning þessara vopnabirgða og eldflauga og aðstaða til notkunar þeirra verði ákveðin í samræmi við varnaráætlanir NATO og með samkomulagi við viðkomandi ríki.“

Embættismennirnir sögðu að m.ö.o. væri bandaríska stjórnin að segja að héðan í frá muni hún upplýsa, hafa samráð og leita tilskilins samþykkis viðkomandi ríkisstj. fyrir öll áform um uppsetningu kjarnorkuvopna á hættutímum.“

Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi ef þeim er unnt að treysta. Menn hafa talað hér um að óþarfa mál hefði verið gert hér á hinu háa Alþingi vegna komu Williams Arkins. Ég held að menn hljóti nú að endurskoða þá afstöðu verulega. Við Íslendingar skulum ekki láta neinn veikjast í vafa um hver er vilji okkar í þessum efnum. Við skulum ekki láta embættismenn í Washington halda að við teljum okkur hafa fengið nægar skýringar.

Það er ljóst að Bandaríkjastjórn hefur farið gróflega á bak við íslensk stjórnvöld í öllum atriðum varnarsáttmálans. Hún hefur nú viðurkennt til hvers Orion-P3 eldflaugarnar á Keflavíkurflugvelli eru ætlaðar og þess vegna verður að krefjast að þær verði fjarlægðar nú þegar.

Þess verður einnig að krefjast að rannsókn fari fram á öllum framkvæmdum bandaríska hersins á Íslandi með tilliti til hugsanlegrar nýtingar á þeim til notkunar eða geymslu kjarnorkuvopna. Um þetta getur ekki verið neinn ágreiningur. Enginn Íslendingur vill lána land sitt undir gereyðingarvopn og mér dettur ekki eitt augnablik í hug að það vilji stjórnvöld heldur. En það er ljóst að við stöndum höllum fæti við að fylgjast með því sem stórveldin hafa í hyggju og ég held að það hljóti að vera sjálfsögð krafa allra Íslendinga að fenginn verði erlendur óháður aðili eða aðilar til að ganga úr skugga um hvað raunverulega fer fram á Keflavíkurflugvelli.

Það er ljóst að vilji norrænna stjórnmálamanna til að lýsa Norðurlönd kjarnorkuvopnalaust svæði fer ört vaxandi. Ráðstefna, sem haldin var að frumkvæði danskra jafnaðarmanna undir leiðsögn Anker Jörgensen í Kaupmannahöfn á s.l. ári, var til marks um það. Á fundi nú á dögunum létu jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum og norræn verkalýðssamtök, samtök sem kalla sig SAMAK, frá sér fara yfirlýsingu þess efnis að ríkisstjórnir Norðurlandanna ættu nú þegar að gera áætlun um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. Innan nokkurra daga hefst hér á Íslandi Norðurlandaráðsþing. Það er enginn vafi að þar verða þessi mál verulega til umr. þó að enn sé ekki unnt að álykta um utanríkismál á þingi Norðurlandaráðs.

Á þessum fundi í Osló flutti Anker Jörgensen tillögu um að halda norrænan þingmannafund um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði nú í haust. Sú hugmynd kom raunar fram á áðurnefndum fundi í Kaupmannahöfn. Varla er ástæða til að ætla annað en þessi fundur eigi sér stað og það er svo sannarlega frumkvæði sem ber að fagna. Það ber einnig að fagna því að kjarnorkuveldin hafa nú tekið upp viðræður um afvopnun að nýju. Meðan svo er er von til þess að við fáum að líta til framtíðar mannkynsins með bjartari augum.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að við lifðum nú í heimi sem kominn væri á lánaðan tíma. Ég skora á hið háa Alþingi að leggja gömul og ný flokkspólitísk ágreiningsmál til hliðar og taka höndum saman um að verja rétt hvers einasta Íslendings til að taka þátt í baráttunni fyrir heimi þar sem gereyðingarvopnum er hafnað. Aldrei hefur Alþingi Íslendinga fengið mikilvægara verkefni og aldrei hefur ábyrgð þess verið meiri. Ég trúi því og treysti að það rísi undir þeirri ábyrgð meðan til þess gefst tækifæri. Fái það óvit, sem vígbúnaðarkapphlaupið er, að æða áfram kann svo að fara að fulltrúar þjóðarinnar fái ekki annað tækifæri. Tíminn er okkur ekki lengur léður og skuldadagarnir kynnu að vera skammt undan fyrir vitund og vilja eða fyrir slys.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég legg til að þeirri þáltill., sem ég hef hér mælt fyrir, verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn. Hana bið ég að greiða fyrir skjótri afgreiðslu þessa máls.