14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

204. mál, geymsla kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni ræða þessa till. í einstaka atriðum, en tel þó rétt að fara nokkrum orðum um mál það er hún fjallar um og sömuleiðis víkja örfáum orðum að málflutningi hv. þm. síðasta ræðumanns, Guðrúnar Helgadóttur.

Við getum öll verið sammála um það að kjarnavopn eru hættuleg og ef þeim verður beitt, þá er fyrir höndum fimbulvetur mannkynsins. Þess vegna skiptir öllu máli að koma í veg fyrir að þeim verði nokkurn tíma beitt. Atlantshafsbandalagsríkin, sem við Íslendingar erum aðilar að, hafa lýst því yfir að þau muni aldrei undir neinum kringumstæðum beita valdi að fyrra bragði, hvorki atómvopnum eða hefðbundnum vopnum. Hættan er því ekki frá Atlantshafsbandalagsríkjunum, heldur er hættan sú að önnur ríki grípi til þessa örþrifaráðs. Ég er ekki með neinar getsakir í þeim efnum. Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því að mestu máli skiptir að stórveldin tvö komi sér saman um afvopnun og einkum fækkun og helst afnám allra kjarnavopna. En það gera þau ekki meðan annaðhvort telur á sig hallað í þeim efnum eða sér ógnað af kjarnavopnum.

Sem betur fer horfir nú betur en áður hvað snertir samningaviðræður stórveldanna um fækkun kjarnavopna. Reagan forseti Bandaríkjanna hefur sett sér og samninganefnd Bandaríkjanna og Bandaríkjunum það lokatakmark, að öllum kjarnavopnum verði útrýmt í heiminum. En þótt mestu máli skipti að þessi tvö stórveldi setjist að samningaborðinu og komist að niðurstöðu og síðan hefjist handa um framkvæmd afvopnunar, þá er því miður því svo farið í heiminum að fleiri lönd ráða yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til að búa til kjarnavopn og raunar hafa sum önnur lönd þegar búið sér til kjarnavopn.

Ég var á fundi um daginn þar sem einn ræðumanna taldi að það væri ekki mesta hættan að stórveldin gripu til kjarnavopna heldur væri mesta hættan sú að einhver þau önnur ríki, sem yfir kjarnorkuvopnum ráða, yrðu fyrst til í þeim efnum og af því báli mundu fljótlega kvikna önnur stærri, því að auðvitað er ekki unnt að heyja takmarkaða kjarnorkuvopnastyrjöld, það er óhugnanleg blekking. Því skiptir öllu máli, eins og ég nefndi áðan, að til kjarnavopna eða til vopna yfir höfuð verði ekki gripið í stórstyrjöld sem jafna má til heimsstyrjaldanna tveggja sem háðar hafa verið á þessari öld þótt raunsæi hljóti að leiða til þess að væntanlega verður ófriði ekki með öllu útrýmt í veröldinni eins og þau mörgu vopnuðu átök og styrjaldir, sem háðar hafa verið víðs vegar í heiminum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, bera vitni um þótt við hér í okkar heimshluta höfum notið friðar.

En ástæðan til þess að ég rifja upp er að það er ekki takmark í sjálfu sér að útrýma kjarnavopnum einhliða, krefjast einhliða afvopnunar, ef gagnaðili stendur grár fyrir járnum og getur sett öðrum þá kosti sem hann kýs. Við hljótum að miða að gagnkvæmri afvopnun undir tryggu alþjóðlegu eftirliti sem sér um að afvopnunin sé í raun framkvæmd. Við viljum ekki að einhver einn aðili geti sett öðrum sína úrslitakosti um það hvernig haga skuli málum heima fyrir og í samskiptum þjóðanna. Af þessu leiðir að til þess að tryggja frið með frelsi verðum við að líta á málin á breiðum grundvelli og ekki takmarka athugun málsins við okkur Íslendinga eina vegna þess að örlög okkar eru bundin örlögum annarra þjóða.

Ég efast um að það sé út af fyrir sig nokkur þörf á því að Alþingi með sérstakri samþykkt kveði svo á um að við Íslendingar viljum ekki geyma kjarnavopn á okkar landi. Það er yfirlýst stefna stjórnvalda allt frá því að kjarnavopn urðu til og sú stefna íslenskra stjórnvalda hefur verið ítrekuð hvað eftir annað eins og raunar er gerð nokkur grein fyrir í greinargerð með þeirri till. til þál. sem hér er til umr. Ég get vel fallist á þá frásögn og mætti raunar gera hana ítarlegri og nákvæmari og tíunda enn fleiri yfirlýsingar sem íslensk stjórnvöld hafa gefið um það að við Íslendingar viljum ekki kjarnavopn á okkar landi. En þess vegna er það því meira undrunarefni að hv. flm. Guðrúnu Helgadóttur sýnist vera umhugað um að telja bæði okkur trú um og öðrum — og það er auðvitað hættulegra og í það minnsta varasamara — að herstöðinni á Miðnesheiði, eins og hv. þm. komst að orði, megi jafnvel líkja, ef ég tók rétt eftir sem ég vona nú að hafi ekki verið, við kjarnavopnahreiður. Þetta er undarleg árátta hjá hv. þm. sem segist vilja Ísland kjarnavopnalaust og veit að Ísland er kjarnavopnalaust og tíundar í grg. þáltill. sinnar að stjórnvöld á Íslandi, hvaða afstöðu sem menn hafi til varnarliðsins á Miðnesheiði, hafi sagt og skuldbundið sig til að Ísland væri kjarnavopnalaust. Hvers vegna þá þessi árátta að telja sjálfum sér og öðrum trú um að herstöðin á Miðnesheiði sé kjarnavopnahreiður? Í hvaða tilgangi er þessi málflutningur í raun og veru viðhafður? Hann er fordæmanlegur að mínu mati, því að e.t.v. kunna einhverjir annars staðar í heiminum að trúa þessum orðum sem hafa við engin rök að styðjast.

Hv. þm. vék nokkuð að kjarnavopnalausum svæðum og þ. á m. að umr. um kjarnavopnalaus Norðurlönd. Ég hef aðstöðu til að ræða það mál sérstaklega þegar þáltill., sem flutt er sérstaklega um könnun á þátttöku okkar Íslendinga í kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum, kemur hér til umræðu og meðferðar. En ég vil á þessu stigi málsins aðeins ítreka það, sem fram hefur komið af minni hálfu áður, að ávallt þegar þetta málefni ber á góma hef ég tekið skýrt fram að ég teldi að við Íslendingar ættum að vera þátttakendur í þessari umr. um kjarnavopnalaus Norðurlönd. Um leið hef ég látið þá skoðun í ljós að það út af fyrir sig að lýsa Norðurlönd kjarnavopnalaus hefði litla þýðingu ef annað og meira fylgdi ekki með. Norðurlöndin eru kjarnavopnalaus og þau hafa lýst því öll yfir að kjarnavopn væru þar ekki geymd. Það væri þess vegna nær að leggja áherslu á að fá fram yfirlýsingu annarra ríkja, sem nú geyma kjarnavopn, um að þau gerðust kjarnavopnalaus. Þá væri um framfarir í afvopnun heimsins að ræða. Ég hef enn fremur tekið fram að það væri sjálfsögð ráðstöfun og sjálfsagt skilyrði af hálfu Norðurlandanna að gera þá kröfu til Sovétríkjanna sem næsta nágranna margra þeirra að kjarnavopnum sem að Norðurlöndum er beint frá Sovétríkjunum væri útrýmt, þ.e. að Sovétríkin lýstu yfir kjarnavopnalausu svæði á Kólaskaga og í Eystrasalti og Eystrasaltsríkjunum svo að dæmi sé nefnt.

Ég hef enn fremur bent á það að það væri lítið gagn í yfirlýsingu um kjarnavopnalaus svæði ef afleiðingin yrði eingöngu sú að sami fjöldi kjarnavopna yrði áfram til staðar eða jafnvel yrði aukinn fjöldi kjarnavopna til staðar eftir slíkar yfirlýsingar um kjarnavopnalaus svæði. Og þessi samþjöppun kjarnavopna yrði e.t.v. til þess að afleiðingin yrði að þeim yrði frekar beitt á sjó úti eða á ferð í hafinu. Við Íslendingar höfum bent á þá hættu að auðlindir sjávar yrðu eyðilagðar þó ekki væri nema að slys bæri að höndum ef sú verður þróunin. Allt þetta verður að skoða.

Þessu til viðbótar vil ég líka láta þess getið að eins og ég er þeirrar skoðunar að það sé blekking að tala um takmarkað kjarnavopnastríð þá er ég býsna smeykur um að það sé ákaflega mikil blekking að álíta að yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði geri gagn þegar í algleyming heljarorustu er komið. Ég held að þarna megi draga samasemmerki á milli e.t.v., að þarna sé um sams konar blekkingu að ræða, takmarkað kjarnavopnastríð og yfirlýsingu um kjarnavopnalaus svæði. Ef um það væri að ræða að kjarnavopnalaus svæði væru liður í afvopnun kjarnorkuveldanna, þáttur í einhverjum framförum í afvopnunarmálum, þá tel ég nokkuð hafa áunnist. En við skulum gæta þess að blekkja okkur ekki í þessum efnum heldur gera það einmitt að skilyrði fyrir yfirlýsingum sem taki til allrar framtíðar, að við viljum að þær séu raunhæfar og geri gagn, að samhliða eigi sér stað allsherjar afvopnun stórveldanna og kjarnavopnavelda yfir höfuð.

Við skulum einnig hafa það í huga að einmitt slíkt skilyrði knýr kjarnavopnaveldin til að gera raunhæfar ráðstafanir til afvopnunar en einhliða yfirlýsingar geta tafið fyrir að kjarnavopnaveldin geri nokkuð í málinu og sýni nokkurn lit afvopnunar. Ef kjarnavopnaveldin eru þeirrar skoðunar að þau geti ein stjórnað framvindu í þessum málum, annaðhvort þeirra stjórnað ferðinni eða þau bæði setið að þessum ógnarvopnum, þá e.t.v. sýna þau engan lit afvopnunar eins og mannkyninu er nauðsynlegt.

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, að víkja nokkuð að tilvitnunum hv. þm. í góðkunningja okkar, Mr. Arkin, sem hingað kom í heimsókn í desember s.l. Enn á ný ganga ummæli hans aftur, en þó nokkuð í breyttri mynd. Fyrir nokkrum árum var vitnað til þessarar sömu heimildar og þá fullyrt að kjarnavopn væru á Íslandi á friðartímum. Þegar Mr. Arkin kom hingað í heimsókn í desember s.l. tók hann fyrst af öllu fram að það væri rangt, hann hefði haft rangt fyrir sér þegar hann dró þá ályktun. Hér væru áreiðanlega engin kjarnavopn geymd. Ég bið nú hv. þm., Guðrúnu Helgadóttur, að taka a.m.k. mark á þessum ummælum Arkins úr því hún vitnar til hans og vera ekki að gera því skóna sem ekki er.

Í desember afhenti Mr. Arkin forsrh. og mér plagg sem hann taldi hafa inni að halda heimild Bandaríkjaforseta um að flytja kjarnavopn hingað til Íslands á ófriðartímum án leyfis íslenskra stjórnvalda. Mánuði síðar kom þetta mál upp í Kanada. Þá hafði fréttaritari hljóðvarpsins samband við Mr. Arkin og þá sagði Mr. Arkin, eftir að hafa beðíð fréttaritarann um frest til að athuga málið betur, að hann hefði nú endurskoðað ályktunina sem hann dró í desember og tók það fram að sennilega væri það í þessu plaggi annars staðar að Bandaríkjastjórn eða hermálaráðuneyti Bandaríkjanna eða bandaríski herinn hefði því aðeins þessa heimild forsetans ef fengið væri áður leyfi íslenskra stjórnvalda til slíks flutnings kjarnavopna á ófriðartímum.

Og enn höfum við nú, mánuði eftir Kanadauppákomuna, nýja skýringu og skilyrði, þ.e. að hafi Mr. Arkin haft skjal undir höndum sem byggja megi á þá sé ekki um að ræða heimild Bandaríkjaforseta til varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna eða Bandaríkjahers að flytja kjarnavopn til Íslands að fengnu leyfi íslenskra stjórnvalda, heldur þurfi nýja heimild Bandaríkjaforseta áður en hafist er handa um slíkan flutning, þ.e. að þarna sé algerlega um áætlun að ræða sem sé gerð til þess að vera viðbúin öllum hugsanlegum og jafnvel „óhugsandi tilvikum“. Þannig hefur komið í ljós þessa tvo mánuði síðan Mr. Arkin var hérna — að ég nú ekki segi frá fyrstu staðhæfingu hans fyrir örfáum árum, að hér væru geymd kjarnavopn á friðartímum — að jafnvel skv. hans eigin skýringum sé um hvert skilyrðið á fætur öðru að ræða og undir öllum kringumstæðum bundið leyfi íslenskra stjórnvalda.

Það er auðvitað mál út af fyrir sig hvort menn eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa varnir hér á landi og þar af leiðandi varnarlið. En ég held að við Íslendingar séum allir sammála um að hér verði ekki geymd kjarnavopn. Og ef við erum sammála um það að hér verði ekki geymd kjarnavopn finnst mér það ekki þjóðhollt að telja sjálfum sér trú um að svo sé gert og breiða það út meðal annarra þjóða sem einhverjar gætu e.t.v. gert sér það að átyllu ef illa færi og til átaka kæmi, og afsakað sig með því gagnvart umheiminum ef slíkar þjóðir gripu til óhæfu- og voðaverka gagnvart Íslandi. Það er enginn málflutningur sem betur er fallinn til að gera Ísland að skotmarki ef til átaka kemur en einmitt þessi málflutningur. Ég veit að hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerir þetta ekki viljandi og gerir sér ekki grein fyrir hvaða áhrif hennar málflutningur gæti mögulega haft ef einhverjir tækju mark á honum. En ég bið hv. þm. að hugleiða það.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að orðlengja frekar um þessa þáltill. á þessu stigi málsins. Utanrmn. fær hana til meðferðar ásamt öðrum þeim þáltill. sem hér hafa verið fluttar, m.a. um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum, svo og till. um frystingu kjarnavopna og fleiri slíkar tillögur. Ég hef áður látið í ljós að þegar þessum till. öllum hefur verið vísað til utanrmm. vil ég leggja áherslu á að utanrmn. komi sér saman um meðferð þeirra og afgreiðslu. Í því sambandi hef ég bent á að það væri æskilegt að Alþingi Íslendinga kysi nefnd til þess að fara rækilega ofan í öll þessi mál, bæði hvað snertir þátttöku Íslands og hlutverk til þess að leggja afvopnunarmálum í heiminum almennt lið og hvað Íslendingum er best gert í þeim efnum svo að þeir megi í framtíðinni lifa bæði í friði og njóta frelsis.