14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

204. mál, geymsla kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Menn hljóta að spyrja þegar stórveldin standa ekki bara grá fyrir járnum, heldur grá fyrir kjarnorkuvopnum: Hvað er öryggi? Ég held að það sé alveg ljóst að við þessar aðstæður er það svo að ef til kjarnorkustyrjaldar milli þessara stórvelda kemur er ekkert öryggi til, engu verður þyrmt, það er allt búið. Þetta þýðir í mínum huga að við getum ekki talað við þessar aðstæður um öryggi Íslands. Það er ekki til lengur sem hugtak, eitt sér og sjálfstætt. Það sem er í húfi er öryggi allra. Það er sameiginlegt öryggi þeirra sem byggja veröldina eða a.m.k. norðurhvel jarðar. Eina öryggið, eina leiðin er að kjarnavopnum verði aldrei beitt því að það eru ekki til neinar varnir gegn slíkum vopnum. T.d. eru hugmyndir Reagans Bandaríkjaforseta um varnarviðbúnað í geimnum mjög gagnrýndar nú vegna þess að slíkt kerfi sé hæpið að unnt sé að búa til og reyndar líka vegna þess að það geti verið óskynsamlegt að gera það. Það gæti jafnvel aukið freistinguna ef það tækist að einhverju leyti. Og í þriðja lagi gæti það orðið til þess að efna til nýs kapphlaups. En hvað sem því líður er við þessar aðstæður ekki til neitt einstakt og sjálfstætt öryggi fyrir einhvern landskika, heldur er einungis til sameiginlegt öryggi allra sem byggja norðurhvelið a.m.k.

Ég held við verðum að skoða allar tillögur, sem koma fram um öryggismál og þar með varnarmál Íslendinga, m.a. út frá þessum sjónarpunkti. Nú liggur alveg ljóst fyrir að Íslendingar vilja ekki hafa hér staðsett kjarnavopn og eru til um það margfaldar yfirlýsingar. Ég hef líka verið talsmaður þess að unnið yrði að því að Norðurlöndin yrðu lýst kjarnorkuvopnalaust svæði, en þá vitaskuld með það að markmiði að það yrði til þess að draga úr spennunni en stæði ekki eitt sér. Það er ekki gagn við þessar aðstæður að einhliða yfirlýsingu sem enginn hefur skuldbundið sig til að virða. Allar hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði verða að beinast að því að draga úr spennunni og ná til víðtækara svæðis, vera gagnkvæmar og hafa það að markmiði að reyna að auka öryggið. Ég hef reyndar talið að það væri þá æskilegt og reyndar mjög æskilegt að jafnframt yrði dregin slík rein kjarnorkuvopnalauss svæðis alla leið frá Norðurhöfum og suður á Balkanskaga, þar sem mætast austrið og vestrið eins og þau eru skilgreind í okkar daglegu umræðu, m.a. vegna þess að ég held að það sé ekki skynsamlegt að hlaða upp vopnunum á þessu svæði þar sem þau eru svo nálægt andstæðingunum. En hvað sem menn gera í þessum efnum held ég að nauðsynlegt sé að það gerist með skilningi og þátttöku beggja aðila, báðir aðilar taki þátt í því og leggi sitt af mörkum og ábyrgist það sem menn eru að gera.

Er nokkuð verra að gefa yfirlýsingu eins og þá sem hér er gerð tillaga um? spurði hv. síðasti ræðumaður, Haraldur Ólafsson. Gerir það nokkuð til? Já, ég held að það sé verra. Ég held að það sé verra vegna þess að hér er um einhliða yfirlýsingu að ræða sem ekki krefst neins af umhverfi sínu. Ég held að hér séu skref eftir sem við eigum að nota til að draga úr spennunni, til að fá raunverulegan árangur í afvopnunarmálum, til að reyna að auka öryggið, til að það verði dregið úr áhættunni, og það verði liður í víðtækara samkomulagi.

Hvað eina sem við gerum í þessum málum verðum við að leggja nokkrar mælistikur ef það á að horfa til framfara, ef það á að vera partur af því að öryggið aukist sem einungis er til í þeim skilningi að það sé sameiginlegt öryggi.

Verður síður stríð ef við gerum eitthvað tiltekið? Það á að vera mælikvarði númer eitt. Ég held að sé Ísland lýst kjarnorkuvopnalaust sé stuðlað að því að það verði síður stríð ef það er liður í stærra samhengi, en ekki ef það er gert eitt sér.

Í öðru lagi hlytum við að spyrja: Verður þessi aðgerð, hver svo sem hún er af okkar hálfu, til þess að draga úr spennu? stuðlar það frekar að jafnvægi, dregur það úr tortryggni? Ég óttast að einhliða skref af því tagi sem hér er gerð tillaga um muni í rauninni vekja tortryggni, muni ekki verða til þess að auka jafnvægi, muni ekki verða til þess að draga úr spennu.

Og í þriðja lagi hlytum við að spyrja: Stuðlar það að afvopnun? Ísland er kjarnorkuvopnalaust. Það mundi ekki vera um afvopnun í þeim skilningi að ræða. En ef þetta er gert einhliða og eitt sér án þess að nokkuð annað gerist jafnframt hefur ekkert gerst nema það að menn hafa gefið þessa yfirlýsingu. En ég vil að þegar og ef svona yfirlýsing verði gefin hafi hún verið liður í því að afvopnunarskref væru stigin, að hún beinlínis yrði til þess að stuðla að afvopnun.

Herra forseti, þetta eru mín viðhorf til þessa máls.